Það er öruggara að hjóla á götunni

Af myndinni að dæma virðist hjólreiðamaðurinn hafa verið á gangstéttinni á leið yfir innkeyrsluna að Landspítalanum.

johnfranklinHjólreiðamaður á gangstétt getur ekki búist við að bílstjóri sjái hann. Þegar hjólreiðamaðurinn fer yfir innkeyrslu eða gatnamót á gangstétt þarf hann að hafa allan vara á og líta í kringum sig nánast hringinn. Hjólreiðamaður sem hjólar á götunni tekur sér stöðu á götunni þannig að hann er í sjónsviði bílstjóra og getur einbeitt sér að því að horfa fram á veginn. Hann er staðsettur á götunni þar sem bílstjórar líta til og búast við öðrum ökutækjum.

Ókostur er við akbrautirnar á Hringbrautinni, sem eru með miðeyjum, að þær hefðu þurft að vera breiðari til að bílstjórar gætu haft nægjanlegt rými til að taka framúr hjólreiðamanni á öruggan hátt.


mbl.is Keyrt á reiðhjólamann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Guðbjarnarson

Ekki ef maður gerir ráð fyrir að hjólreiðamenn gæti varúðar þar sem ekið er af gangstétt. Það er stórhættulegt að aka á götunni vegna tillitsleysis ökumanna. Það er hins vegar mun fljótlegra.

Við eigum langt í land með að fá góða hjólreiðamenningu hér. Það þarf að gera ráð fyrir hjólreiðamönnum í hönnun samgöngumannvirkja.

Skúli Guðbjarnarson, 1.7.2009 kl. 07:19

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Skúli, í þessu dæmi þarf hjólreiðamaðurinn á gangstéttinni að gá til 3 átta, þar á meðal horfa aftur fyrir sig, á meðan hjólreiðamaðurinn á götunni þarf bara að horfa fram fyrir sig og gæta að umferð sem er að koma út úr hliðargötunni og þeim sem ætla að taka vinstri beygju (appelsínuguli bíllinn). 

Ökumenn sjá frekar hjólreiðamann sem er á götunni, það eru mun meiri líkur á að hjólreiðamaðurinn á gangstéttinni verði fyrir bíl á þessum gatnamótum en sá sem er á götunni.  Alveg sama hversu varkár hann er.  Ég hef lent í næstum því óhappi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við svona aðstæður af því ökumenn tóku beygjuna of hratt og án þess að gefa stefnuljós.  Þ.e. þegar ég var á gangstéttinni.

Ég hjóla ekki á öllum götum, ekki á Miklubrautinni, en þeim fjölgar óðum götunum sem ég hjóla, t.d. ef ég fer Suðurlandsbraut, þá skipti ég yfir í götuna áður en ég kem að þrengingunum fyrir ofan hlemm.  Bara af því gangstéttin er of þröng og erfitt að mæta t.d. fólki með barnavagn.  Svo tek ég Hverfisgötuna og Austurstræti.  Næ að halda sæmilega í við bílaumferðina á þessum götum.  Í Austurbænum nýti ég mér Langholtsveg og Kleppsveg., það eru hjólavísar á Langholtsveginum og ökumenn bara þægilegir og tillitssamir.

En það er alveg rétt hjá þér að það er ekki gert ráð fyrir hjólreiðafólki við hönnun samgöngumannvirkja.

Hjóla-Hrönn, 1.7.2009 kl. 11:19

3 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

hjólreiðamaður á gangstétt á að gera hið sama og gangandi fólk á gangstétt. líta í kring um sig áður en farið er yfir götu. of algengt að menn æða bara út á götuna án þess að líta í kring um sig. eiga gangandi vegfarendur kannski líka að labba á götunni?

Brjánn Guðjónsson, 1.7.2009 kl. 11:32

4 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Brjánn, hér er um að ræða 3 mismunandi ferðahraða, gangandi er á 3km hraða, hjólreiðamaður á 20-35, bílar á ja, öllum hraða.  Þar sem hámarkshraðinn er 30-50 hentar betur að við séum á götunni með bílunum.  

Við erum að nota reiðhjólið sem samgöngumáta, og þá gengur ekki að þurfa að stoppa á 5 metra fresti til að athuga hvort það sé bíll að koma, við getum ekki stoppað á 20cm eins og gangandi vegfarandi, það tekur okkur nokkra metra að stoppa.  Það eru ekki bara gatnamótin, það eru útkeyrslur frá húsum yfir gangstéttirnar og útkeyrslur frá bílastæðum, við förum hraðar yfir en gangandi fólk og þess vegna í meiri hættu á að ökumenn sjái okkur ekki.  Gangandi vegfarendum stafar líka ákveðin hætta af hjólreiðafólki, þess vegna vildi ég sjá þetta alveg aðskilið, sér hjólabrautir við stofnbrautir, en hægt að samnýta götur með 30 km hámarkshraða.

Hjóla-Hrönn, 1.7.2009 kl. 12:05

5 Smámynd: Árni Davíðsson

Það er rétt hjá þér Skúli að hjólreiðamaður getur verið fullkomlega öruggur á gangstétt. Það er, ef hann hegðar sér eins og gangandi vegfarandi þegar hann fer yfir götur og innkeyrslur eins og fram kemur hjá þér og Brjáni. Vandinn er að þá tapar hann ferðahraða og það rýrir gildi reiðhjólsins sem samgöngutækis. Ef reiðhjólamaðurinn er úti á götunni heldur hann hraðanum og getur ekki síður verið öruggur en á gangstéttinni.

Flest skráð slys milli bíls og reiðhjóls verða þegar reiðhjólamaður þverar veg hvort sem er á gangbraut eða utan hennar (Slysakort Umferðarstofu). Aðeins lítið brot af árekstrum verða þegar reiðhjól og bíll ferðast í sömu stefnu. Erlendar rannsóknir benda til að vel innan við 10 % árekstra milli bíls og reiðhjóls verða þegar þessi ökutæki eru með sömu akstursstefnu á akbraut en yfir 90 % árekstra milli þessara ökutækja verða þegar hjól þverar akbraut. Athugaðu að þessar niðurstöður segja ekki til um hver ber ábyrgð á árekstrinum eða er í rétti.

Ég er því ekki sammála þér að það sé stórhættulegt að hjóla í umferðinni. Þvert á móti tel ég að það geti verið jafn öruggt ef ekki öruggara að hjóla úti á götu heldur en að vera á gangstéttinni. Ég er líka ósammála þér að bílstjórar sýni hjólreiðafólki ekki tillitsemi. Yfirgnæfandi meirihluti bílstjóra sýnir hjólreiðafólki tillitsemi samkvæmt minni reynslu.

Það er hinsvegar ekki sama hvernig hjólreiðamaður hegðar sér í umferðinni bæði uppá öryggið að gera og uppá virðingu og tillitsemi bílstjóra. Hjólreiðamönnum farnast best í umferðinni þegar þeir hegða sér eins og aðrir stjórnendur ökutækja. Of margir hjólreiðamenn reyna að vera sem minnst fyrir umferðinni og verða þar með ósýnilegir bílstjórunum. Hjólreiðamaður á að taka sér stöðu á akbrautinni þannig að hann sé sýnilegur bílstjórunum og hleypi ekki umferð fram úr sér nema að það sé öruggt fyrir hann. Stöður hjólreiðamanns á akbraut eru tvær. Víkjandi staða um 30-60 cm frá brún akbrautar og ríkjandi staða við miðju akreinar. Í víkjandi stöðu getur hjólreiðamaður hleypt fram úr sér hraðari umferð en í ríkjandi stöðu kemur hann í veg fyrir framúrakstur. 

Það er auðvitað nauðsynlegt að byggja sér stofnbrautir fyrir hjólreiðamenn til að tengja saman aðskilin hverfi og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Það er óþægilegt að hjóla eftir stofnbrautunum og ég geri mér engar grillur um að það verði hægt að fá hjólreiðafólk almennt til að gera það. Aðrar götur eru meira og minna allar þægilegar fyrir hjólreiðafólk og engin ástæða til annars fyrir allt hjólreiðafólk en að nota þær. Á ákveðnum stöðum er hægt að gera gatnakerfið en betra og öruggara fyrir hjólreiðafólk, t.d. með því að breikka götur, fjarlægja þrengingar og með því að takmarka umferðarhraða.

Ég og fleiri höfum verið að kenna samgönguhjólreiðar eða það sem er kallað hjólafærni. Hjólreiðamaður sem hefur ökupróf er þá kennt á tvemur tímum hvernig á að hjóla í umferðinni af öryggi. Hver tími kostar 5.000 kall og geta verið tveir nemendur í tíma. Þeir sem hafa áhuga geta haft samband við mig : arnid65@gmail.com. Hægt er að kynna sér þetta á tenglunum hjá mér að Fjallahjólaklúbbnum og Bikeability.

Árni Davíðsson, 1.7.2009 kl. 15:08

6 Smámynd: Morten Lange

Góð færsla og góðar umræður !

Einhver stakk upp á að bjóða umhverfisráðherranum upp á Hjólafærniskennslu.

Væri það kannski mögulegt að nota líka sem auglýsing fyrir þína /ykkar þjónustu ?

Og svo mætti að sjálfsögðu bæta við : Samgönguráðherra, Heilbrigðisráðherra etc.  Eða bjóða aðstoðarmenn þeirra ef þeir geta ekki mætt sjálfir.  Fyrrverandi umhverfisráðherrar ? 

Morten Lange, 3.7.2009 kl. 08:55

7 Smámynd: Árni Davíðsson

Varðandi það sem Skúli sagði um hjólreiðamenningu. Ég get ekki sagt að hjólreiðamenning á Íslandi sé slæm eða verri en í öðrum löndum. Það eru einfaldlega til misgóðir hjólreiðamenn á Íslandi eins og annarstaðar. Það má samt segja að hugmyndafræði yfirvalda varðandi hjólreiðar séu skemmra á veg komin á Íslandi en í ákveðnum löndum eins og Danmörku, Hollandi og Þýskalandi. Það er hinsvegar ekki allt til eftirbreytni í þeirra reglum í sambandi við hjólreiðar en samt er fjölmargt sem við getum lært af þeim.

Við getum samt verið alveg viss um að við fáum ekki þau hjólreiðamannvirki byggð sem þeir hafa í þessum 3 löndum. Enda er ekki þörf á þeim. Við þurfum ákveðnar stofnbrautir eins og margoft hefur komið fram. Einnig væri gott að aðlaga almenna gatnakerfið að hjólreiðum þar sem þörf er á.

Landinn fellur alltof oft í þann pytt að koma með afsakanir fyrir því að hann geri ekki hitt eða þetta. Ég hef heyrt alltof marga finna ótrúlegustu afsakanir fyrir því að þeir geti ekki hjólað eða gengið 1 km í vinnuna. Ég get líka alveg sætt mig við það að fullt af fólki vilji ekki hjóla. Mér finnst ástæðurnar fyrir því oftar en ekki vera hégómi en fólk verður að eiga það með sjálfu sér.

Til að búa til góða hjólreiðamenning þarf bara að hjóla af stað og gott er að leita sér leiðsagnar um það sem betur má fara tiltölulega snemma á hjólaferlinum.

Ég vil ítreka það sem haft er eftir John Forester í lauslegri þýðingu:

Hjólreiðamönnum farnast best í umferðinni þegar þeir hegða sér eins og stjórnendur ökutækja og komið er fram við þá sem slíka.

Árni Davíðsson, 3.7.2009 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband