Jafnræði til náms eða jafnræði til bílastæða?

Ríkisháskólarnir hafa farið fram á 20.000 kr. hækkun innritunargjalda úr 45.000 í 65.000 en ekki fengið heimild til þess frá menntamálaráðherra og í kjölfarið boða þeir niðurskurð á skólastarfi. Innritunargjöld eru samkvæmt orðanna hljóðan gjöld til innritunar og eiga því að standa undir kostnaði við ýmiskonar utanumhald í tengslum við skráningu og umsýslu við hvern nemenda. Ef kostnaðurinn við það er hærri en 45.000 kr er ekki nema sjálfsagt að skólarnir fái leyfi til að hækka innritunargjöldin. Vandséð er þó að það ætti að hafa áhrif á kennslu eða skólastarf. Það er eitthvað annað sem útaf stendur þar. Skólana vantar e.t.v. hærri framlög á fjárlögum, leyfi til að taka upp skólagjöld eða þeir þurfa að sníða sér stakk eftir vexti og takmarka aðgang að skólunum. Það kemur semsagt ekki allt fram í fréttinni.

Ýmislegt bendir þó til að skólana vanti ekki peninga. Þeir veita til dæmis allir nemendum og kennurum ókeypis bílastæði. Þó getur engin haldið því fram að þessi stæði séu ókeypis né landið sem fer undir þau. Þau hafa öll verið borguð af skólunum eða af fasteignapeningum þeirra og leggja þar með fjárhagslegar byrðar á rekstur skólanna. Undantekningin er kannski HR en þar kostaði Reykjavíkurborg gerð bílastæðanna á lóð HR. Þar liggja bestu upplýsingarnar fyrir um kostnaðinn sem af bílastæðum hlýst. Þau munu hafa kostað um 300 milljónir króna skv. áætlun. Til viðbótar var reistur heill vegur fyrir um 500 milljónir króna til að koma umferð í skólann. Lífsstíll þeirra sem mæta á bíl í HR var niðurgreiddur um 300 milljónir fyrir stæðin og er það skattlaus og gjaldfrí niðurgreiðsla á einum ákveðnum samgöngumáta umfram aðra samgöngumáta. Þá mætti telja Nauthólsveg með í dæminu og nemur þá niðurgreiðslan allt að 800 milljónum króna.

HR4Sjaldan launar þó kálfurinn ofeldið. Nemendur (og kennarar?) þökkuðu fyrir sig með því að leggja á gróðureyjum milli bílastæðanna þannig að menn neyddust til að reisa moldargarða til að hindra að bílum yrði lagt þar.

Niðurgreiðslur á lífsstíl þeirra sem mæta á bíl í ríkisháskólana er samskonar en tölurnar liggja ekki uppi á borðinu þar.

Við erum flest sammála um að borga að langmestu leyti fyrir skóla og sjúkrahús með skattgreiðslum okkar og það er talið það sjálfsagt að það hefur meira segja verið sett í lög. Þó borgum við komu- og innritunargjöld og talað er um kostnaðarhlutdeild notenda þar. Hafið þið heyrt talað um kostnaðarhlutdeild þeirra sem nota bílastæði?(1) Það sem virðist skipta skólana meira máli en jafnræði til náms er jafnræði til bílastæða. Þó kveða engin lög á um skyldu til að útvega mönnum ókeypis bílastæði, hvorki fyrir nemendur eða kennara.

Hvernig væri að hætta að niðurgreiða þennan lífsstíl, að mæta á bíl í skólann? Það er einfaldlega hægt að taka 15.000 kr. gjald á hverri önn fyrir bílastæði og þar með gætu skólarnir fengið sömu upphæð og þeir fengju með hækkun innritunargjalda. Sennilega er sanngjarnt gjald fyrir einfalt bílastæði til að standa undir landverði, gerð og rekstri í langtímaleigu í kringum 30.000 kr. á ári. Í miðborginni er dæmi um að starfsmenn fái 68.000 kr. á ári í skattlaus hlunnindi  til að þeir geti greitt fyrir bílastæði.

Þurfa skólar sem ákveða að niðurgreiða lífsstíl nemenda og kennara um 30.000 kr. á ári að hækka innritunargjöld um 20.000 kr. á ári? Ég held ekki. Úr því skólarnir geta sólundað þessum peningum í bílastæði sem þeir afhenda endurgjaldslaust þurfa þeir varla að hækka innritunargjöld.

HR loftmynd1 Stæðin í HR kosta 300 milljónir króna.

 

HI loftmynd1

 

 

En hvað kosta stæðin í Háskóla Íslands?

 

 

HR2

 

Svona launar kálfurinn ofeldið.

 

HR3

 

 

Og svona líka

 

 

HR5

 

 

Það er langt að ganga fyrir lúin bein.

 

HR7

 

 

Þannig að það er best að leggja alveg við skólann.

 

HR1

 

 

Til að koma í veg fyrir að bílum sé lagt á graseyjum þarf að reisa garða næst skólanum.

 

HR6

 

 

Hvað skyldi hvert stæði kosta fyrir reiðhjól?

 

 

 

1. Á höfuðborgarsvæðinu eru talin vera nokkur hundruð þúsund bílastæði sem ekki eru við heimili. Um 1% þessara stæða eru með gjaldskyldu. Þau eru í miðborginni og skammtímastæði við Landspítalann og í boganum við Háskóla Íslands. Hvers vegna er sjálfsagt að niðurgreiða bílastæði á Íslandi? Áætla má að niðurgreiðslur með bílastæðum nemi nokkrum milljörðum króna á ári. 


mbl.is Skráningargjöld mun lægri en skólagjöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg sammála því sem fram kemur í þessari góðu umfjöllun.  Það ríkir hálfgerð  „vilta vesturs“ ástand í bílastæðamálum landsins.  Flestir telja sig eiga rétt á ókeypis bílastæðum nánst hvar sem er.  Skattgreiðendur greiða gerð margra þeirra fullu verði en þeir sem nota þau þurfa ekkert að greiða nema á sérvöldum stöðum. 

Þessi hugsun hefur farið illa með borgina þar sem mikið af dýrmætu landi er lagt undir bílastæði.  Á Keflavíkurflugvelli  er hins vegar rukkað fyrir öll bílastæði fyrir miklu meira en sem nemur kostnaði við gerð þeirra og eftirlit með þeim og flugstöðin hagnast umtalsvert.  Spurning af hverju háskólarnir á höfuðborgarsvæðinu gera þetta ekki. 

Ekki er lagður virðisaukaskattur á afnotagjöld af bílastæðum eins og víðast í löndunum í kring um okkur né hafa afnot af verðmætum bílastæðum verið skattlögð sem hlunnindinn eins og réttilega er nefnt.  Hér þarf að verða breyting á.

F.h. Samgöngufélagsins,

Jónas  Guðmundsson

   

Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 09:48

2 identicon

Þetta er ástæðan fyrir lélegu borgarskipulagi og almenningssamgöngum í hnotskurn. Auðvitað á að rukka fyrir þessi stæði.

Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 11:10

3 Smámynd: Kommentarinn

Sammála. Við eigum að hætta þessu einkabíladekri.

Kommentarinn, 8.1.2011 kl. 11:26

4 identicon

Athyglisverð skrif.

Er sammála þér, að vel mætti innheimta gjöld af notendum bílastæða við opinberar stofnanir.

Mjög réttlátt, að bílastæði standi undir kostnaði, sé slíkt möguleg, líkt og þú nefnir með bílastæði við Leifstöð. Og enn betra, ef hafa má af þeim einhvern hagnað. Slíkt gæti leitt af sér en betri bílastæði.

Réttlátt er að fólk borgi fyrir það sem það notar.

Ekkert hér í heimi er ókeypis.

Hvað um skóla, heilsugæslu, dagsvistun barna, elliheimili ?

Ætli viðmiðið sé ekki, að sú samfélagsþjónusta sem við teljum sjálfsagðan aðgengilegan hlut fyrir meðaltalsíbúa,  sé til staðar og öllum heimil er á þurfa að halda, án þess að þurfa að greiða hana fullu verði.

Ýmsa þjónustu samfélagsins er einnig hægt að misnota, félagslegar bætur, sjúkrahúsþjónustu, samgöngukerfið.

Hvað um þá sem reykja ? Eiga þeir að fá sömu læknisþjónustu og ég ? Margsannað mál, að þeir verða veikari oftar en þeir sem reykja ekki. Eigum við ekki að láta reykingafólk borga meira fyrir læknisþjónustu, eða neita því um þjónustuna ella ?

Ætti ég sem barnslaus einstaklingur að borga minni skatt, af því ég á engin börn ? Eða ættu erfingjar mínir að fá skattaafslátt, ef ég dey fyrir 67 ára aldur, eða fengi ég skattaafslátt, ef ég skyldi verða svo heilsuhraustur að ég þyrfti lágmarks félagslega þjónustu í ellinni ?

Bílar eru líkt og reiðhjólið, frábær uppfinning. Hafa létt mörgum lífið, aukið frelsi fólks.

Lengi má deila um, hvort bifreiðaeigendur borgi að fullu, fyrir notkun bifreiða sinna. Þér þætti eflaust fróðlegt að lesa um þessi mál á vefsíðu Félags Íslenskra Bifreiðaeigenda.

Ýmsir skattar og gjöld sem tímabundið voru lögð á  bifreiðaeigendur og ætluð í annað en greiðslu vegna kostnað samfélagsin af notkun bifreiða, eru ennþá inheimt. Ég er að tala um bifreiðagjöld.

Kynntu þér málið, hvers vegna þau voru lögð á og í hvað sú upphæð sem fékkst með þeirri skattlagningu átti að fara.

Ætli það sé ekki svipað með bifreiðagjöldin og þá opinbera innheimtu sem fæst með sölu reiðhjóla, að skattur á þessa málaflokka skilar sér ekki til þeirra sem hann greiða.

Ég skyldi glaður borga fyrir stæði undir bifreið þá sem ég nota, (stundum) sem og stæði fyrir reiðhjólið mitt, við opinberar byggingar. En ég vil þá fá sómasamlegt bíla-eða hjólastæði í staðinn.

Fyrir bílinn vil ég malbikað, upplýst, stæði, sem er haldið er hreinu allan ársins hring, meðan viðkomandi stofnun er opinn.

Fyrir reiðhjólið vil ég stæði sem veitir skjól fyrir regni og vindi, veitir mér möguleika á að læsa hjólinu við jarðfasta festingu.

Stæði fyri bíla og reiðhjól ættu að vera með öryggiseftirliti.

Fyrir þetta þarf að borga.

Undirritaður er bæði mikill áhugamaður un bíla og hjólreiðamaður, barnslaus og reyklaus. Var aldrei í dagsvistun.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 8.1.2011 kl. 13:09

5 Smámynd: Árni Davíðsson

Takk fyrir athugsemdirnar.

Merkilegar spurninga og upplýsingar Heimir.

Ástæðan fyrir því að alltaf er nóg af bílastæðum en venjulega engin hjólastæði við byggingar er tafla í skipulagsreglugerð nr. 400/1998,  kaflinn um deiliskipulag 3.1.4. Hún er síðan tíunduð áfram í byggingarreglugerð. Þar eru gefnar upp ákveðnar tölur um fjölda bílastæða sem er lágmarksfjöldi bílastæða við hús. Taflan var ekki í textanum á rettarheimild.is fyrr en eftir ábendingu. Þessi tafla lætur lítið yfir sér en er ásamt textanum sem kemur á undan eini skriflegi lagalega bindandi textinn um bílasamfélagið Bílland, sem við búum í. Þó er hann einungis lítil textaleg staðfesting á því andrúmslofti sem hefur ríkt í þessu landi.

Textinn á undan töflunni er þessi:

"Ákvæði um fjölda bílastæða, og stæða fyrir reiðhjól þar sem það á við, skulu sett hverju sinni í deiliskipulagi á grundvelli stefnu aðalskipulags. Eftirfarandi lágmarksákvæði gilda varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti."

Afleiðinginn er sú að þegar bygging er reist eru byggð bílastæði á sama tíma sem eru innifalinn í byggingarkostnaði. Venjulega eru ekki sett hjólastæði við bygginguna fyrr en síðar. Þá eru þau byggð  fyrir rekstrarfé viðkomandi stofnunar og eru þá venjulega höfð sem ódýrust og eru þá af ófullnægjandi gerð og ekki yfirbyggð. Hver bíll fær um 300.000 kr stæði meðan hvert hjól fær pláss í 5 hjóla gjarðarbana sem kostar 5.000 kall. Venjulega á þeim stað við húsið sem er með mestum sviptivindum. Það er því betra að læsa hjólinu við næsta ljósastaur.

Undirliggjandi ástæðan bílasamfélagsins er þó sú að ekki er tekin sanngjörn leiga fyrir landið sem undir fer. Þannig er hægt að sólunda um helming byggingarlands á höfuðborgarsvæðinu undir bílastæði og vegi og helgunarsvæði vega. Ef það væri borgað eitthvað sem væri nálægt markaðsverði myndu menn finna hagkvæmari not fyrir landið.

Þá má benda á nokkrar fyrri færslu hjá mér um svipað efni:

Miklabraut í jarðgöngum

Meira um Miklubraut í jarðgöngum

Gjaldfrí bílastæði við Háskólann og Landspítalann?

Óhagstæður samanburður fyrir höfuðborgina.

Árni Davíðsson, 10.1.2011 kl. 00:13

6 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mikið er ég sammála þér, Árni. Eitt vildi ég einnig sjá í betra lagi: Strætósamgöngur. Tíðari ferðir á staði eins og háskólana og vagnar sem geta tekið fleiri hjól upp í.

Úrsúla Jünemann, 10.1.2011 kl. 11:29

7 Smámynd: Árni Davíðsson

Tek undir það Úrsúla. Ég held að þetta sé hluti af sama teningi eins og ég hef bent á í bloggi um að fjölga farþegum í strætó.

Árni Davíðsson, 11.1.2011 kl. 22:52

8 identicon

Ég HELD að það sé farið að rukka fyrir stæðin við Odda í HÍ. Er ekki með það á hreinu því ég er ekki á bíl sjálf og fíla það. En ég HELD að sú sé raunin. En ef svo er þá er það náttúrulega bara dropi í hafið.

Flottur pistill. Ég er sérstaklega ánægð með athugasemdina um það að réttast væri að rukka þá sem nota stæðin reglulega um 15.000 kr á önn í staðinn fyrir að hækka skólagjöldin hjá öllum. (NB þá er ég búin með háskólann í bili, þannig að ég er ekki að tala sem eiginhagsmunaseggur :) )

Rúna Vala (IP-tala skráð) 12.1.2011 kl. 22:31

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir góðan pistil Árni.

Arnar Pálsson, 1.2.2011 kl. 16:08

10 identicon

Sammála síðustu athugasemd...takk fyrir góðan pistil Árni

klara (IP-tala skráð) 2.2.2011 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband