Hjólreiðar 2010 - 2. þáttur - Tölfræðin

Í 1. þætti var fjallað um hjólin sem ég nota en í 2. þætti verður fjallað um tölfræði hjólanna þriggja árið 2010.

Eftir hverja ferð skrái ég upplýsingar af hraðamæli. Það er vegalengd í ferð, tími sem hjól snúast í ferð, meðalhraði í ferð, hámarkshraði í ferð og heildarvegalengd á mæli. Einnig skrái ég upplýsingar um vind (hlutlaus, með- og mótvindur), úrkomu (þurrt, rigning, snjókoma) og færð (autt, hálka, þæfingur).  Það skiptir máli hvernig ferðir eru skilgreindar. Ferðir er oftast skráðar hjá mér eftir hvern legg ef staldrað er við í lengri tíma. Þannig eru ferðir í vinnuna skráðar sem tvær ferðir. Ein ferð í og önnur ferð úr vinnunni. Ef um styttri stopp eru að ræða eða ferð byrjar og endar á sama stað er ferðin oftast skráð sem ein.

Niðurstöður eru birtar í súluritum hér að neðan ásamt umfjöllun. Athugið hægt er að klikka á myndir til að stækka þær til að sjá þær skýrt.

Meðaltöl hjólanna 2010

 

 

 

 

 

 

 

 

Í súluriti 1 eru birtar upplýsingar um meðaltöl fyrir hvert hjól árið 2010. Það er meðallengd ferðar, meðaltími í ferð, meðalhraða í ferð og meðalhámarkshraða í ferð. Takið eftir að samsvarandi einingar eru á Y-ás, vegalengd (km), tími (min) og hraði (km/klst).

Það sést að meðallengd ferðar er svipuð fyrir Gary Fisher GF og Mongoose Sycamore MS en lengri fyrir Trek. Trek hjólið hefur meira verið notað í lengri skemmtiferðir en hin hjólin. Þrátt fyrir það er meðaltími í ferð skemmri hjá Trek en GF og þegar meðalhraði er skoðaður sést skýringin. Meðalhraðinn er hæstur á Trek hjólinu, næstlægstur á MS og lægstur á GF. Það er eins og búast má við enda er Trek hjólið léttast og setstaðan er rennilegust. MS er svo þar mitt á milli. Setstaðan á því hjóli er sömuleiðis mitt á milli hinna. Þó er þetta ekki eina skýringin. GF hjólið er með nagladekkjum yfir allan veturinn og er gjarnan mest hlaðið og veturinn er líka með verstu veðrin þannig að það skýrir að hluta þessa niðurstöðu.

Það er um 6 km/klst munur á meðalhraða á GF og Trek en e.t.v. er ekki nema um 3 km/klst munur eftir að tekið hefur verið tillit til allra aðstæðna. Nagladekkja, meiri hleðslu, verri færðar, verra veðurs og styttri ferða. Mörgum þykir það kannski ekki mikill munur en það er þó nokkuð í hjólabransanum. Þá má líka geta þess að þetta eru ekki kapphjólreiðar heldur samgönguhjólreiðar og boginn ekki spenntur til hins ýtrasta til að vera sem fljótastur.

Meðalhámarkshraði í ferð er svo hæstur á Trek, lægri á MS og lægstur á GF. 

Í súluriti 2 er sýnd tíðnidreifing meðalhraða fyrir hjólin þrjú. Meðalhraðinn er á X-ás og fjöldi ferða á viðkomandi meðalhraða á Y-ás. Þar sést að  kúrfurnar eru allar nær normaldreifðar og að þær spanna breitt bil á öllum hjólunum. Það er ekki skrýtið enda eru sumar ferðir hægar  og aðrar hraðar. Lengri ferðir á opnum vegum eru gjarnan hraðari en styttri ferðir í þéttbýli. Í hröðustu ferðunum sjást áhrif meðvinds en mótvindur segir til sín í þeim hægari.  

Tíðni meðalhraða á hjólunum 2010

 

 

 

 

 

 

Meðalhraði í flestum ferðum á Trek hjólinu er á bilinu 20-26 km/klst, á MS eru flestar ferðir á bilinu 17-24 km/klst og á GF eru flestar ferðir á bilinu 14-21 km/klst.

Þegar tíðnidreifing vegalengda á GF er skoðuð sést að flestar ferðirnar eru 15-18 km en það er vegalengdin sem ég hjóla í vinnuna aðra leið. Þar eru líka einhverjar ferðir niður í bæ, fram og til baka. Næstmesta tíðni hafa ferðir sem eru 3-6 km á lengd en það er m.a. vegalengdin á Grensásveg þar sem ég tek oft strætó á morgnanna með hjólið. Í tíðnidreifinguna vantar Bláalónsþrautina sem var 55 km.Tíðni vegalengda Gary Fisher

 

 

 

 

Tiðnidrefing vegalengda á Trek sýnir að ferðir úr og í vinnu eru þar í stærstu hlutverki. Fjöldi ferða í flokknum 15-18 km er nánast hin sami á GF og Trek, rúmlega 45 ferðir. Aðrar vegalengdir eru mun sjaldgæfari. Þær eru flestar skemmtiferðir. Lengsta ferðin er 61 km en það er hluti af 103 km ferð frá Flateyri á Þingeyri til Ísafjarðar og aftur til Flateyrar.

Tíðni vegalengda Trek 2200

 

 

 

Tiðnidreifing ferða á MS eru mun jafnari. Ferðir úr og í vinnu eru ekki eins áberandi í safni ferða þar og á hinum hjólunum þó vissulega hafi það verið notað þannig.

Laugardagsferðirnar eru gjarnan 22-32 km. Þær ferðir hafa verið farnar á GF og MS.

Tíðni vegalengda Mongoose Sycamore

 

 

 

 

 

 

 

 

En er hægt að bera saman meðalhraða mismunandi samgöngumáta? Ég er hér með áraeiðanlegar tölur fyrir sjálfan mig á reiðhjólum. Ég hef einnig allgóðar upplýsingar um ferðahraða í mínum ferðum með strætó og einnig eru upplýsingar um það úr leiðartöflum strætó. Samgöngusvið Reykjavíkurborgar hefur svo birt upplýsingar um ferðatíma  á morgnanna og síðdegis úr og í vinnu með einkabílum. 

Meðalhraðinn á reiðhjóli hjá mér spannar bilið frá 12-30 km/klst. og flestar ferðirnar eru á bilinu 16-26 km/klst. Það fer eftir reiðhjóli og aðstæðum hversu hratt maður fer yfir en það væri ekki órökrétt að miða við að meðalhraðinn geti verið um 20 km/klst.

Með strætó er ég um 35-45 min úr og í vinnu sem gerir um 21-27 km/klst.

Umhverfis- og samgöngusvið borgarinnar hefur athugað ferðatíma einkabíla úr og í vinnu í október undanfarin ár. Þar eru mældar ferðir frá 6 úthverfum Reykjavíkur inn til miðborgarinnar á morgnanna og tilbaka síðdegis eftir stofnbrautum og tengivegum. Í október 2010 (óbirt) var meðalhraði bílanna sex 31.65 km/klst á morgnanna en 34.77 km/klst síðdegis.

Munurinn á þessum ferðamátum er í raun ótrúlega lítill og eflaust mun minni en margir ímynda sér. Þó er Reykjavík þekkt fyrir að vera með óvenju hátt þjónustustig fyrir bílaumferð og mun greiðari umferð en aðrar borgir sem hún er borin saman við erlendis (Samgönguskipulag i Reykjavík stór pdf skjöl: 1. hluti og 2. hluti). Í flestum öðrum borgum er umferðin mun seinvirkari en í Reykjavík. Dæmi um það er Stokkhólmur.

Það væri gaman ef Umhverfis- og samgöngusvið mundi kanna meðalhraða umferðar utan stofnbrautanna. Sennilega er meðalhraði bíla þar ekki ósvipaður meðalhraða reiðhjóla. Í minum huga er alveg ljóst að reiðhjól er vel samkeppnishæft við einkabíla í ferðatíma einkum á styttri vegalengdum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband