Sturtan stífluð

Um daginn var rennslið niður í baðkarið aftur farið að stíflast. Andskotinn, hugsaði ég.

Baðkarið er mest notað sem sturta og því kemur óhjákvæmilega hár og sest í niðurfallið og stíflar það á endanum þótt það sé með sigti til að taka hárið. Á heimilinu eru núna 6 stelpur og eins og lög gera ráð fyrir eru þær með sítt hár.

Til að losa stífluna hef ég venjulega skrúfað sundur vatnslásinn, sem er frekar óþrifalegt verk og  vegna leti vill það dragast.

En neyðin kennir naktri konu að spinna og lötum eiginmanni að vinna.

Mér datt í hug hvort konan ætti ekki háreyðingarkrem sem ég mætti nota. Jú jú sagði hún og leit á mig eins og ég væri orðinn gaga. Það var til gamalt háreyðingakrem í úðabrúsa. Það má ekki vera lengur en 6 mínútur á húð, inniheldur bæði kalíumhýdroxíð og háreyðingarefnið kalíum thioglycolate. Ég stakk sogröri í stútinn á úðabrúsanum, rak rörið á bólakaf í tappann í vatnslásnum og úðaði þar til ekki tók meira við en þá var kremið búið. Síðan var beðið í um klukkutíma og skolað niður með kröftugri bunu eftir að sturtuhausinn var tekin af.

Huxflux, stíflan farin, einum brúsa færra í baðskápnum, ánægðar stelpur daginn eftir og enn ánægðari eiginmaður. Nú getur hann einbeitt sér að einhverju skemmtilegu eins og að setja aurhlíf á framhjólið á Gary Fisher hjólinu.

Hvernig virkar þetta svo. Í hárinu er keratin fjölliða. Thioglycolat háreyðingarefnið brýtur niður tvítengi mili brennsteinsatoma í keratíninu og veikir þannig byggingu þess en tvítengin gera keratínsameindina mjög stöðuga. Vítissódin, kalíumhýdroxíð, hjálpar til með því að éta upp fituna í tappanum og breyta henni í sápu og með því að æta upp önnur lífræn efni.

Það er samt hæpið að það borgi sig að kaupa háreyðingarefni sérstaklega til þess að losa stíflur.Það er rándýrt. En ef maður á gamlan ónotaðan brúsa er þetta góð leið til að farga honum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Hvað um gamaldags drullusokk?  Gerir hann ekkert gagn í svona aðstæðum?  Mig vantaði allt verkvit þegar ég flutti inn í fyrsta einbýlið og þurfti að sjá um öll svona mál sjálf.  Þakrennurnar voru stíflaðar og ég fór og keypti stíflueyði.  Gusaði því ofan í þakrennurnar og stíflan (lauf og mold) hvarf eins og dögg fyrir sólu.  Næsta dag voru rennurnar hins vegar horfnar, þetta stuff var allt of sterkt fyrir blikkið. 

Eftir það hafði ég vit á að bera vandamálið upp við starfsmenn búða sem selja svona stuff og dót.  Lærði þannig að smíða, mála, múra og pípuleggja.

Hjóla-Hrönn, 29.1.2010 kl. 11:54

2 Smámynd: Árni Davíðsson

Kannski gerir hann það stundum. Það er bara svo óskaplega mikið af hárum í þessu hjá mér að mér hefur ekki þótt það duga.

Það er líka hægt að nota stíflueyði. Þá mundi ég nota vítissóda, natríum eða kalíum hydroxíð, frekar en brennisteinssýru, vegna þess að það tærir ekki steininn i frárennslinu. Það eru engar plastlagnir hjá mér, bara pottjárn og steinsteypa. Ég hef ekki séð sterkari vítíssóda en um 25% síðustu ár í búðum en það dugar nú sennilega ef það fær að liggja í vatnslásnum.

Var þetta sýra sem þú settir í rennurnar? Ég mundi alls ekki nota brennisteinssýru í stíflur því hún tærir bæði járn og stein. Því síður að blanda sýrunni saman við klór því þá verður til klórgas Cl2 sem hvarfast í lungunum og myndar saltsýru. Það getur valdið ævilöngum skaða eða verið banvænt.  :|

Árni Davíðsson, 29.1.2010 kl. 21:49

3 identicon

Hvernig virkar drulluskokkurinn ("aurhlífin") á GFinum? Úr hverju bjóstu hann til og hvernig festirðu hann á? Áttu mynd?

kveðja að norðan,

jens

Jens Gíslason (IP-tala skráð) 1.2.2010 kl. 13:38

4 Smámynd: Morten Lange

Áhugavert :-) 

Hef sjálfur notað drullusokk síðustu skiptin þegar létt stífla myndist í baðkerfinu

 Hér er mynd og útskýring ( sem ég fann núna ) 

http://visindavefur.hi.is/svar.php?id=4646 

Morten Lange, 1.2.2010 kl. 21:04

5 Smámynd: Árni Davíðsson

"Vonandi" er lykilorðið í sambandi við drullusokka. Vandinn er að það er svo mikið af hárum að það kemst ekki upp í gegnum "ristina" í niðurfallinu á baðkarinu. Ef engin fyrirstaða eins og rist væri ofan eða neðan við "hártappann" væri þetta ekkert mál. Þá myndi drullusokkur redda þessu.

Jens. Ég ætla einmitt að taka myndir og setja þetta á bloggið við tækifæri. þetta er reyndar venjuleg aurhlíf sem er aðlöguð að gaflli með dempara.

Árni Davíðsson, 1.2.2010 kl. 22:48

6 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Mig minnir að ég hafi verið með One Shot - bara eitthvað sem ég keypti í Byko án þess að hugsa mikið áður en ég vatt mér í viðhaldið....

En hehe, ég get sum sé hætt að ergja mig á útmignum salernum (3 karlkyns, 1 kvenkyns á mínu heimili), stelpum fylgir annars konar maus

Hjóla-Hrönn, 2.2.2010 kl. 16:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband