Krónan - sökudólgur eða blóraböggull?

Í Hrunadansi síðustu mánaða hefur mörgum orðið tíðrætt um krónuna. Eigum við að halda í hana eða kasta henni og taka upp evru? Veigamikil rök með upptöku evru eru þau, að ódýrara sé að hafa evru en að reka eigin gjaldmiðil og með því muni vaxtastig færast nær því sem er í Evrópu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Helstu rök með krónunni eru, að hún gerir íslendingum kleift að breyta verðlagningu íslenskra afurða og þjónustu gagnvart útlöndum með því einu að breyta genginu. Fylgismenn krónunnar halda mjög fram seinna atriðinu en aðeins á annan veginn. Þeir tala um að gengi krónunnar geti fallið þegar harðnar á dalnum og þannig aukist samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og full atvinna er tryggð. Þeir tala nær aldrei um hina hlið krónunnar, þeirri sem við fengum að kynnast undanfarinn þensluár þegar hækkun á gengi krónunnar var notuð til að halda aftur af verðbólgunni innanlands.

Uppspretta ójafnvægis

Með byggingu Kárahnjúkavirkjunar var boginn spenntur að þanmörkum hagkerfisins til að fjölga kjósendum framsóknarflokksins í Austfjarðakjördæmi. Þar sem það tryggði ekki framgang flokksins á landsvísu flutti formaðurinn sig á mölina í næstu kosningum og Árni Magnússon félagsmálaráðherra efndi loforð flokksins um að hækka lánshlutfall íbúðalánasjóðs upp í 90% af íbúðarverði og jók hámarks lánsupphæðina. Með því var bönkunum að mestu ýtt út af íbúðalánamarkaði. Þeir svöruðu með lækkun vaxta og óheftum útlánum og fóru hreinlega í stríð við stjórnvöld. Vandi hagstjórnarinnar var sá að ruðningsáhrif framkvæmdanna fyrir austan voru svo mikil að hafa þurfti taumhald á öðrum framkvæmdum og einkaneyslu. Þegar framkvæmdunum lauk var strax farið að tala um aðrar álíka framkvæmdir en það er ekki endalaust hægt að draga það að byggja vegi, skóla og aðra innviði meðan verið er að virkja og byggja álver. Hvað þá að hægt sé að auka einkaneyslu með skattalækkunum og auka lánaframboð á sama tíma.

Verðbólga hamin með gengishækkun og þenslu

Seðlabankinn reyndi að halda aftur af verðbólgu með því að hækka stýrivexti. Það hélt nokkuð aftur af verðbólgunni en ekki með því að minnka þensluna heldur með því að hækka gengi krónunnar. Stýrivaxtahækkun jók þvert á móti þensluna því hún leiddi til aukins innstreymis fjármagns -> hærra gengis krónunnar -> aukinnar kaupgetu íslendinga erlendis -> meiri viðskiptahalla og skuldasöfnunar. Vaxtavopnið hefði mögulega hjálpað ef húsnæðislán væru með breytilegum vöxtum, þ.e. ef verðtryggingin hefði verið afnumin. Eins og kunnugt er lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu bankanna og gerði þeim þar með kleift að auka útlán en meira. Ekki vildu stjórnvöld heldur leggja gjald á útlendar lántökur. Ríkissjóður var rekinn með afgangi með því að skattleggja viðskiptahallann. Í stað þess að reyna að ná tökum á ástandinu réri ríkistjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar að því öllum árum að auka ójafnvægið og þensluna í þjóðfélaginu. Ráðist var í meiri opinberar framkvæmdir heldur en nokkurn tímann fyrr, vegir, jarðgöng, tónlistarhús, virkjanir og álver. Sveitarfélögin létu síðan ekki sitt eftir liggja í byggingaræði. Einkaneysla hefur samt verið aðal driffjöðurinn, bæði fasteignir og lausafé. Ríkið lagði sitt á vogarskálar einkaneyslunnar með því að lækka skatta, einkum á hæstu tekjurnar, og með því að auðvelda einstaklingum að svindla undan skatti með því að koma einkaneyslu sinni undir hatt einkahlutafélaga.

Hefði okkur vegnað betur með evru?

Ef evra hefði verið gjaldmiðill á Íslandi hefði þenslan sennilega orðið svipuð við sömu efnahagsstefnu og við sömu aðstæður aðrar. Seðlabankanum hefði þó ekki tekist að halda aftur af verðbólgunni með hækkun gengisins og hefði afleiðingin af því orðið há verðbólga. Líklegt er að það hefði neytt stjórnvöld til að horfast í augu við vandann frekar en að stinga höfðinu í sandinn eins og auðvelt var að gera með hækkun gengisins. Líklegt er að stjórnvöld hefðu sýnt meiri aga í peningamálum og skynsamlegri hagstjórn ef Ísland hefði verið með evru.

 Ég held samt að krónan sé blóraböggull. Þegar menn kenna krónunni um eru menn að firra aga- og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn ábyrgð. Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson bera mesta ábyrgð á því hvernig fór, sem formenn stjórnarflokkanna í síðustu ríkisstjórnum. Líkja má krónunni við eldhúshníf. Það er hægt að nota hann til að skera lauk og kjöt í pottrétt fram í eldhúsi eða það er hægt að reka mann á hol með honum inn i stofu. Það er ekki hnífnum að kenna hvað hann er notaður til. Segja má að ríkisstjórn sjálfstæðis- og framsóknarflokks hafi rekið þjóðina á hol með krónunni. Ef við tökum upp evru fjarlægjum við hnífinn úr húsinu - freistinguna fyrir stjórnmálamenn að viðhalda fölsku gengi. Kannski er það besta lausnin. Grundvallar spurningin er hvort við treystum stjórnmálamönnum til að halda á hnífnum. Geta þeir valdið því tæki sem krónan er?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband