Meðgjöf hins opinbera með bílaeigendum

Á höfuðborgarsvæðinu eru mörg hundruð þúsund bílastæði. Einhver hefur áætlað að um 3 stæði séu fyrir hvern bíl og því séu um 600.000 bílastæði á höfuðborgarsvæðinu.

Bílaeigendur þurfa að greiða beint fyrir afnotin af pínu litlu broti af þessum bílastæðum. Það eru bílastæðin í miðborginni og örfá stæði við Landspítala og Borgarspítala. Það eru varla nema nokkur þúsund stæði. Sennilega þurfa bílaeigendur að greiða beint fyrir innan við 0,5 % af öllum bílastæðum höfuðborgarsvæðisins.

Öll þessi bílastæði eru ekki ókeypis. Það er talið kosta að meðaltali ca. 300.000 að útbúa malbikað bílastæði með öllu því sem fylgir að undanskildu landverðinu undir stæðið. Ef stæðið er í bílastæðahúsi eða segjum í kjallara tónlistarhússins nýja kostar það margar milljónir að byggja hvert stæði. Heildarkostnaður við bílastæðin er svimandi hár jafnvel þótt ekki sé tekið tillit til landverðs, 300.000 kr/stæði * 600.000 stæði = 180 milljarðar kr. Árleg meðgjöf til bílaeigenda í formi ókeypis bílastæða hleypur auðveldlega á nokkrum milljörðum króna.

Það er greitt fyrir bílastæðin með óbeinum hætti, með sköttum og í vöruverði í verslunum. Hversvegna á hið opinbera og almenningur (í vöruverði) að niðurgreiða rekstur bilastæða fyrir bílaeigendur? Hvernig hagfræði er þetta? Af hverju borgum við ekki bensín og tryggingar á bílana líka með óbeinum hætti ef þetta er svona skynsamlegt fyrirkomulag?

Hættum niðurgreiðslum á bílastæðum og látum þá sem nota stæðin borga fyrir þau.


mbl.is Stöðumælar betri en bílastæðaklukkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú gleymir nú einni ansi stórri tölu í þessum útreikningum þínum. Bensínskatturinn skilar rúmlega þrefaldri þeirri upphæð sem fer í vegagerð og viðhald á hverju ári og þar munar tugum milljarða á ári þannig að bíleigendur eru sko ekkert að fá neitt "í meðgjöf" frá ríkinu.

Gulli (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 16:01

2 Smámynd: Árni Davíðsson

Ertu til í að sýna bókhaldið yfir þetta svart á hvítu Gulli?

Er þetta ekki bara þjóðsaga?

Árni Davíðsson, 5.11.2009 kl. 19:09

3 identicon

Hér kemur bókhaldið Árni:

Fjárlög 2009:

Útgjöld samgöngumálaráðuneytis til vegamála: 32,4 milljarðar

 Tekjur ríkisins af bifreiðum, bensíni og olíu: 19,4 milljarðar

Í þessari tölu eru bæði almennt- og sérstakt vörugjald af bensíni, vörugjald af olíu, vörugjald af bifreiðum og þungaskattur/kílómetragjald, en ekki bifreiðagjöld (sem er fyrir rekstur Umferðarstofu) og ekki VSK af bensíni, olíu  og bifreiðum (sem er sami skattur og á allar aðrar vörur og þjónustu og ætti því ekki að vera eyrnamerktur vegamálum frekar en VSK af bönunum ætti að vera eyrnamerktur bananaframleiðslu).

Skekkjuþættir:

Hér vantar inní útgjöld sveitarfélaga til gatnagerðar, viðhalds og moksturs.

Tekjur sveitarfélaga  af gatnagerðargjöldum dekka hluta en ekki allt af þessu, en það væri mjög fróðlegt að sjá það bókhald.

Hluti tekna ríkissjóðs af olíu og eldsneyti er frá útgerðinni, flugi og vinnuvélum (sem nota vegakerfið mjög takmarkað).

 Ekki eru öll útgjöld til vegamála sérstaklega fyrir bíla, en hlutfallið er a.m.k. 90% þori ég að fullyrða.

Niðurstöður:

Útgjöld vegna vegamála er töluvert hærri en tekjur af ökutækjum og akstri. Munurinn er svo gríðarlegur að það þarf ekkert að halda áfram með nákvæmari reikninga til þess að hrekja þessa fullyrðingu Gulla.

Jens Gíslason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 11:56

4 identicon

Viðbót:

Árið 2009 hja Reykjavíkurborg:

Fjárfesting í götum og hlutdeild í þjóðvegum (stígar og "aðgengismál" ekki talið með) umfram tekjur af gatnagerðargjöldum: 3,2 milljarðar

Rekstrarkostnaður samgönguskrifstofu (þar er reyndar hluti kostnaðar vegna reksturs göngustíga o.f.l. sem ekki má telja með sem kostnað vegna bíla): 2,1 milljarður.

Varlega áætlað er þá kostnaður borgarinnar umfram tekjur af bílum a.m.k. 4 milljarðar árið 2009. 

Jens Gíslason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 13:12

5 Smámynd: Árni Davíðsson

Þakka þér fyrir Jens, mjög fróðlegt. Þetta er þá bara þjóðsaga eftir allt saman.

Mér sýnist að meta megi bílastæðin á höfuðborgarsvæðinu sem nokkra milljarða á ári eftir hvaða forsendur maður gefur sér. Ef maður segir að fjöldi bílastæða sem ekki eru á lóð heimila sé 400.000 stæði * 300.000 kr./stæði = 120 milljarðar / 40 ára endingartíma = 3 milljarðar/ári í meðgjöf til bílaeigenda í formi bílastæða á höfuðborgarsvæðinu. Þá er ekki reiknað með fjármagnskostnaði eða verði landsins sem er notað undir bílastæðin.

Þetta eru auðvitað bara lauslegir útreikningar. Ef einver þekkir réttari forsendur eða kann að reikna þennan kostnað væri gaman að fá innlegg.

Árni Davíðsson, 13.11.2009 kl. 14:27

6 identicon

Sæl Öllsömul.

Sæll Árni.

Fróðlegar tölur sem hægt er að lesa hér.

Ég er bæði mikill bíláhugamaður og hjólreiðamaður.

Mér er til efs, að ríkið gefi neinum neitt.

Ég og konan mín eigum fimm bíla, engin er yngri en 13 ára, þrír eru fornbílar.

Miðað við öll þau gjöld sem greidd hafa verið að bílunum, og runnið hafa beint til ríkisins, þá held ég að þessir bílar hafi skilað ríkinu geysilegum arði á sínum líftíma. Og skila enn.

Ég veit ekki um neina aðra eign, sem ség er skráður fyrir, sem skilar viðlíka tekjum til ríkisins og brúksbíllinn sem ég á. Og nota ég hann þó grátlega lítið. Frá 21. desember 2009 til 21. janúar 2010 hef ég ekið 0 kílómetra.

Ég held að það sé ekki verið að gefa mér, sem bifreiðaeigenda eða bifreianotenda eitt eða neitt.

Ég er ekki að kvarta, ég borga fyrir það sem ég nota.

Vegakerfið, þar með talin bílastæði, eru hluti af þeirri samfélagsþjónustu sem við höfum flest sameinast um að borga fyrir.

Margt fleira en bíalstæði borgum við fyrir, sem telja má til samfélagsþjónustu, en notum ekki beint daglega, en njótum góðs af.

Kirkjur og rekstur þeirra. Ferðu mikið í kirkju ?

 Ríkisreknir skólar. Ertu í skóla ? 

Sundlaugar. Ferðu mikið í sund ? Hver er stofn- og rekstrarkostnaður við sundlaugar ?

það má telja upp ýmilsegt sem er dýrt í stofn- og rekstrakostnaði, en er samt viðurkenndur hluti af nútímasamfélagi.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 00:58

7 Smámynd: Árni Davíðsson

Sæll Heimir

Það er spurning hvort að ríkið, sveitarfélög og eigendur umferðarmannvirkja aðrir (bílastæði t.d.)  eigi að innheimta allan kostnað við byggingu og rekstur þessara mannvirkja af bílaeigendum (einkabílar og atvinnubílar). Ég er þeirrar skoðunar að svo eigi að vera. Aðrir geta verið annarrar skoðunar.

Ég er þessarar skoðunar vegna þess að ofnotkun bílsins hefur að mínum dómi neikvæð áhrif á samfélagsgerð, umhverfi og lýðheilsu. Bíllinn hefur auðvitað mikil efnahagsleg áhrif og ég er alls ekki á móti hóflegri notkun bílsins. Mér finnst samt ástæðulaust að notkun bíla sé niðurgreidd af hinu opinbera, skattborgurum og þjóðfélaginu öllu. Mér finnst það ekki ósanngjörn krafa.

Þessi íslenski þjóðfélagssáttmáli um bílinn, "bílasáttmálinn" hefur aldrei verið borinn undir atkvæði þjóðarinnar. Eini skjalfesti vitnisburðurinn um hann (sem ég veit um) eru ákvæði skipulagsreglugerðar grein 3.1.4:

Eftirfarandi lágmarksákvæði gilda varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti.

Tengill á mynd af töflunni 

Taktu eftir því að ég er ekki að leggja til að bílaeigendur borgi kostnað vegna:

  • bílslysa,
  • sjúkdóma vegna mengunar frá bílaumferð,
  • umhverfisáhrifa mengunar frá bílaumferð,
  • loftslagsáhrifa frá bílaumferð,
  • sjúkdóma vegna áhrifa aksturs á lýðheilsu vegna hreyfingarleysis.

Þessi kostnaður er allur borinn af þjóðfélaginu.

Satt að segja nota ég ríkisrekna skóla mikið. Þó ég sé búinn með mitt nám á ég 5 börn sem öll eru í skólum. Ég fer líka í sund en óhætt er að tala um offjárfestingu í sundlaugum undanfarin ár. Hvað varðar kirkjur eru menn nú ekki sammála um að ríkið eigi að reka þær.

Mér finnst þó að grunnskólar og vegakerfið séu ekki sambærilegir málaflokkar. Það þekkist varla það þjóðfélag þar sem grunnskólar eru ekki meira og minna greiddir af hinu opinbera. En á að vera eins með umferðarmannvirkin?

Hitt er svo annað mál að álögum á bílaeigendur er ekki rétt niðurdeilt miðað við framkvæmdir og notkun samanber jarðgangagerð og bílastæði. Það væri líka til bóta að finna betri gjaldaleiðir þar sem greitt yrði beint fyrir notkun en ekki óbeint eins og núna er með sköttum og gjöldum.

 

Árni Davíðsson, 22.1.2010 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband