Um Glaðheima og fleira

Mál Glaðheima í Kópavogi hefur nú aftur komist í hámæli í kjölfarið á sölu Kópavogs á landinu til tveggja fyrirtækja, Smáratorgs og Kaupangs. Þau kaupa samtals 9,6 ha. og greiða fyrir um 6,5 milljarða. Þetta land var í eigu Kópavogs en bærinn leysti til sín lóðarleigusamninga við hestamenn í Glaðheimum fyrir kosningar síðasta vor og greiddi þá tæplega 3,2 milljarða kr. sem mun vera fyrir hesthúsin á svæðinu. Að auki kostar bærinn flutning hesthúsasvæðisins og uppbyggingu nýrrar reiðaðstöðu og byggir nýtt áhaldahús bæjarins. Samtals á það að kosta tæplega 2 milljarða. Við þetta losna um 11,5 ha. af landi bæjarins en hluti fer undir vegi. Svæðið sem fyrirtækin kaupa er aukið með landi áhaldahúss bæjarins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kópavogur á við leigutaka á sínu landi og er fróðlegt að bera saman viðskipti bæjarins við þá undanfarið. Við Vatnsendahvarf átti bærinn við marga íbúa í einbýlishúsum sem höfðu lóðarleigusamninga við bæinn. Þar leysti bærinn til sín lóðarleigusamninga en samkomulag náðist ekki um eignarnámsbætur. Málið fór því fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Hún úrskurðaði að leigulandið á þessu svæði skyldi metið á um 4.000 kr./ m2 . Í landi Lundar í Fossvogsdal átti bærinn við afkomendur bóndans, sem hafði erfðafestusamning á landi Lundar en jörðin var í eigu bæjarins. Erfðafestan nær til reksturs landbúnaðarstarfsemi á jörðinni en landbúnaði var hætt og þarna reknar leiguíbúðir og húsakosturinn í niðurníðslu. Að frumkvæði fyrirtækisins Lundar ehf., sem mun tengjast afkomendum bóndans, gerði bærinn samning við fyrirtækið um uppbyggingu íbúðahverfis í Lundi. Lundur ehf. sér um gatnagerð og greiðir ¼ af gatnagerðargjöldum í bæjarsjóð og selur síðan íbúðirnar í almennri sölu á markaði.

Bera má saman fermetraverð í þessum viðskiptum bæjarins við leigutaka landsins. Fyrir lóðarleigusamninga í Vatnsendahvarfi mun bærinn borga um 4000 kr./m2. Fyrir heimild til að byggja íbúðir á landi bæjarins í Lundi mun bærinn fá um 4800 kr./m2 ef miðað er við að gatnagerðargjöld af meðalíbúð á svæðinu sé um 4 milljónir. Ef þau eru um 8 milljónir fær bærinn um 9.600 kr./m2. Fyrir land Glaðheima fær bærinn um 68.000 kr./m2!

Munurinn á þessu fermetraverði er sláandi og vekur mann til umhugsunar um hver græðir á þessum samningum. Í Vatnsendahvarfi er óhætt að segja að leigutakar ríði ekki feitum hesti frá viðskiptum sínum við bæinn. Í Lundi fá leigutakarnir afhenta eign bæjarins á silfurfati. Það sem þeir græða á hverri íbúð er munurinn á því sem þeir greiða á fermeter og markaðsverði á fermeter, sem samkvæmt samningum um Glaðheima gæti verið allt að 60.000 kr./m2. Uppreiknað gæti verðmæti eignar Kópavogs sem þeim var afhent numið 6 milljörðum króna. Að öllum líkindum er það þó ekki svo hátt og ræðst endanlega að markaðsaðstæðum þegar íbúðirnar eru seldar. Varlega áætlað hlýtur þetta þó að vera um 1-2,5 milljarðar kr. miðað við forsendur um 2-5 milljónir að meðaltali á íbúð. Hér hefði Kópavogur átt að leysa til sín leigusamninginn og vísa til Matsnefndar eignarnámsbóta. Byggingarlandið hefði síðan átt að úthluta hæstbjóðanda og hefðu þá þessir peningar runnið til bæjarins.

Við sölu Glaðheimalandsins fær bærinn 6,5 milljarða en þarf sjálfur að greiða um 5,2 milljarða. Mismunurinn 1,3 milljarðar er „hagnaður bæjarins“. Bærinn mun samt verða af umtalsverðum peningum því hann greiðir fyrir hesthúsin langt umfram matsverð húsakostsins og hvað það kostar að byggja sambærileg hesthús á nýjum stað. Þetta umframverð er hagnaður sem lendir í vösum eigenda hesthúsanna en ekki eiganda landsins. Þessir peningar gætu verið um eða yfir 1 milljarður króna. Meðal eiganda hesthúsanna eru lóðabraskararnir sem hleyptu málinu af stað í upphafi með uppkaupum á hesthúsum í hverfinu.

Hagsmuni hverra gætir meirihluti bæjarstjórnar? Eigandi landsins, Kópavogsbær og íbúar hans hafa borið skarðan hlut frá borði í viðskiptum með Lund og Glaðheima en bærinn hefur gætt hagsmuna sinna til hins ýtrasta við Vatnsendahvarf. Er meirihlutinn að gæta hagsmuni einhverra annarra en eigandans að landinu við Lund og Glaðheima? Eignarétturinn er heilagur og flokkarnir í meirihlutanum eru talsmenn eignaréttarins en samt meta þeir hann lítils þegar bærinn sjálfur á í hlut. Mér finnst sem meirihluti bæjarstjórnar hafi ekki gætt hagsmuna bæjarins og íbúa hans sem skyldi.

Það er óþolandi fyrir íbúa bæjarins þegar geðþótti ræður afgreiðslu mála og meðferð eigna bæjarins. Ef bærinn afhendir aðilum eignir sem eru mikils virði og geta orðið að miklum verðmætum er það lágmark að þeim sé úthlutað þannig að jafnræðis sé gætt eða að það sé gert að undangengu útboði þar sem hagstæðasta tilboði er tekið. Önnur vinnubrögð vekja grun um spillingu. Umboðssvik eru refsiverð. Mér finnst það geta verið athugandi hvort umboðssvik hafi verið framin þegar bærinn fær ekki sannvirði fyrir eignir sínar í landi eða greiðir óeðlilega hátt verð fyrir hesthús. Kópavogsbær er með þessu að gefa aðilum út í bæ um 2-4 milljarða af eigum sínum endurgjaldslaust.

Grein í Mogganum 10. febrúar 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband