Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Hjólreiðar 2010 - 1 þáttur - Hjólin

Á árinu 2010 hjólaði ég um 4.100 km á þremur hjólum. Gary Fisher Wahoo árgerð 2004, Trek 2200 árgerð 2004 og Mongoose Sycamore árgerð 1996. Það eru rúmir 11 km á dag að jafnaði árið um kring.

Gary Fisher Wahoo 2004

 Gary Fisher Wahoo 2004 er hardtail ál fjallahjól með dempara að framan (bilaðan). Það er útbúið með bögglabera og tösku og aurhlífum. Ég set líka stundum kerru aftan í það. Það hef ég notað árið um kring en þó einkum á veturna síðustu ár. Þá er það útbúið með nagladekkjum. Ég er sennilega búinn að hjóla á því um 10.000 km en núverandi mælir stendur í um 7.900 km. Það er búið að skipta um afturgjörð á því og ég er búin að skipta um krans og keðju tvisvar, sveifarlegu einu sinni og víra og barka einu sinni. Ég er líka búinn að skipta um hnakk og stamma til að lyfta stýrinu. Þetta hjól er hálfgerður hlunkur en mjög sterkt. Í Straeto nr15Ég hef farið í eina langa ferð á því um 800 km og það sló ekki feilpúst þar þrátt fyrir farangur í hnakktöskum að framan og aftan og ofan á bögglaberanum. Í þannig múnderingu var það stöðugt og gott ferðahjól en þungt í vöfum með farangurinn.

Hér er það á leiðinni upp í Mosó í leið 15.

Trek 2200

Trek 2200 2004 er spretthjól (racer) úr áli með carbon gaffli í stýri og carbon sætisgaffli. Það er hvorki með skrúfgötum fyrir aurhlífum né bögglabera. Ég útbjó það með aurhlífum sem eru festar með gúmmí festingum utanum gafflana og bögglabera sem hangir neðan úr hnakknum sem styður við hnakktösku frá Carradice. Það ber um 10 kg. Þannig útbúið er hjólið eins og létt ferðahjól og ég nota það á sumrin mest til að hjóla í vinnuna en einnig í skemmtihjólarí á kvöldin. Því hef ég núna hjólað um 2700 km.

Trek 2200

 

Hér er líka mynd af því á Gemlufallsheiði.

Mongoose Sycamore

 

 

Mongoose Sycamore 1996 er hardtail fjallahjól úr stáli ódempað. Ég fékk það gefins fyrir um 2 árum. Það var í fínu ástandi, greinilega búið að vera inni að mestu leyti. Það þurfti bara að skipta um bremsupúða og endurnýja víra og barka og þar með var það orðið eins og nýtt. Ég skipti líka út aurhlífum, setti götudekk og annan hnakk en hélt bögglaberanum. Síðan er það búið að þjóna vel. Ég nota það mest á haustin og vorin og á veturna þegar ekki er hálka og set það ekki á nagladekk. Oftast er það með létta tösku á bögglaberanum. Það er ótrúlega gott hjól, sterkt, létt, lipurt og spretthart. Ef einhver er með svona hjól í skúrnum hjá sér er það frábært til að ganga í endurnýjun lífdaga í upprunalegri mynd eða þá að láta gjörbreyta því. Til dæmis hjá Kríu eða hjá Hjólameistaranum. Ég er sennilega búinn að hjóla eitthvað um 2.000 km á því en mælirinn stendur í 612 km.

Í næsta þætti ber ég saman tölfræðina yfir þessi hjól árið 2010.

 


Áhugavert verkefni en margt annað þarf að skoða

Ég er lestarfikill en ég veit að það eitt að láta tóma neðanjarðarlest ferðast milli stöðva mun ekki breyta miklu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki hægt að rekar neðanjarðarlest hér nema að gera miklar breytingar ofan jarðar sem ég held að almenningur og stjórnmálamenn séu ekki tilbúnir til að gera. Þær breytingar má eins gera fyrir strætó eða þá ofanjarðarlest ef út í það er farið.

Strætó er besta lausnin. Til að bæta samkeppnisstöðu strætó má fara ýmsar leiðir. Strætóhópur samtaka um bíllausan lífsstíl hafa lagt til  þessa framtíðarsýn um strætó í almannaþjónustu.

Það verður ekki gengið lengra í að niðurgreiða fargjöld í strætó. Fargjöld með strætó eru hér mun lægri en í nágrannalöndunum og þjónustan á annatíma er sambærileg í flestum hverfum og í sambærilegum hverfum í nágrannalöndum okkar.

Samgöngusamningar á vinnustöðum þar sem mönnum eru greiddir samgöngustyrkir fyrir að koma ekki á bíl í vinnuna og spara þar með bílastæði fyrir launagreiðandann er góð leið til að minnka notkun einkabíla og auka notkun strætó, hjólreiða og göngu.

Önnur leið er að draga úr niðurgreiðslum með notkun einkabíla t.d. að:

  • minnka hvata í skattkerfinu til notkunar einkabíla,
  • taka raungjald fyrir notkun bílastæða
  • taka raungjald fyrir notkun vega
  • verðleggja land miðað við markaðsverð, land undir vegum og bílastæðum sé ekki undanþegið sanngjarnri lóðarleigu.

Upphaflegur titill á færslu: "Því miður ekki heil brú í þessu"
mbl.is Kanna hagkvæmni jarðlestakerfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattkerfið hvetur til bílanotkunar

Málið er að það er ódyrara fyrir bæði launagreiðanda og launþega að launin séu greidd í gjaldmiðlinum Toyota heldur en íslenskum krónum. Af krónunum þarf að greiða tekjuskatt og útsvar en af Toyota þarf bara að reikna hlunnindi í íslenskum krónum, sem eru um 50% af þeim tekjum sem viðkomandi þarf að hafa til að sjálfur kaupa, eiga og reka viðkomandi bíl.

Skattkerfið ýtir undir að laun séu greidd í Toyotum, Lexusum o.s.frv. frekar en íslenskum krónum vegna þess að það er skattalega hagstætt. Þessvegna vilja margir sem eru í þeirri aðstöðu frekar fá greitt í þeim gjaldmiðli heldur en íslenskum lögeyri.

Þetta er auðvitað siðleysi hjá Guðrúnu og dæmigert fyrir lögfræðinga og endurskoðendur að komast að svona niðurstöðu. Guðrún ætti bara að skila druslunni og hjóla, taka strætó eða fá far sinna erinda.

Dóttir hennar hefur heldur ekki gott af þessu dekri. Þetta er einfaldlega ekki gott uppeldi.


mbl.is Bæjarstjóri gagnrýndur fyrir bílanotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf að bæta snjóruðning á stígum

Víða virðist snjóruðningur hafa gengið hægt fyrir sig á stígum frá því á föstudaginn þegar snjónum kyngdi niður. Á laugardaginn var t.d. ekki búið að ryðja hjólastíginn í Fossvogi þótt göngustígurinn hafi verið ruddur. Óruddur stígurinn í Fossvogi

Í morgunn var ekki búið að ryðja beygjuna frá stígnum við Kringlumýrarbraut uppá Fossvogsstíginn undir göngubrúnni á Miklubraut. Þetta hefur þó smá saman verið að koma en hætt er við að bílstjórar yrðu ekki ánægðir með svona þjónustu.

Heyrst hefur að snjóruðningur hafi verið einna lakastur í Hafnarfirði og Garðabæ en betri í Kópavogi og Reykjavík. Mér hefur þótt það misjafnt í Reykjavík og Kópavogi en hef ekki séð það sjálfur í Hafnarfirði og Garðabæ.  Það var hinsvegar vel rutt upp í Mosfellsbæ hvað ég sá í kringum miðbæinn þar. Mér fannst áberandi hvað stígarnir voru vel hreinsaðir þar uppfrá en sumstaðar hefur mér þótt að snjónum sé meira þjappað ofan á stíginn frekar en að honum sé ýtt af stígnum. Það er eins og tækin ráði ekki alltaf við snjóinn sem fyrir er. Þetta er bagalegt því færðin verður ójöfn þegar gengið er í þjöppuðum snjó.

Mosfellsbær á hrós skilið fyrir vel rudda stíga.

Fróðlegt væri að heyra frá fleirum um hvernig hafi verið rutt á þeirra leið. 

Í strætóEn þegar tíðin er slæm með stormi og illa ruddum stígum má alltaf stytta sér leið og taka strætó aðra leið eða báðar.

Strætó bs. veitir frábæra þjónustu sem óvíða er að finna í nágrannalöndum okkar og leyfir reiðhjól í strætó. Þennan möguleika er mjög auðvelt að nota sér og maður er nokkuð viss um að komast með hjólið á flestum leiðum. Það er helst á hraðleiðunum, 1, 3, og 6 sem erfitt getur verið að taka hjólið með á annatíma.

Strætó á hrós skilið líka. Áfram Strætó!


Nýr hjólabloggari - dashjol

Nýlega byrjaði nýr hjólabloggari að blogga um hjólreiðar í höfuðborginni. Stefnuskráin hans er birt hér.

Hann er með ferska pistla og víðar tengingar en kjölfestan er hjóladagbók um daglegar hjólreiðar í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu.

Hann býr í Hafnarfirði en þar hafa ekki verið bloggarar sem hafa miðlað af reynslu sinni af hjólreiðum í nokkurn tíma svo ég viti um. Þar hefur verið eyða í umfjöllun um hjólreiðar sem Davíð mun vonandi fylla.

dashjol


Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband