Bíllausi dagurinn í dag (22. september 2002)

Í DAG, sunnudaginn 22. september, verður haldinn bíllaus dagur í Evrópu í 4. sinn. Í ár munu um 1.323 sveitarfélög í álfunni taka þátt. Vikuna þar á undan, 16. til 22. september, er efnt til sérstakrar samgönguviku. Fjögur sveitarfélög á landinu standa fyrir dagskrá á bíllausa deginum eða í samgönguvikunni. Þessi sveitarfélög eru Mýrdalur, Hafnarfjörður, Akranes og Hveragerði og eiga þau hrós skilið fyrir framtakið. Mörg sveitarfélög hafa nú samþykkt staðardagskrá 21 og ættu þau að mínum dómi að standa fyrir bíllausum degi. Bíllausa deginum er ekki sérstaklega beint gegn einkabílnum sem slíkum. Honum er ætlað að vekja menn til vitundar um að einkabíllinn er ekki eini valkostur fólks í ferðum milli staða og að ef til vill skipar hann of ríkan sess í samfélaginu.

Þótt sveitarfélög landsins standi sig ekki sem skyldi getur almenningur samt gert 22. september að bíllausum degi. Hver og einn getur litið i eigin barm. Menn geta spurt sig spurningar eins og: ,,Hef ég ferðast allra minna ferða í bíl síðastliðið ár?” ,,Hef ég gert það frá 17 ára aldri?” Hefur meðfylgjandi hreyfingarleysi áhrif á heilsu og líðan? Hreyfing úr og í vinnu og skóla eða annað er einfaldasta leiðin til að fá nauðsynlega daglega hreyfingu.

Bíllausi dagurinn er fyrst og fremst tækifæri til að prófa aðra valkosti. Þessi viðburður er til að ýta við fólki og losna úr viðjum vanans. Það er um að gera að vera jákvæður því of oft sökkvum við Íslendingar í það fen að finna afsakanir fyrir atferli okkar. Útkoman verður oftar en ekki undarleg hringrök. Það er ekki hægt að hjóla vegna þess að það vantar hjólreiðastíga. - Það er ekki hægt að leggja stíga vegna þess að enginn hjólar! Það er ekki hægt að taka strætó því leiðakerfið er svo lélegt. - Leiðakerfið er svo lélegt vegna þess að enginn tekur strætó! Það er ekki hægt að ganga vegna þess að veðrið er svo vont. - Veðrið er svo vont vegna þess að enginn gengur!

Þetta snýst fyrst og fremst um hugarfar og vana. Gera þarf ráð fyrir tíma og auðvitað þarf að klæða af sér veður með fötum en ekki bílum og hugsa fyrir leiðum og tímatöflum ef farið er í strætó. Það þarf að yfirstíga smá hjalla áður en breyttur ferðamáti kemst upp í vana. Eftir það er þetta ekki erfiðara en að skafa rúðuna á morgnana og aka af stað. Í mörgum tilvikum held ég að það komi á óvart hvað aðrir ferðamátar er auðveldir og fljótlegir. Sem dæmi má nefna, að það tekur ekki nema 20 mín. að hjóla úr Kópavogi og niður í miðbæ um 5 km leið en tekur um 10-15 mín. Í bíl á annatíma. Þá er ekki reiknað með tímanum sem tekur að leggja bílnum. Að taka strætó milli Kópavogs og Mosfellsbæjar tekur ekki nema 40-45 mín. um 15 km leið en tekur um 20-25 mín. í bíl á morgnana. Þegar vegalengdir eru styttri munar minna á bíl og öðrum valkostum.

Ég hvet alla til að nota þetta tækifæri til að velja aðra ferðakosti heldur en einkabílinn. Nú í ár ber bíllausa daginn upp á sunnudegi en það ætti ekki að hindra einstaklinga og fjölskyldur frá því að njóta dagsins. Fyrst ekki er verið að spana neitt eins og virka daga má einfaldlega bregða sér í gönguferð eða fara strætóandi eða hjólandi í bæinn eða í næstu kringlu.

Grein í Mogganum 22. september 2002


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband