Ef öll bílastæði væru verðlögð m.v. kostnað?

Stundum koma staðreyndir upp á yfirborðið um kostnað við bílastæði. Eitt dæmi er þegar Reykjavíkurborg kostaði 300 milljónir samkvæmt fjárhagsáætlun til að byggja bílastæðið við HR á verðlagi ársins 2009. Hér er annað dæmi. Hvert stæði kostar um 9-10 milljónir króna eða um andvirði tveggja venjulegra bíla en andvirði eins bifreiðahlunnindabíls. Leigugjaldið fyrir kvöld- og næturstæði verður á bilinu 12-15 þúsund á mánuði, dagpassinn á 18-20 þúsund og sólarhringspassa líklega á 25 þúsund krónur. Leiga á sér­merktu stæði verður á bil­inu 60 til 70 þúsund á mánuði.

Þetta eru auðvitað dýr stæði en þó ekki svo mikið dýrari en önnur stæði. Oft er talað um að í venjulegum hálfniðurgröfnum bílakjallara sé verðið á stæðinu um 5-6 milljónir, í bílahúsi ofanjarðar um 4-5 milljónir og í stæði á yfirborði um 0,8-1,0 milljónir. Þetta er bara byggingakostnaður en landverð er ekki reiknað inn í stæði sem taka pláss á yfirborði, sem á við um bílastæði á yfirborði, bílastæðahús og oft niðurgrafna kjallara líka.

Hvað mundi nú gerast ef öll bílastæði væru verðlögð miðað við kostnað við byggingu og viðhald og þjónustu við þau svo ekki sé minnst á landverð fyrir stæði á yfirborði? Sennilega er meðgjöfin með hverju "ókeypis" bílastæði allnokkur. Það verð er ívilnunin (eða niðurgreiðslan) með þessum ferðamáta sem bílaeigendur njóta umfram aðra ferðamáta.

Hér kemur fram að við áætl­un húsa­leigu sé al­gengt að nota marg­fald­ar­ann 120-160. Marg­feldið vís­ar til hlut­falls leigu­verðs af stofn­kostnaði fast­eign­ar­inn­ar. Ég eftirlæt lesendum að gera þennan útreikning og átta sig á hvað er raunverulegt leigugjald fyrir hvert bílastæði á  mánuði hvort heldur er í langtímaleigu eða skammtímaleigu. Skammtímaleigan er auðvitað höfð hærri eins og í stöðumæli enda hefur leiguverðið þar líka það hlutverk að tryggja umsetningu í stæðinu þannig að það losni og verði aðgengilegt fyrir aðra bílaeigendur sem þurfa að sækja þjónustu í nágrenni stæðisins.

Að hafa rétta verðlagningu á gæðum eins og bílastæðum skiptir verulegu máli. Ef bílastæði hefðu verið verðlögð frá upphafi miðað við kostnað og landnotkun hefði þróun þéttbýlis á Íslandi orðið önnur en hún varð. Að skaffa ókeypis bílastæði í óhóflegu magni hefur kostað þjóðfélagið gríðarlega fjármuni og haft skemmandi áhrif á þróun og skipulag byggðar. Krafan um þessa ófjárfestingu heldur þó áfram í nýrri íbúðabyggð og hún er rekin áfram af ótta skipulagsyfirvalda og almennings við bílastæðaskort. Þar væri ekkert að óttast ef bílastæðin væru verðlögð eftir kostnaði. Það yrði ekki skortur því eftirspurnin eftir stæðunum er minni ef þau eru rétt verðlögð.

Það ætti að vera gjaldskylda í öllum opnum bílastæðum í öllu þéttbýli. Sala á íbúðum og bílastæðum ætti að vera aðgreind og bílastæði ætti mun oftar að vera skipulögð innan hverfis frekar en innan hverrar lóðar til að fá samnýtingu stæða fyrir íbúðir og þjónustu. Sala á þeirri þjónustu sem bílastæði eru ætti að vera eins og sala á hverri annarri þjónustu sem fólki stendur til boða þó oft gæti hún verið rekin af húsfélögum eða húsnæðisfélögum.

Virðingarleysi landans fyrir bílastæðum má sennilega að miklu leyti skýra með því að hann lítur á bílastæði sem gæði sem honum á að standa til boða frítt. Þar gildir að virðing fæst með verði. 

Mynd. Stæðin við HR kostuðu skattborgara a.m.k. 300 milljónir.

HR loftmynd1

 

 

 

 

 

 

Mynd. Sjaldan launar þó kálfurinn ofeldið. Af "bílastæði" HR.

HR4

 

 

 

 

 

 

Mynd. Virðingar leysi landans. Virðing fæst með verði. Frá sundlaug Kópavogs.

Bílar 1


mbl.is Bílastæðin á 60-70 þúsund kr. á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli bílaeigendur borgi þetta ekki fljótt upp með öllum þeim sköttum og gjöldum sem fylgja því að vera á þessu blessaða ökutæki, annað en t.d. hjólreiðafólk sem borgar ekki krónu fyrir allt sitt hafurtask..

Halldór (IP-tala skráð) 23.11.2018 kl. 21:13

2 identicon

Hvað mundi nú gerast ef hjólreiðastígar, götur og gangstéttir sem hjólreiðafólk notar væru verðlagðir miðað við kostnað við byggingu og viðhald og þjónustu við þá svo ekki sé minnst á landverð? Sennilega er meðgjöfin með hverjum "ókeypis" metra sem farinn er á reiðhjóli allnokkur. Það verð er ívilnunin (eða niðurgreiðslan) með þessum ferðamáta sem hjólafólk nýtur umfram aðra ferðamáta. Þarf ekki að fara að skattleggja hjólafólk sérstaklega? Ætti að leggja sérstagt gjald fyrir notkun á umferðarmannvirkjum á hvert hjól sem selt er? Það gæti til dæmis verið 200% af innkaupsverði eða fastar 250.000 krónur per hjól. Skráning og eftirlit með 50.000 króna árgjaldi kæmi einnig til greina.

Vagn (IP-tala skráð) 23.11.2018 kl. 21:28

3 Smámynd: Árni Davíðsson

Af því þið minnist á mannvirki fyrir hjólandi. Það eru hér um bil allir fullorðnir hjólreiðamenn einnig ökumenn og aka kannski ekki minna en aðrir og greiða því jafn mikið til ríkisins. Þá má geta þess líka að um 61% íbúa á höfuðborgarsvæðinu hjólaði yfir árið i ferðavenjukönnun árið 2014. Umferðarkerfið á höfuðborgarsvæðinu er fyllilega nógu stórt utan hvað það verða umferðartafir í stuttan tíma á morgnanna og seinnipartinn. Þá er spurning hvernig best er að minnka þær tafir, hvernig náum við mestum árangri með lægstum tilkostnaði? Í þeim samanburði koma aukin umferðarmannvirki fyrir bíla ekki vel út sem eina lausnin. Þær hugmyndir sem hafa verið viðraðar í þeim efnum hlaupa á tugum ef ekki á annað hundrað milljarða en þrátt fyrir þær framkvæmdir munu tafir aukast í framtíðinni. Það er mun árangursríkara fyrir alla vegfarendahópa og kostar minna að breyting verði á ferðavenjum og að hlutdeild þeirra sem fara með öðrum hætti en með einkabíl aukist. Til að draga úr umferðartöfum á annatima þarf jú aðeins að breyta hlutdeild ferðavenja um örfá prósent því það er bara efstu prósentin sem valda umferðartöfum á annatíma.

Að þétta byggð og blanda þannig að þjónusta verði meiri í nærumhverfi skiptir miklu máli. Að bæta almenningssamgöngur og gera þær fljótvirkari og óháðar annarri umhferð einnig. Að byggja göngu- og hjólastíga auðveldar fólki að velja göngu og hjólreiðar og hefur margvíslega aðra kosti fyrir lýðheilsu og fleira.

Af því ég byrjaði að ræða um bílastæði þá skiptir gjaldtaka af bílastæðum líka máli í þessu sambandi. Margar ferðir á bíl, einkum þær styttri, væru ekki farnar ef ekki væri "frítt" bílastæði í enda ferðar. Ef við getum náð sama árangri með því að taka lágt gjald fyrir bílastæði afhverju eigum við þá að eyða háum fjárhæðum í breikkun vega eða mislæg gatnamót?

Erlendis hefur verið áætlað hvað hver km kostar bæði einstaklinginn og samfélagið ef hann er ekinn á einkabíl, í almenningssamgöngum, hjólandi og gangandi. Það kemur kannski engum á óvart að hagkvæmni röðin er 1. ganga - 2. hjólreiðar - 3. almenningssamgöngur - 4. einkabíll.

Árni Davíðsson, 24.11.2018 kl. 13:39

4 identicon

Þú svarar ekki spurningunni, útúrsnúningar og réttlætingar á skattlagningu annarra hópa eru hvorki svör né rök. "Hvað mundi nú gerast ef hjólreiðastígar, götur og gangstéttir sem hjólreiðafólk notar væru verðlagðir miðað við kostnað við byggingu og viðhald og þjónustu við þá svo ekki sé minnst á landverð? Sennilega er meðgjöfin með hverjum "ókeypis" metra sem farinn er á reiðhjóli allnokkur. Það verð er ívilnunin (eða niðurgreiðslan) með þessum ferðamáta sem hjólafólk nýtur umfram aðra ferðamáta. Þarf ekki að fara að skattleggja hjólafólk sérstaklega? Ætti að leggja sérstakt gjald fyrir notkun á umferðarmannvirkjum á hvert hjól sem selt er? Það gæti til dæmis verið 200% af innkaupsverði eða fastar 250.000 krónur per hjól. Skráning og eftirlit með 50.000 króna árgjaldi kæmi einnig til greina."

Vagn (IP-tala skráð) 25.11.2018 kl. 20:28

5 Smámynd: Árni Davíðsson

Þú gleymir því að það eru sveitarfélögin sem byggja nánast allar götur, stíga og gangstéttir og þau fá enga hlutdeild í sköttum á bílum eða eldsneyti. Þessi mannvirki eru greidd af öllum fasteignaeigendum og útsvarsgreidendum í sveitarfélögunum. Það er því búið að borga fyrir þetta og það er engin ástæða til að taka sérstök gjöld af reiðhjólum, ekki freka en af skóm eða sokkum af þeim sem ganga um gangstéttir borgarinnar.

Árni Davíðsson, 26.11.2018 kl. 20:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband