Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Eru fulltrúar flokkanna á ábyrgð þeirra?

Af fréttum að dæma voru sjálfstæðismenn ánægðir með Gunnar sinn og sárir yfir aðförinni að honum. Það er bara ágætt þá vita kjósendur hvernig flokkur sjálfstæðisflokkurinn er úr því hann telur Gunnar vera þess verðugan að vera oddviti flokksins í Kópavogi.

Framsóknarflokkurinn hefur í huga almennings verið hagsmunapotsflokkur af verstu gerð og þarf bara að rifja nöfn nokkurra manna sem hafa verið þar í forsvari til að fólk fái hroll niður eftir allri hrygglengjunni. Ef flokksmenn ætla nú að fara siðvæða flokkinn er það bara hið besta mál.

Kópavogsbær samþykkti nýverið siðareglur. Ef framsóknarmenn fara eftir þeim og síðan landslögum eins og stjórnsýslulögum, sveitarstjórnarlögum og hegningarlögum ætti flokkurinn að geta borið höfuðið hátt.

Þá gætu þeir jafnvel eignast bæjarfulltrúa í næstu kosningum. Með Ómar er það útilokað.


mbl.is Vill að Ómar víki úr bæjarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólað í vinnuna, Kársnes-Höfðabakkabrú-Mos

Hjólað í vinnuna eftir Álfhólsvegi, Smiðjuvegi, Höfðabakka og Vesturlandsvegi upp í Mosfellsbæ. Leiðin er sýnd á 1. mynd.

hofdabakki Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 90 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem ein mynd er sýnd á sekúndu. Það tekur 90 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

  Ferðin var farinn á sprett hjólinu mínu (racer) með myndavélinni á stýrinu. Það er miklu meiri titringur á því heldur en á fjallahjólinu þannig að myndavélin losnaði og snérist og eru nokkrar myndir teknar þegar ég er að festa hana aftur.

Höfðabakkabrú

2. mynd er tekin á leiðinni yfir Höfðabakkabrú. Hún er sennilega versti farartálminn á leiðinni. Hún er of mjó til að óhætt sé að bílar taki óhindrað framúr. Þeir geta ekki vikið til hliðar eins og þeir þurfa að gera við framúrakstur útaf vegriði milli akreina á miðri brúnni. Þeir hægja flestir á sér þannig að hjólreiðamaðurinn verður lestarstjóri yfir brúna. Hjólið kemst ekki út á vegöxlina því vegbrúninni er of há og vegöxlin er holótt og sprunginn. Að auki er vegkantur að hluta á leiðinni yfir brúna. Þarna væri auðvelt að breikka veginn með því að lagfæra vegöxlina og bæta þannig aðstæður hjólreiðafólks og bílaumferðar. Það er pláss til þess á brúnni.

 3. mynd er tekin á Vesturlandsvegi. Á henni sést hvernig bílstjórar eiga að taka fram úr hjólum með því að víkja vel til hliðar og gefa hjólreiðamanninum gott pláss. Almennt finnst mér flestir bílstjórar á Vesturlandsvegi sýna góða tillitsemi við framúrakstur, sérstaklega atvinnubílstjórar eins og í rútunni hér. Hjólreiðamenn eiga að kappkosta að fá bílstjóra að víkja vel til hliðar með því að vekja á sér athygli, með réttri staðsetningu á götunni og með því að vera sýnilegir með ljósum, endurskini og áberandi klæðnaði.

Rúta

 Þessi ferð:
Klukkan: 8:15
Vegalengd: 15,78 km
Meðalhraði: 22,08 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 42:54 mínútur
Hámarkshraði: 41,38km/klst 


Frábærir bílstjórar

Bílstjórar strætó sýna en og aftur góða takta í þessarri keppni. Dags daglega sýna þeir einnig góða takta undir stýri og flytja tugþúsundir höfuðborgarbúa milli staða á skjótan, ódýran og þægilegan máta.

Strætó bs. er frábært fyrirtæki með almennt góða þjónustu miðað við aðstæður og farþegafjölda. Fargjöld eru almennt lægri en í nágrannalöndum. Til dæmis er mun ódýrara að nota strætó allt árið með afsláttarfargjöldum en í mörgum borgum á Norðurlöndum. Nú þurfa bara fleiri að nota strætó til að þjónustan geti verið en betri.

Tengja þarf Suðurnesin og flugstöðina við þjónustusvæðið, fjölga forgangsakreinum strætó, bæta aðkomu að verslanamiðstöðvum, huga að nýrri norður-suður akstursleið um Reykjanesbrautina og bæta þjónustuna við farþega á bið og skiptistöðvum. Sumt af þessu er auðvitað ekki á forræði strætó heldur sveitarfélaganna, ríkisins og verslanamiðstöðva.

Svo má fara með reiðhjól í vagnanna!


mbl.is Íslendingar leiknustu ökumenn strætisvagna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólað í vinnuna, Laugardalslaug-Kársnes

Hjólaði heim af fundi í Laugardalnum um daginn. Leiðin er sýnd á 1. mynd.Laugardalur

 

Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 61 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem ein mynd er sýnd á sekúndu. Það tekur 61 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

2. mynd er tekin á vinstri beygjunni af Suðurlandsbraut upp í Hallarmúla. Mótórhjólamaðurinn er þarna í ríkjandi stöðu á akrein eins og bíll. Hjólreiðamaður á að vera í sömu stöðu þarna.Suðurlandsbraut

 

 

 

 

 

3. mynd er tekin þegar hjólið kemur vestur Ármúla og nálgast gatnamótin við Háaleitisbraut. Hjólreiðamaður á að öllu jöfnu að troða sér áfram vinstra megin við umferðina eins og önnur ökutæki. Það á aldrei að troðast áfram nema það sé öruggt.

Hættulegustu aðstæður sem hjólreiðamaður lendir í er að vera hægra megin við vörubíl/strætó á gatnamótum. Við þær aðstæður verða flest banaslys erlendis. Hjólreiðamaður á við þær aðstæður að taka sér ríkjandi stöðu á akrein til að hindra bíla í að koma samsíða hjólreiðamanninum á akreininni.Troðast

 

 

 

 

 

4. mynd sýnir stöðu á akrein við ljós þegar á að halda beint áfram. Vel sjáanlegur í baksýnispegli hjá bílstjóranum á undan. Þarna er líka hægt að vera beint aftan við bílinn. Á þessum ljósum beygja lang flestir til hægri og með því að kanna hvert bílstjóri fyrir aftan er að fara er ekki óðeðlilegt að taka þessa stöðu á þessum gatnamótum.Í speglinum

 

 

 

 

 

5. mynd er tekin við afrein af Kringlumýrarbraut upp á Bústaðaveg. Umferðin í bæinn er minni seinnipartinn þannig að oft er auðveldara að fara austan við Kringlumýrarbrautina á þessum tíma yfir þessa afrein. Á morgnanna er þessu öfugt farið, þá er mikil umferð í bæinn en minni úr bænum þá er oftast auðveldara að fara yfir aðreinina frá Bústaðavegi niður á Kringlumýrarbraut vestan megin við Kringlumýrarbrautina.Afrein

 

 

 

 

 

6. mynd er tekin á nýja stígnum í gegnum Lund í Kópavogi austan megin við Kringlumýrarbraut / Hafnarfjarðarveg. Það er sem sagt búið að klára leiðina í gegn en möl og sandur er en á malbikinu.Við Lund

 

 

 

 

 

Á 7. mynd er hjólið á leið vestur Kársnesbraut og er að fara að beygja upp Urðarbraut. Áður en sveigt er yfir er litið aftur, gefið stefnumerki ef þarf og farið í ríkjandi stöðu á akrein og síðan sætt færi á að beygja yfir akreinina á móti.

Kársnesbraut

 

 

 

 

 

Á 8. mynd er hjólið í bestu stöðu í þröngri húsagötu sem í þessu tilviki er með einstefnu. Á miðri götunni í ríkjandi stöðu. Þarna sést hjólið best og hjólreiðamaðurinn sér best umhverfi sitt.

Vallargerði

 

 

 

 

 

Þessi ferð:
Klukkan: 17:05
Vegalengd: 6,31 km
Meðalhraði: 18,68 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 20:18 mínútur
Hámarkshraði: 44,8 km/klst

 


Spilltasti bæjarstjórinn

Er Gunnar spilltasti bæjarstjóri landsins í spilltasta sveitarfélagi landsins? Já því miður, fyrir íbúa Kópavogs. Það merkilega er að Gunnar nýtur virðingar sumra. Það segir þó meira um það fólk en Gunnar sjálfan. Því fólki finnst þessi spilling fín, skemmtileg og til fyrirmyndar!

Framkoma Gunnars er almennt skammarleg og mörg ummæli Gunnars um þá sem gagnrýna hann virðast benda til þess að hann gangi ekki heill til skógar, en kannski eru það bara leikrænir tilburðir. Kannski vilja sjálfstæðismenn bara hafa forystumenn sína svona?

Annars er sennilegt að þessi atburðarrás sé hönnuð til að reka Gunnar úr stöðunni eða slíta samstarfinu við sjálfstæðisflokkinn. Það væri þó hægur leikur að velja annað mál úr sögu spillingarinnar í Kópavogi til þess. Að vísu voru samstarfsmenn Gunnars í sjálfstæðisflokknum og framsóknarflokknum þáttakendur í þeim málum að einhverju leyti.

Nefna má geðþótta lóðaúthlutanir til gæðinga en Kópavogur hefur hlotið marga dóma af ýmsum dómstigum og úrskurði frá umboðsmanni Alþingis þar sem dæmt var að bærinn hefði brotið stjórnsýslulög við lóðaúthlutanir.

Þá má nefna Glaðheima málið, sem bærinn tapar sennilega um 5 milljörðum á þegar allt er talið. Þar keypti bærinn gömlu hesthúsin á einbýlishúsaverði, til að hesthúsaeigendur gætu keypt sér Landcruiser á milli gömlu og nýju hesthúsanna, eins og einn bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins orðaði það svo pent. Þar virtust menn gleyma að bæjarstjórninni ber að gæta hagsmuna bæjarbúa en ekki hesthúsaeiganda. Ein afleiðingin af því máli er að Kópavogsbúar niðurgreiða vatnið ofan í Garðbæinga næstu 40 árin með skatttekjum sínum.

Svo má nefna Lundar málið þar sem verktakafyrirtækið BYGG fékk að byggja á landi Kópavogs fyrir lítið fé og án útboðs en Gunnar mun vera tengdur Bygg samkvæmt DV.

Kópavogur er lýsandi dæmi um hversvegna við þurfum að herða lagaumhverfið í kringum sveitarfélögin. Til dæmis með því að breyta sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum og setja inn í þau refsi- og sektarábyrgð einstaklinga í sveitarstjórnum sem taka ólöglegar ákvarðanir. Helst þyrfti einhver stofnun að geta tekið að sér rannsókn þegar sveitarstjórnir misfara með fé og taka ólöglegar ákvarðanir um úthlutun gæða.

Það er fyndið að Gunnar talar um nýsamþykktar siðareglur hjá bænum. Hvergi í siðareglunum stendur þó að fara skuli að lögum. Við íbúar Kópavogs krefjumst ekki meira af bæjarstjóranum og bæjarfulltrúum en að farið sé að lögum og þeir séu heiðarlegir. Til viðbótar krefjumst við þess af bæjarfulltrúunum að þeir séu ekki lyddur, hafi bein í nefinu og láti ekki spilltan bæjarstjórann traðka á sér eða stinga upp í sig dúsu.

 


mbl.is Ræða næstu skref í Kópavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru bílastæði, strætóstyrkir og hjólastyrkir hlunnindi? - Svar RSK

Í apríl sendi ég Ríkisskattstjóra (RSK) fyrirspurn varðandi skattalega meðferð mismunandi hlunninda. Spurningarnar voru eftirfarandi:

  1. Teljast bifreiðastæði sem launagreiðandi lætur launþega í té á vinnustað starfstengd hlunnindi í skilningi laga um tekjuskatt?
  2.  Teljast strætókort eða farmiðar eða greiðslur til kaupa á þeim, sem launagreiðandi lætur launþega í té til ferðalaga úr og í vinnu, hlunnindi í skilningi laga um tekjuskatt?
  3. Teljast greiðslur til launþega frá launagreiðanda vegna styrkja til kaupa eða notkunar á reiðhjóli til ferða úr og í vinnu hlunnindi í skilningi laga um tekjuskatt.

Frekari skýringar voru síðan við hverja spurningu. RSK svaraði bréfinu greiðlega. Í stuttu máli kemur fram í svarinu að bifreiðastæði hafa ekki verið talin til hlunninda en bæði greiðslur eða ígildi þeirra fyrir strætófargjöldum og reiðhjólum eru talin til hlunninda. Öllum atriðum spurninganna er hinsvegar ekki svarað. Afrit af þessu svari RSK er hér meðfylgjandi.

Þar sem margir gætu haft áhuga á þessu svari er það birt hérna og er öllum heimilt að notfæra sér það með því skilyrði að getið sé heimildar.

Sjálfur ætla ég að skrifa meira um þetta mál seinna.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Festing fyrir myndavél á stýri

Ég fékk fyrirspurn um hvernig ég færi að því að taka myndir á hjólinu.

Ég nota veggfestingu fyrir galvaníseruð rör eins og píparar nota en sný við hlutverki festingarinnar. Pípan er í þessu tilviki stýrið á hjólinu sem virkar hér sem festing til að halda í myndavélina sem er skrúfuð ofan á. Festingin þarf auðvitað að samsvara þvermálinu á stýrinu, sem er oftast um 25 - 32 mm.Festing

Ef svona festing er ekki til í draslinu má kaupa hana í pípulagnaverslunum, sem nú eru flestar á Smiðjuveginum í Kópavogi. Til viðbótar þarf maður tvær rær og bolta (skrúfu) með tommumáli, sem passar í skrúfganginn í botni myndavélarinnar. Ef maður á ekki þannig bolta er hægt að fá hann í Fossberg vélaverslun, Dugguvogi 6. Þeir eiga líka skemmtilegt úrval af vinnuvettlingum fyrir hjólaviðgerðirnar.

Boltinn er settur í gegnum opið á festingunni og fest með ró sem er hert vel að. Myndavél1

Myndavélin er síðan skrúfuð ofaná með því að halda í ólina og snúa myndavélinni í hringi þar til hún er komin í botn og snýr í rétta átt. Þá þarf maður að bakka aðeins og herða rónna að og síðan að herða aftur að með myndavélinni þar til hún situr föst ofan á boltanum og hreyfist ekki. Þetta er frumstætt en virkar. Það gæti verið kostur að hafa gúmmískífu þarna á milli.

Ágætt er að vefja ólina á myndavélinni um eitthvað  ef hún skyldi detta. Síðan er bara að R.T.F.M. fyrir myndavélina og komast að því hvað hún getur gert.

Myndavél2


Hjólað í vinnunna, Mosfellsbær-sjóstígur-stígakerfið-Kársnes

Hér er hjólað eftir stígakerfinu frá Mosfellsbæ og heim. Leiðin er sýnd á korti á 1. mynd. Vindur var hafgola á móti.

Sjostigur

Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 118 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem tvær myndir eru sýndar á sekúndu. Það tekur 59 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

 Mosfellsbær setti upp hlið á stígunum í bænum í fyrra (2. mynd), sem eru til að hindra umferð mótorkrosshjóla, fjórhjóla, vespa og gólfbíla! á stígunum. Það er skiljanlegt sjónarmið en hliðin geta valdið þessum aðilum og reiðhjólamönnum hættu í myrkri og vondu skyggni. Hliðin eru ekki vel upplýst þannig að í myrkri er vel mögulegt að hjóla á hliðin ef menn muna ekki eftir þeim eða eru ókunnugir.

dscn0001Stígurinn meðfram sjónum er ekki með lýsingu þannig að nauðsynlegt er að hafa góð ljós á hjólinu að vetrarlagi ef maður hjólar hann eftir að dimmt er orðið. Þá dugar ekkert minna en öflugt flóðljós eins og hægt er að fá. Þau kosta einhvern tug þúsunda hvort sem þau ganga fyrir rafhlöðu eða rafall í nafinu. Ef menn hafa ekki gott ljós verða menn að miða hraða við aðstæður.

 Sennilega verður meira en helmingur slysa á hjóli þegar reiðhjólamaðurinn dettur, t.d. í hálku eða við það að hjóla á fyrirstöðu eða missa stjórn á hjólinu. Vel innan við helmingur slysa verður sennilega þegar hjólreiðamaður og bílstjóri á bíl rekast saman. Engar áreiðanlegar tölur hafa verið teknar saman um þetta á Íslandi svo mér sé kunnugt. Tölur um umferðarslys þar sem lögregla er kölluð til má skoða á vef Umferðarstofu. Ársskýrslur slysaskráningar lögreglu eru t.d. birtar hér: http://www.us.is/id/1000522 . Slysakort með takmörkuðum upplýsingum um einstök slys eru birtar hér: http://www.us.is/id/1000482 .

 Slysaskráning lögreglunnar er auðvitað ekki tæmandi, lögregla er ekki alltaf kölluð til þegar árekstur verður. Verra er að upplýsingar um slys á hjólreiðamönnum þegar bíll kemur ekki við sögu eru ekki teknar saman og birtar. Slys á stígum eru því ekki uppi á borðinu þótt sum þeirra séu e.t.v. skráð við komu á slysadeild. Varasamir staðir á stígum vekja því ekki eftirtekt og úrbætur eru ekki gerðar á stöðum þar sem slys verða. Á síðasta ári veit ég um a.m.k. tvö alvarleg slys á reiðhjólamönnum þegar þeir duttu einir á hjóli. Þau slys eru ekki skráð í gögnum lögreglunnar en vegna þess hvað þau voru alvarleg vita sveitarfélögin þó sennilega um þau. Í báðum tilvikum hlutu reiðhjólamennirnir áverka á eða í kringum mænuna.

Ég hjóla þessa leið frekar sjaldan því ég tel mig öruggari á Vesturlandsveginum og þar er ég fljótari í förum. Þar er góð lýsing og dagleg þjónusta veghaldara og það er líklegra að ég fái aðstoð ef slys verður heldur en á fáförnum stíg meðfram sjónum um hávetur í kolniðamyrkri.

dscn0013

 Á kaflanum við Blikastaðanes hefur stígurinn verið breikkaður og er um 4 m á breidd. Það er til mikilla bóta eins og sést á 3. mynd þar sem gamli stígurinn tekur við af þeim nýja. Þessi stígur á að vera hluti af stofnstígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og eiga þeir stígar að vera 4 m á breidd. Það skapar svigrúm til að skipta stígunum í tvennt fyrir hjólandi og gangandi og skipta hjólahlutanum í tvennt með brotinni línu. Þá geta hjól mæst á sitthvorri akreininni og hægt að innleiða alvöru hægri umferð.

 Umferðarreglurnar á stígunum þurfa að vera eins í öllum sveitarfélögum landsins og þarf því að taka af skarið og ákveða hvernig þetta á að vera. Nóg er komið af reglnarugli á stígunum í borginni. Þar á vera hægri umferð en ekki vinstri umferð. Það er komin tími til að Vegagerð ríkisins og Umferðarstofa taki af skarið og setji fram reglur um umferð, og staðla um gerð stofnstíga fyrir reiðhjól.

 Þessi ferð:
Klukkan: 17:50
Vegalengd: 18,65 km
Meðalhraði: 18,19 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 61:32 mínútur
Hámarkshraði: 42,2 km/klst


Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband