Hjólað í vinnunna, Mosfellsbær-sjóstígur-stígakerfið-Kársnes

Hér er hjólað eftir stígakerfinu frá Mosfellsbæ og heim. Leiðin er sýnd á korti á 1. mynd. Vindur var hafgola á móti.

Sjostigur

Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 118 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem tvær myndir eru sýndar á sekúndu. Það tekur 59 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

 Mosfellsbær setti upp hlið á stígunum í bænum í fyrra (2. mynd), sem eru til að hindra umferð mótorkrosshjóla, fjórhjóla, vespa og gólfbíla! á stígunum. Það er skiljanlegt sjónarmið en hliðin geta valdið þessum aðilum og reiðhjólamönnum hættu í myrkri og vondu skyggni. Hliðin eru ekki vel upplýst þannig að í myrkri er vel mögulegt að hjóla á hliðin ef menn muna ekki eftir þeim eða eru ókunnugir.

dscn0001Stígurinn meðfram sjónum er ekki með lýsingu þannig að nauðsynlegt er að hafa góð ljós á hjólinu að vetrarlagi ef maður hjólar hann eftir að dimmt er orðið. Þá dugar ekkert minna en öflugt flóðljós eins og hægt er að fá. Þau kosta einhvern tug þúsunda hvort sem þau ganga fyrir rafhlöðu eða rafall í nafinu. Ef menn hafa ekki gott ljós verða menn að miða hraða við aðstæður.

 Sennilega verður meira en helmingur slysa á hjóli þegar reiðhjólamaðurinn dettur, t.d. í hálku eða við það að hjóla á fyrirstöðu eða missa stjórn á hjólinu. Vel innan við helmingur slysa verður sennilega þegar hjólreiðamaður og bílstjóri á bíl rekast saman. Engar áreiðanlegar tölur hafa verið teknar saman um þetta á Íslandi svo mér sé kunnugt. Tölur um umferðarslys þar sem lögregla er kölluð til má skoða á vef Umferðarstofu. Ársskýrslur slysaskráningar lögreglu eru t.d. birtar hér: http://www.us.is/id/1000522 . Slysakort með takmörkuðum upplýsingum um einstök slys eru birtar hér: http://www.us.is/id/1000482 .

 Slysaskráning lögreglunnar er auðvitað ekki tæmandi, lögregla er ekki alltaf kölluð til þegar árekstur verður. Verra er að upplýsingar um slys á hjólreiðamönnum þegar bíll kemur ekki við sögu eru ekki teknar saman og birtar. Slys á stígum eru því ekki uppi á borðinu þótt sum þeirra séu e.t.v. skráð við komu á slysadeild. Varasamir staðir á stígum vekja því ekki eftirtekt og úrbætur eru ekki gerðar á stöðum þar sem slys verða. Á síðasta ári veit ég um a.m.k. tvö alvarleg slys á reiðhjólamönnum þegar þeir duttu einir á hjóli. Þau slys eru ekki skráð í gögnum lögreglunnar en vegna þess hvað þau voru alvarleg vita sveitarfélögin þó sennilega um þau. Í báðum tilvikum hlutu reiðhjólamennirnir áverka á eða í kringum mænuna.

Ég hjóla þessa leið frekar sjaldan því ég tel mig öruggari á Vesturlandsveginum og þar er ég fljótari í förum. Þar er góð lýsing og dagleg þjónusta veghaldara og það er líklegra að ég fái aðstoð ef slys verður heldur en á fáförnum stíg meðfram sjónum um hávetur í kolniðamyrkri.

dscn0013

 Á kaflanum við Blikastaðanes hefur stígurinn verið breikkaður og er um 4 m á breidd. Það er til mikilla bóta eins og sést á 3. mynd þar sem gamli stígurinn tekur við af þeim nýja. Þessi stígur á að vera hluti af stofnstígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og eiga þeir stígar að vera 4 m á breidd. Það skapar svigrúm til að skipta stígunum í tvennt fyrir hjólandi og gangandi og skipta hjólahlutanum í tvennt með brotinni línu. Þá geta hjól mæst á sitthvorri akreininni og hægt að innleiða alvöru hægri umferð.

 Umferðarreglurnar á stígunum þurfa að vera eins í öllum sveitarfélögum landsins og þarf því að taka af skarið og ákveða hvernig þetta á að vera. Nóg er komið af reglnarugli á stígunum í borginni. Þar á vera hægri umferð en ekki vinstri umferð. Það er komin tími til að Vegagerð ríkisins og Umferðarstofa taki af skarið og setji fram reglur um umferð, og staðla um gerð stofnstíga fyrir reiðhjól.

 Þessi ferð:
Klukkan: 17:50
Vegalengd: 18,65 km
Meðalhraði: 18,19 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 61:32 mínútur
Hámarkshraði: 42,2 km/klst


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband