Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Ársþing Landsamtaka Hjólreiðamanna fimmtudaginn 25. febrúar

"you're not alone" eins og Bowie söng. Hjólreiðamenn hafa með sér samtök og mynda samfélag hjólreiðamanna. Þú, sem hjólreiðamaður ert þátttakandi í þessu samfélagi.

Ef þú vilt starfa að málefnum hjólreiðamanna skaltu mæta á "aðalfund" Landsamtaka hjólreiðamanna:

Ársþing LHM verður haldið fimmtudaginn 25. febrúar næstkomandi kl. 20:30 í klúbbhúsi ÍFHK Brekkustíg 2, 101 Reykjavík. Húsið opnar kl. 20:00.

Brekkustígur 2 staðsetning á korti ja.is

LHM eru regnhlífasamtök hjólreiðafélaga á Íslandi og beita sér fyrir hagsmunum alls hjólreiðafólks.

Nánar um hlutverk og starf LHM á vef samtakanna. 


Hvað er á seyði við Nauthólsveg?

Byrjun á merkingu Við hin nýja Nauthólsveg, sem áður hét Hlíðarfótur, er eitthvað skrítið á seyði sem ekki hefur sést á Íslandi áður. Þar eru merktar á veginn til og frá Valssvæðinu stöðvunarlínur fyrir reiðhjól sem ná fram fyrir stöðvunarlínur fyrir bíla.

Á 1. myndinni er upphaf merkingarinnar þegar maður nálgast gatnamótin. Merkingin stefnir beint yfir götuna.

Þegar komið er að gatnamótunum sést að stöðvunarlína fyrir hjól liggur framar en stöðvunarlína fyrir bíla. Samanber 2. mynd.

GatnamótinÞað er eins og gert sé ráð fyrir að þetta sé hjólaleið sem liggi í gegnum Valssvæðið og að gert sér ráð fyrir að hjólað sé á götunni. Spurning er hvort málaðir verði hjólavísar á götuna eins og á Suðurgötu og Einarsnesi.

Hvernig á að leiða hjólreiðamenn í gegnum Valssvæðið er samt nokkuð óljóst. Útaf svæðinu hinum megin þarf að fara upp á gangstétt við Valshúsið og framhjá því og í gegnum grindverk. Það þýðir að það má ekki vera hlið á grindverkinu (3. mynd) og ekki virðist gert ráð fyrir hjólaumferð þar í gegn í hönnun gangstéttanna. Grindverk hjá Val

Sérkennilegt er að hafa biðskyldu handan við gangbraut í stað þess að hafa biðskyldumerki og línu framan við gangbrautina (4. mynd). Bílar eiga því að stöðva ofan á gangbrautinni í stað þess að vera fyrir framan hana. Getur einhver útskýrt hversvegna þetta er haft svona?

Biðskylda á gangbraut

 

Hjólreiðamenn sem hjóla á götunni ættu samt að athuga vel sinn gang ef þeir ætla að beygja til vinstri frá HR í átt að Hringbraut.

Þar ættu þeir ekki að taka sér stöðu í í hjólreiðamerkingunni heldur vera á akrein vinstra megin við hjólamerkingu. Sú akrein er bæði beygjurein til vinstri og rein til að halda beint áfram að Valssvæðinu. Eins og sjá má á 5. mynd eru gatnamótin nokkuð flókin. HR og Loftleiðir er til hægri, Valur til vinstri, vegurinn að Hringbraut niður og að Bústaðavegi upp. Þarna sjást stuttu reinarnar fyrir hjól koma frá vinstri og frá hægri.

Nautholsvegur gatnamot

 

Nauthólsvegur hentar í sjálfu sér sæmilega til hjólreiða.

Akreinar á svæðinu eru 3,5 m á breidd að jafnaði en 4,5 m breiðar þar sem eru miðeyjar. Bílar eiga að komast framhjá reiðhjólamanni á 4,5 m, enda geta þeir ekki farið yfir miðlínu þar. Þar sem eru 3,5 m akreinar geta bílar farið yfir miðlínu/akreinalínu þegar þeir fara framúr. Ég ímynda mér að það ætti ekki að vera mikið vandamál vegna þess að umferðarstraumurinn á annatíma liggur mest í eina átt og því verði ekki margir bíla sem koma á móti. Að hjóla á götunni ætti því að geta gengið ágætlega.

Í drög að "Flokkun gatna til hjólreiða" sem ég hef verið að vinna að flokkast gatan samt í D. flokk sem er 4. flokkur að þægindastigi fyrir hjólreiðar af 6 flokkum:

D. flokkur. Minna þægileg til hjólreiða (einkum á annatíma). Ökuhraði um 50 km. Breidd götu leyfir ekki framúrakstur bíla án þess að þeir fari yfir miðlínu og umferð er nokkuð þétt. Akrein 3,5 m breið.

Þetta er sett fram með fyrirvara um að þetta er ekki endanlegt flokkunarkerfi og að gatan er í raun ekki fullkláruð. Það er til dæmis ekki ljóst hver ökuhraði verður. Við 30 km hraða mundi vegurinn t.d. færast upp í B. flokk.

Ef einhver veit hvað planið er hjá borginni þarna væri gaman að fá innlegg.

 

p.s. Athugið, hægt er að  smella á myndirnar tvisvar sinnum og stækka þær við hvern smell.


Aurhlíf fest á gaffal með dempara

Á veturna er tjörudrullan á höfuðborgarsvæðinu hvimleið fyrir reiðhjólamenn eins og fleiri vegfarendur.  Til að minnka drulluausturinn og bleytuna er nauðsynlegt að hafa góðar aurhlífar eða bretti á hjólunum.

Gamla aurhlífin

Nýja aurhlífinFjallahjólið mitt er ekki með festingar að framan fyrir aurhlífar enda með dempara að framan. Ég var lengi vel með aurhlíf sem festist upp í stýrispípuna og gaf alls ekki nógu góða vörn eins og sjá má á myndinni.

Núna um daginn lét ég loksins verða af því að festa almennilega aurhlíf og bætti drullusokk við að neðan.

Það er ekkert skrúfugat til að festa aurhlífina. Þó að sennilega væri í lagi að bora gat fyrir skrúfu í "gaffalbrúnna" vildi ég ekki hætta á það og brá því á það ráð að festa aurhlífina með bendlaböndum. Aurhlífin er úr harðplasti og auðvelt að bora í gegnum hana fyrir bendlaböndunum. Bendlabönd eru ódýr, sterk og endingargóð og ótrúlega nytsöm.

Eitt sem þarf að passa sérstaklega með V-bremsur er að aurhlífin hindri ekki hreyfingu bremsunnar. Hér liggur hún undir bremsunni.

Bendlabönd að aftan Hér til hliðar sést festingin að aftan. Uppi er gamla festingin fyrir gömlu aurhlífina.

Festing að neðanÖðru megin á gafflinum er hægt að festa í skrúfugat fyrir diskabremsu. Gott er að eiga úrval af skífum og ryðfríum skrúfum í mismunandi lengdum sem fást í byggingarvöru- eða vélaverslunum.

Hinum megin á gafflinum er ekkert skrúfugat og þar er hlífin fest í hosuklemmu af passlegri stærð sem festist utanum gaffalinn.Hosuklemma

Drullusokkur

Drullusokkurinn er síðan punkturinn yfir i-ið. Hann er klipptur til úr gömlu afgangsdekki og festur við aurhlífina með bendlabandi.

Sennilega má drullusokkurinn samt vera breiðari og jafnvel aðeins síðari.

 

Drullusokkur festur við

 

 

Þetta hefur reynst ágætlega og gefur miklu betri vörn fyrir bleytu og drullu.

Maður hefði auðvitað átt að vera búin að gera þetta fyrir löngu síðan. Smile


Hjólreiðamenn eiga heima á götunum

Hjólreiðamenn eiga vel heima í umferðinni á Íslandi. Almennt séð ættu hjólreiðamenn að halda sig á götunum í íbúðarhverfum. Það er fyrst og fremst á stærri tengi, safn- eða stofnbrautum með þungri umferð á annatíma, sem ástæða getur verið til að flytja sig upp á gangstétt eða stíg. Þessar götur henta samt flestar vel til hjólreiða utan annatíma. Á götunum fara hjólreiðamenn hraðar yfir og eru öruggari en á gangstéttum og á mörgum blönduðum útivistarstígum.

Mikilvægt er að hjólreiðamaður staðsetji sig rétt á götunni. Í víkjandi stöðu um 1 m hægra megin við umferðarstraum en ekki nær hægri brún en hálfum m þegar óhætt er að hleypa umferð framúr. Í ríkjandi stöðu á miðri akrein (eða rétt hægra megin við miðju til að pirra ekki bílstjóra :) þegar ekki er óhætt að hleypa umferð framúr, t.d. við gatnamót og í þrengingum. Sýnt á mynd hér. Vikjandi Rikjandi

Bílstjórar eru mjög tillitsamir þegar hjólreiðamenn hegða sér eins og önnur ökutæki í umferðinni og það er sárasjaldan sem maður verður fyrir einhverju ónotum. Það er bara einn og einn sem ekki skilur þetta. Þá er bara að veifa honum og brosa. Sumir kalla líka á mann í einhverju gríni, það eru svo margir spaugarar til. Smile

Íslenskar akreinar eru ekki nema 3,5 m á breidd og því er ekki pláss fyrir bílstjóra til að taka framúr reiðhjóli innan akreinar og það getur vissulega verið óþægilegt. Bílstjóri á að taka framúr með minnst 1 m bili frá ysta hluta reiðhjólsins, stýrinu, en þægilegra er ef þetta bil er meira. Bílstjóri þarf því að fara yfir miðlínu eða akreinalínu til að fara framúr. Sumir bílstjórar virðast eiga bágt með þetta og vilja halda sig alveg á miðri akrein. Mér hefur reynst vel að færa mig utar í götuna til að sannfæra bílstjóra um að fara yfir miðlínuna í framúr akstri. Óæskilegt er að vera of nálægt ytri brún akbrautar því það hvetur bílstjóra til að vera innan akreinarinnar í framúrakstri og þá fara þeir óþægilega nálægt hjólreiðamanni. Það er líka slæmt vegna þess að bílstjórar taka síður eftir hjólreiðamanni alveg við brúnina heldur en ef hann er um 1 m inni á götunni. Það á til dæmis við um bílstjóra á biðskyldu í hliðargötu og líka bílstjórum sem er nýbúnir að fara fram úr hjólreiðamanni og gleyma honum um leið ef hann er of utarlega. Góð viðmiðun í víkjandi stöðu er að vera hægra megin í hægra hjólfari bílanna eins og sýnt er á myndinni hér til hliðar sem tekin er í Safamýri.Víkjandi staða í Safamýri

Í skammdegi og myrkri er mikilvægt að vera í sýnilegum fötum, með endurskin á hjólinu og góð ljós. Ef bílstjórar eiga að taka tillit til manns verða þeir að sjá mann!


Gott dæmi um það sem vel er gert

Rekstur Slysavarnarskólans kostar 61,2 milljónir kr. á ári segir í tilkynningu samgönguráðuneytis.

Eins og margir íslendingar fylgdist maður með slysafregnum á sjó með sorg í hjarta þegar íslenskir sjómenn drukknuðu eða slösuðust í vinnuslysum oft á ári hér áður fyrr. Þótt ég hafi engar tölur haldbærar hefur maður það á tilfinningunni að vinnu- og sjóslys séu miklu fátíðari en áður var.

Hvað skyldi þessi skóli hafa skilað miklu til baka í færri slysum á sjó? Hvað skyldi það gera í krónum og aurum og ekki síður í færri munaðarlausum börnum og ekkjum?

Þó ekki sé hægt að þakka Slysavarnarskólanum einum fyrir þennan árangur finnst mér hann vera gott dæmi um það þegar peningunum er vel varið af hálfu hins opinbera og þeir skila sér margfalt til baka.


mbl.is Samið um Slysavarnaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegur áhugi en oft er gott að leita leiðsagnar

Það má til dæmis benda á að hjá þeim vantar tillögu um aukningu hjólreiða og göngu í samgöngum borgarbúa og íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Það er líka hæpið að halda að notkun íblöndunarefna í bensíni hafi nokkuð að segja fyrir losun gróðurhúsalofttegunda eða mengun í borginni. Íblöndunarefni eins og alkóhól í bensín hafa ekkert að segja og er sennilega öngstræti í leit að endurnýjanlegum orkugjöfum.

Það þarf að efla almenningssamgöngur en það verður ekki gert með því að gera þær ódýrari þar sem dagleg notkun strætó er í dag sennilega ein ódýrasta þjónusta almenningssamgangna sem finna má á Norðurlöndum. Miklu frekar þarf að hækka fargjöld. Eins og ungir framsóknarmenn segja þarf að bæta þjónustunetið og einnig að auka tíðni ferða.

Innleiðing léttlesta á fjölförnum leiðum er því miður bara draumórar eins og er.

Í ályktunina vantar síðan það sem skiptir mestu máli varðandi samgöngur og að auka hlutdeild visthæfra samgangna. Það er að snúa við blaðinu hvað varða öfuga hagræna hvata til notkunar einkabíla í borginni og landinu öllu.

Með öðrum orðum þarf að minnka og helst að hætta alveg að niðurgreiða notkun einkabíla á landinu. Bara niðurgreiðslur vegna bílastæða á höfuðborgarsvæðinu er 2-3 sinnum sú upphæð sem sveitarfélögin hér eyða í niðurgreiðslur á rekstri strætó. Aðrar niðurgreiðslur með bílum eru vanskattlagning bifreiðastyrkja og bifreiðahlunninda og kostnaður við uppbyggingu og rekstur umferðarmannvirkja sem umfram er skattlagningu með vöru- og eldsneytisgjöldum á bíla og eldsneyti.


mbl.is Endurnýjanleg orkuborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband