Hjólavísar á götum Reykjavíkur

Síðasta haust voru málaðir svo kallaðir hjólavísar á nokkrar götur í Reykjavík . Það var á Suðurgötu sunnan Hringbrautar og Einarsnesi í póstnúmeri 107 og Langholtsvegi og Laugarásvegi í póstnúmeri 104.

Hvað eru hjólavísar?

Á ensku heita hjólavísar „Bike-and-chevron“. Þeir hafa verið notaðir víða um heim. T.d. í San Francisco og fleiri borgum í BNA, París í Frakklandi, Brisbane í Ástralíu, Zurich í Sviss og Buenos Aires í Argentínu. Hjólavísar eiga að gefa bæði hjólreiðamönnum og ökumönnum skýr skilaboð um að hjólreiðamenn eigi þarna rétt og það beri að taka tillit til þeirra.

Gagnsemi hjólavísa

Það hefur sýnt sig að þar sem hjólavísar eru notaðir finnst hjólreiðafólki það öruggara í umferðinni og ökumenn víkja betur frá hjólreiðafólki. Sumarið 2003 var gerð rannsókn í San Francisco á gagnsemi hjólavísa og voru niðurstöðurnar afgerandi. Þar sem hjólavísar voru á götum hélt hjólafólk sig 20 cm lengra frá kyrrstæðum bílum og var þannig í minni hættu á að lenda á bílhurð, sem opnast skyndilega. Þegar bílar fóru fram úr hélt hjólafólk sig um 10 cm lengra frá kyrrstæðum bílum en bílar sem fóru fram úr juku fjarlægð sína frá hjólreiðamanninum um 60 cm. Ef enginn hjólreiðamaður var á ferð höfðu hjólavísarnir samt þau áhrif að umferðin fór um 30 cm lengra frá kyrrstæðum bílum. Hjólavísar eru mjög ódýr lausn ef menn ætla að bæta umferðaöryggi og öryggistilfinningu hjólreiðafólks og fjölga þar með þeim sem hjóla. Það þarf ekki alltaf að breyta skipulagi og ráðast í umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir eins og breikkun gatna, lagningu hjólareina eða hjólastíga.

Markmiðið með hjólavísum

  • Að minna bílstjóra á að búast við umferð hjólandi á götunni.
  • Að minna bílstjóra á að hjólreiðamenn mega hjóla lengra inni á akbraut, jafnvel þó þeir tefji aðra umferð, ef það er nauðsynlegt vegna þrengsla.
  • Að minna bílstjóra á að víkja vel til hliðar þegar þeir taka fram úr hjólreiðamanni.
  • Að upplýsa hjólreiðamenn um hvar best er að staðsetja sig á götunni með hliðsjón af kantinum eða kyrrstæðum bílum til að auka öryggi sitt.
  • Að fjölga hjólreiðamönnum því mörgum finnst betra að hjóla á sérmerktum götum.

Á hvernig götum henta hjólavísar?

Hjólavísar henta fremur á götum þar sem fjöldi bíla og umferðarhraði er hóflegur, eins og á mörgum safn-  og tengibrautum. Sérstaklega vel reynast hjólavísar á eldri húsagötum, sem nú flokkast sem safn- eða tengibrautir þar sem margar innkeyrslur eru beint frá götu og bílum er lagt við gangstéttarbrún. Hjólreiðamaður sem freistast til að vera á gangstétt er við þessi skilyrði í meiri hættu en hjólreiðamaður sem er vel sýnilegur úti á götu.

En að hjóla á götum?

Það er ein af þversögnunum í öryggismálum hjólreiðafólks að það er í raun öruggara að hjóla á götum borgarinnar en á gangstéttum eða stígum sem þvera götur og innkeyrslur. Ef stutt er á milli gatnamóta og innkeyrsla eru fleiri punktar á ferð hjólreiðamanns þar sem árekstur getur orðið milli ökumanns og hjólreiðamanns. Til að koma í veg fyrir árekstur þarf hjólreiðamaður á gangstétt eða stíg að gæta sín við hver gatnamót og við hverja innkeyrslu. Hraði hans verður minni og gildi hjólsins sem samgöngutækis rýrnar. Að auki þarf hjólreiðamaður að taka tillit til gangandi umferðar enda er hann gestur á mannvirki sem er hannað fyrir hraða gangandi manns. Hætt er við að ökumaður sjái ekki gangandi eða hjólandi sem eru utan sjónsviðs hans á stígum og gangstéttum. Flestar rannsóknir á raunverulegum slysatölum víðsvegar um heim sýna að þeir sem hjóla eftir gangstéttum og stígum og þvera götur og innkeyrslur eru í meiri hættu á að lenda í árekstri en þeir sem deila akbrautum með bílum og eru þar innan sjónsviðs ökumanna. Hjólavísarnir eru einmitt málaðir á götuna þar sem hjólreiðamaður á að staðsetja sig til að vera innan sjónsviðs ökumanns. Á fáförnum húsagötum er mestan part óþarfi að mála hjólavísa enda henta þær götur vel til hjólreiða eins og þær eru nú.

Landsamtök hjólreiðamanna mæla með því að meðfram stofnbrautum verði byggðar brautir fyrir hjól til að tengja saman hverfi og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem nú eru sundurskorin af umferðaræðum. Þessar stofnbrautir þarf að byggja samkvæmt stöðlum þannig að þær henti til hjólreiða á 30 km hraða. Þær eru því öruggari sem færri gatnamót eru þar sem umferð hjólandi skarast við bílaumferð. Flestir stígar höfuðborgarsvæðisins uppfylla því miður ekki reglur fyrir hönnun hjólreiðabrauta og eru þar að auki með blandaðri umferð gangandi og hjólandi.

Fyrstu skrefin hafa nú verið stigin í að nota hjólavísa á Íslandi.  Eins og með margar nýjungar er eitt og annað sem má lagfæra. Meðal þess er að kynna hjólavísana betur og þróa viðmið varðandi staðsetningu hjólavísa á gatnamótum.

Ítarefni:

Landsamtök hjólreiðamanna: www.lhm.is
Fjallahjólaklúbburinn: www.ifhk.is
Þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks: http://tiny.cc/d9aCE
Samgönguhjólreiðar: http://tiny.cc/YOcxO
Brýnustu aðgerðir í málefnum hjólreiðamanna: http://tiny.cc/PwSAW
Skýrsla um hjólavísa San Fransisco (pdf;1,2mb): http://tiny.cc/reKai

1. mynd. Staðsetning hjólavísa við kyrrstæða bíla. (Úr San Francisco skýrslu)

 Hjolavisir

2. mynd. Hjólavísar vísa leiðina framhjá niðurfalli á Laugarásvegi. (ljósmynd Páll Guðjónsson)

 HjolavisirLaugarasvegi

3. mynd. Hjólavísar við þrengingu í Einarsnesi. (ljósmynd Páll Guðjónsson)

 HjolavisirEinarsnesi

Grein birt í Morgunblaðinu 16. maí 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband