Hjólað í vinnunna, Mosfellsbær-sjóstígur-stígakerfið-Kársnes

Hér er hjólað eftir stígakerfinu frá Mosfellsbæ og heim. Leiðin er sýnd á korti á 1. mynd. Vindur var hafgola á móti.

Sjostigur

Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 118 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem tvær myndir eru sýndar á sekúndu. Það tekur 59 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

 Mosfellsbær setti upp hlið á stígunum í bænum í fyrra (2. mynd), sem eru til að hindra umferð mótorkrosshjóla, fjórhjóla, vespa og gólfbíla! á stígunum. Það er skiljanlegt sjónarmið en hliðin geta valdið þessum aðilum og reiðhjólamönnum hættu í myrkri og vondu skyggni. Hliðin eru ekki vel upplýst þannig að í myrkri er vel mögulegt að hjóla á hliðin ef menn muna ekki eftir þeim eða eru ókunnugir.

dscn0001Stígurinn meðfram sjónum er ekki með lýsingu þannig að nauðsynlegt er að hafa góð ljós á hjólinu að vetrarlagi ef maður hjólar hann eftir að dimmt er orðið. Þá dugar ekkert minna en öflugt flóðljós eins og hægt er að fá. Þau kosta einhvern tug þúsunda hvort sem þau ganga fyrir rafhlöðu eða rafall í nafinu. Ef menn hafa ekki gott ljós verða menn að miða hraða við aðstæður.

 Sennilega verður meira en helmingur slysa á hjóli þegar reiðhjólamaðurinn dettur, t.d. í hálku eða við það að hjóla á fyrirstöðu eða missa stjórn á hjólinu. Vel innan við helmingur slysa verður sennilega þegar hjólreiðamaður og bílstjóri á bíl rekast saman. Engar áreiðanlegar tölur hafa verið teknar saman um þetta á Íslandi svo mér sé kunnugt. Tölur um umferðarslys þar sem lögregla er kölluð til má skoða á vef Umferðarstofu. Ársskýrslur slysaskráningar lögreglu eru t.d. birtar hér: http://www.us.is/id/1000522 . Slysakort með takmörkuðum upplýsingum um einstök slys eru birtar hér: http://www.us.is/id/1000482 .

 Slysaskráning lögreglunnar er auðvitað ekki tæmandi, lögregla er ekki alltaf kölluð til þegar árekstur verður. Verra er að upplýsingar um slys á hjólreiðamönnum þegar bíll kemur ekki við sögu eru ekki teknar saman og birtar. Slys á stígum eru því ekki uppi á borðinu þótt sum þeirra séu e.t.v. skráð við komu á slysadeild. Varasamir staðir á stígum vekja því ekki eftirtekt og úrbætur eru ekki gerðar á stöðum þar sem slys verða. Á síðasta ári veit ég um a.m.k. tvö alvarleg slys á reiðhjólamönnum þegar þeir duttu einir á hjóli. Þau slys eru ekki skráð í gögnum lögreglunnar en vegna þess hvað þau voru alvarleg vita sveitarfélögin þó sennilega um þau. Í báðum tilvikum hlutu reiðhjólamennirnir áverka á eða í kringum mænuna.

Ég hjóla þessa leið frekar sjaldan því ég tel mig öruggari á Vesturlandsveginum og þar er ég fljótari í förum. Þar er góð lýsing og dagleg þjónusta veghaldara og það er líklegra að ég fái aðstoð ef slys verður heldur en á fáförnum stíg meðfram sjónum um hávetur í kolniðamyrkri.

dscn0013

 Á kaflanum við Blikastaðanes hefur stígurinn verið breikkaður og er um 4 m á breidd. Það er til mikilla bóta eins og sést á 3. mynd þar sem gamli stígurinn tekur við af þeim nýja. Þessi stígur á að vera hluti af stofnstígakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið og eiga þeir stígar að vera 4 m á breidd. Það skapar svigrúm til að skipta stígunum í tvennt fyrir hjólandi og gangandi og skipta hjólahlutanum í tvennt með brotinni línu. Þá geta hjól mæst á sitthvorri akreininni og hægt að innleiða alvöru hægri umferð.

 Umferðarreglurnar á stígunum þurfa að vera eins í öllum sveitarfélögum landsins og þarf því að taka af skarið og ákveða hvernig þetta á að vera. Nóg er komið af reglnarugli á stígunum í borginni. Þar á vera hægri umferð en ekki vinstri umferð. Það er komin tími til að Vegagerð ríkisins og Umferðarstofa taki af skarið og setji fram reglur um umferð, og staðla um gerð stofnstíga fyrir reiðhjól.

 Þessi ferð:
Klukkan: 17:50
Vegalengd: 18,65 km
Meðalhraði: 18,19 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 61:32 mínútur
Hámarkshraði: 42,2 km/klst


Hvað á að gera í staðinn?

Þetta eru óþægilegar ráðstafanir en hvaða leiðir aðrar eru raunhæfar? Eigum við að hækka tekjuskatta? Hækka komugjöld á sjúkrahús? Lækka ellilífeyri eða tryggingar í almannatryggingakerfin? Lækka atvinnuleysisbætur? Minnka fæðingarorlof? Stytta skóladaginn? Hækka virðisaukaskatt á matvöru?

Allar ráðstafanir hafa erfiðar afleiðingar.

Hvernig væri að benda á aðrar raunhæfar leiðir þegar menn gagnrýna þessar hækkanir á sköttum á eldsneyti, áfengi og tóbak.


mbl.is Mjög óvinsælar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleiðingar stjórnarstefnu Bush stjórnarinnar

Ofbeldið gagnvart föngum bandaríkjastjórnar í Abu Ghraib fangelsinu og öðrum fangelsum bandarískra stjórnvalda í Írak, Afganistan og annarstaðar var afleiðing meðvitaðrar stefnu stjórnarinnar í meðferð fanga eins og oft hefur komið fram. Á henni ber Bush forseti ábyrgð ásamt öðrum mönnum í ríkisstjórn sinni, fyrst og fremst Cheney og Rumsfeld.

Meðferð fanga bandaríkjanna er ekki verri heldur en í mörgum einræðislöndum sem eru bandamenn bandaríkjanna, sennilega er hún oftast betri. Hinsvegar eiga bandaríkin sem lýðræðisríki að vera fyrirmynd annarra landa í meðferð stríðsfanga og þau eiga auðvitað að fara að alþjóðlegum sáttmálum um meðferð stríðsfanga. Ef þeir eru ekki stríðsfangar á að leiða þá fyrir almenna dómstóla.

Stríð og ómennsk stjórnarstefna gera villimenn úr mönnum eins og dæmin sanna. Við getum ekki huggað okkur með því að þeir sem gerðu sig seka um glæpi í Abu Ghraib og öðrum fangelsum hafi verið undirmálsfólk. Fáfræði þeirra og ungur aldur hefur e.t.v. verið þáttur í því að auðveldari var að móta þá að vilja stjórnvalda. Þeir voru skilgetin afkvæmi kerfisins sem bjó þá til, hvatti þá áfram og skapaði aðstöðu fyrir þá til ofbeldisverka.


mbl.is Nauðganir myndaðar í Abu Ghraib
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólað í vinnunna, Mosfellsbær-Blikastaðir-Kársnes

Blikastadir

Leiðin liggur úr Þverholti í Mosfellsbæ framhjá Blikastöðum, yfir Úlfarsá/Korpu á göngubrúnni og síðan eftir Korpúlfsstaðavegi, Víkurvegi, Hallsvegi, Fjallkonuvegi undir Gullinbrú, Sævarhöfða, Elliðaárdal, Smiðjuvegi, Álfhólsvegi og Borgarholtsbraut (1. mynd).

Veðrið þennan dag var hvöss suðaustan átt með sviptivindum við fjöllin í Mosfellsbæ þannig að ég ákvað að fara leiðina framhjá Blikastöðum til að losna við sviptivindana.

 Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 127 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem tvær myndir eru sýndar á sekúndu. Það tekur 63,5 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

 

Skjólbelti Vindurinn var það hvass þennan dag að það var til bóta að fara upp á stíginn við Víkurveg og vera í skjóli af skjólbeltinu sem þarna er (2. mynd).

 

 

Við bæinn Skálará í Elliðaárdal er jafnan mikill sægur af kanínum sem úða í sig nýgræðingnum á slegnum "túnum" borgarinnar. Krakkarnir hafa gaman að þeim (3. mynd).

Kanínur

 

 

 

 

 

 Smiðjuvegur er gata sem þarf að endurgera því hún er of mjó fyrir þá þungu umferð sem þarna fer um og gangstéttirnar eru ófullnægjandi (4. mynd).

Smiðjuvegur

 

 

 

 

 

 Álfhólsvegur er mjög góð gata fyrir hjólandi, nægilega breið með  hóflegri umferð sem víðast hvar fer ekki of hratt. Mér finnst hún vanmetinn af hjólreiðamönnum því hún er besta austur-vestur tengingin á Digraneshálsi (5. mynd).

 Álfhólsvegur

 

 

 

 

 

Þessi ferð:
Klukkan: 18:15
Vegalengd: 17,7 km
Meðalhraði: 17,7km/1.05klst = 16,9 km/klst
Ferðatími (myndir teknar): 63 mínútur


Bílastæði við Háskólann

Hildur Lilliendahl Viggósdóttir skrifar grein í Fréttablaðið í dag vegna undirskriftasöfnunar Stúdentaráðs þar sem mótmælt er hugmyndum um að koma upp gjaldskyldu á 5% af bílastæðum við Háskóla Íslands. Það er við Aðalbyggingu og Háskólatorg til að tryggja aðgengi fólks að þessum mikilvægustu þjónustustubyggingum og skrifstofum HÍ. Stúdentaráð telur það vera hluta af hagsmunabaráttu stúdenta að berjast fyrir því að geta lagt ókeypis í bílastæði næst mikilvægustu þjónustubyggingum HÍ og hindrað þar með aðgengi annarra að þjónustunni allan daginn. Ég skrifaði grein um þessi mál í Mbl. 2005. Ég get ómögulega haft samúð með Stúdentaráði í þessu máli.

Hildur hefur hafið undirskriftasöfnun gegn þessari undirskriftasöfnun Stúdentaráðs og hefur það reynt að leggja stein í hennar götu til að reyna að hindra að andstæð sjónarmið fái að heyrast.  Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og skrifaði undir í kvöld. Ég hvet alla sem eru nemendur og starfsfólk við HÍ til að skrifa undir þessa undirskriftasöfnun.


Góð ályktun hjá Umferðarráði um hjólreiðar

Ályktun Umferðarráðs um hjólreiðar er mjög góð. Hún er greinilega skrifuð af þekkingu á hlut hjólreiða sem samgöngumáta í borginni. 

Umferð, er umferð allra samgöngumáta, bíla, vélhjóla, reiðhjóla, strætó og gangandi. Umferðarráð hlýtur að berjast fyrir jöfnum rétti allra samgöngumáta og ályktanir ráðsins og starf verða að endurspegla þennan jafna rétt. Því miður hafa íslensk stjórnvöld, ríki og sveitarfélög horft allt of mikið á þátt einkabílsins í samgöngum fram að þessu. Vonandi er að verða breyting þar á bæði hjá ríki og mörgum sveitarfélögum.

Á vef Landsamtaka hjólreiðamanna eru margvíslegar upplýsingar um hjólreiðar.

 Sömuleiðis eru pistlarnir á vef Fjallhjólaklúbbsins mjög fróðlegir.


mbl.is Mikil fjölgun bifhjóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólavísar á götum Reykjavíkur

Síðasta haust voru málaðir svo kallaðir hjólavísar á nokkrar götur í Reykjavík . Það var á Suðurgötu sunnan Hringbrautar og Einarsnesi í póstnúmeri 107 og Langholtsvegi og Laugarásvegi í póstnúmeri 104.

Hvað eru hjólavísar?

Á ensku heita hjólavísar „Bike-and-chevron“. Þeir hafa verið notaðir víða um heim. T.d. í San Francisco og fleiri borgum í BNA, París í Frakklandi, Brisbane í Ástralíu, Zurich í Sviss og Buenos Aires í Argentínu. Hjólavísar eiga að gefa bæði hjólreiðamönnum og ökumönnum skýr skilaboð um að hjólreiðamenn eigi þarna rétt og það beri að taka tillit til þeirra.

Gagnsemi hjólavísa

Það hefur sýnt sig að þar sem hjólavísar eru notaðir finnst hjólreiðafólki það öruggara í umferðinni og ökumenn víkja betur frá hjólreiðafólki. Sumarið 2003 var gerð rannsókn í San Francisco á gagnsemi hjólavísa og voru niðurstöðurnar afgerandi. Þar sem hjólavísar voru á götum hélt hjólafólk sig 20 cm lengra frá kyrrstæðum bílum og var þannig í minni hættu á að lenda á bílhurð, sem opnast skyndilega. Þegar bílar fóru fram úr hélt hjólafólk sig um 10 cm lengra frá kyrrstæðum bílum en bílar sem fóru fram úr juku fjarlægð sína frá hjólreiðamanninum um 60 cm. Ef enginn hjólreiðamaður var á ferð höfðu hjólavísarnir samt þau áhrif að umferðin fór um 30 cm lengra frá kyrrstæðum bílum. Hjólavísar eru mjög ódýr lausn ef menn ætla að bæta umferðaöryggi og öryggistilfinningu hjólreiðafólks og fjölga þar með þeim sem hjóla. Það þarf ekki alltaf að breyta skipulagi og ráðast í umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir eins og breikkun gatna, lagningu hjólareina eða hjólastíga.

Markmiðið með hjólavísum

  • Að minna bílstjóra á að búast við umferð hjólandi á götunni.
  • Að minna bílstjóra á að hjólreiðamenn mega hjóla lengra inni á akbraut, jafnvel þó þeir tefji aðra umferð, ef það er nauðsynlegt vegna þrengsla.
  • Að minna bílstjóra á að víkja vel til hliðar þegar þeir taka fram úr hjólreiðamanni.
  • Að upplýsa hjólreiðamenn um hvar best er að staðsetja sig á götunni með hliðsjón af kantinum eða kyrrstæðum bílum til að auka öryggi sitt.
  • Að fjölga hjólreiðamönnum því mörgum finnst betra að hjóla á sérmerktum götum.

Á hvernig götum henta hjólavísar?

Hjólavísar henta fremur á götum þar sem fjöldi bíla og umferðarhraði er hóflegur, eins og á mörgum safn-  og tengibrautum. Sérstaklega vel reynast hjólavísar á eldri húsagötum, sem nú flokkast sem safn- eða tengibrautir þar sem margar innkeyrslur eru beint frá götu og bílum er lagt við gangstéttarbrún. Hjólreiðamaður sem freistast til að vera á gangstétt er við þessi skilyrði í meiri hættu en hjólreiðamaður sem er vel sýnilegur úti á götu.

En að hjóla á götum?

Það er ein af þversögnunum í öryggismálum hjólreiðafólks að það er í raun öruggara að hjóla á götum borgarinnar en á gangstéttum eða stígum sem þvera götur og innkeyrslur. Ef stutt er á milli gatnamóta og innkeyrsla eru fleiri punktar á ferð hjólreiðamanns þar sem árekstur getur orðið milli ökumanns og hjólreiðamanns. Til að koma í veg fyrir árekstur þarf hjólreiðamaður á gangstétt eða stíg að gæta sín við hver gatnamót og við hverja innkeyrslu. Hraði hans verður minni og gildi hjólsins sem samgöngutækis rýrnar. Að auki þarf hjólreiðamaður að taka tillit til gangandi umferðar enda er hann gestur á mannvirki sem er hannað fyrir hraða gangandi manns. Hætt er við að ökumaður sjái ekki gangandi eða hjólandi sem eru utan sjónsviðs hans á stígum og gangstéttum. Flestar rannsóknir á raunverulegum slysatölum víðsvegar um heim sýna að þeir sem hjóla eftir gangstéttum og stígum og þvera götur og innkeyrslur eru í meiri hættu á að lenda í árekstri en þeir sem deila akbrautum með bílum og eru þar innan sjónsviðs ökumanna. Hjólavísarnir eru einmitt málaðir á götuna þar sem hjólreiðamaður á að staðsetja sig til að vera innan sjónsviðs ökumanns. Á fáförnum húsagötum er mestan part óþarfi að mála hjólavísa enda henta þær götur vel til hjólreiða eins og þær eru nú.

Landsamtök hjólreiðamanna mæla með því að meðfram stofnbrautum verði byggðar brautir fyrir hjól til að tengja saman hverfi og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem nú eru sundurskorin af umferðaræðum. Þessar stofnbrautir þarf að byggja samkvæmt stöðlum þannig að þær henti til hjólreiða á 30 km hraða. Þær eru því öruggari sem færri gatnamót eru þar sem umferð hjólandi skarast við bílaumferð. Flestir stígar höfuðborgarsvæðisins uppfylla því miður ekki reglur fyrir hönnun hjólreiðabrauta og eru þar að auki með blandaðri umferð gangandi og hjólandi.

Fyrstu skrefin hafa nú verið stigin í að nota hjólavísa á Íslandi.  Eins og með margar nýjungar er eitt og annað sem má lagfæra. Meðal þess er að kynna hjólavísana betur og þróa viðmið varðandi staðsetningu hjólavísa á gatnamótum.

Ítarefni:

Landsamtök hjólreiðamanna: www.lhm.is
Fjallahjólaklúbburinn: www.ifhk.is
Þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks: http://tiny.cc/d9aCE
Samgönguhjólreiðar: http://tiny.cc/YOcxO
Brýnustu aðgerðir í málefnum hjólreiðamanna: http://tiny.cc/PwSAW
Skýrsla um hjólavísa San Fransisco (pdf;1,2mb): http://tiny.cc/reKai

1. mynd. Staðsetning hjólavísa við kyrrstæða bíla. (Úr San Francisco skýrslu)

 Hjolavisir

2. mynd. Hjólavísar vísa leiðina framhjá niðurfalli á Laugarásvegi. (ljósmynd Páll Guðjónsson)

 HjolavisirLaugarasvegi

3. mynd. Hjólavísar við þrengingu í Einarsnesi. (ljósmynd Páll Guðjónsson)

 HjolavisirEinarsnesi

Grein birt í Morgunblaðinu 16. maí 2009


Hjólað í vinnuna, Mosfellsbær-Vesturlandsvegur-Kársnes

1. mynd. Leiðin liggur úr Þverholti í Mosfellsbæ eftir Vesturlandsvegi niður á Bíldshöfða. Þaðan er farið inn á Fossvogsstíginn upp á Nýbýlaveg og út á Kársnes.

 Á hjóla og göngustígakorti Reykjavíkur / Höfuðborgarsvæðisins er sýndur malarstígur austan við Vesturlandsveg. Að mínu áliti er ekki hægt að mæla með honum til almennra hjólreiða. Þetta er fjallahjólastígur sem er venjulega laus í sér og skorin af utanvega mótorhjólum. Það þarf að fara hann varlega og maður fer hægt yfir.

 Leiðin sem ég lýsi hér er því á Vesturlandsveginum og á vegöxlum hans.

2. mynd. Frá „Kjarna“ að Þverholti 2 í Mosfellsbæ er hjólað eftir stíg upp frá nýja torginu þar sem gamli hitaveitustokkurinn lá áður ofanjarðar. Þessi leið sýnir hvernig þægilegur útivistarstígur gæti litið út ef hann mundi ná alla leið til Reykjavíkur. Hann er frekar skýldur af húsum og gróðri og ánægjuleg byrjun á ferðinni.   2 1Hladhamrar2 2V Hulduholar

 Af honum er beygt út í Langatanga framhjá OLIS stöðinni og farið í fyrsta hringtorgið á leiðinni til Reykjavíkur við fjallið Lágafell.

 

Ég hjóla gjarnan rétt innan við hvítu linuna í brún vegarins. Ef vegöxlin er með góðu yfirborði, nægilega breið og ekki þakin sandi eða öðru hjóla ég á henni. Vegöxlin er misbreið á leiðinni í bæinn og yfirborðið er misgróft. Víðast hvar er hún ekki mjög þægileg til hjólreiða vegna þess að yfirborðið er gróft og sprungið. Auðvelt ætti að vera að hafa vegöxl með staðlaðri breidd og með góðu yfirborði því plássið er nægjanlegt til hliðanna. Því miður hefur Vegagerðin ekki hugað nægilega vel að þessu.

 3. mynd er tekin í átt að Úlfarsfelli við Hulduhóla og sýnir góða vegöxl sem er að vísu ekki alveg nægjanlega breið. Í grennd við fellin í Mosfellsbæ getur verið sviptivindasamt og er gott að hafa það í huga þegar hjólað er á þessum slóðum. Sviptivindarnir eru hlémegin við fellin, þ.e. mest í austlægum áttum. Sog frá bílum getur líka verið varasamt í miklum vindi en sogið kemur hlé megin við bílana. Ef það er austlæg átt og vindhraðinn komin upp í tveggja stafa tölu t.d. á Korpu er líklegt að vindhviður séu orðnar óþægilegar á þessum slóðum.

2 3V Hamrahlid

 4. myndin er tekin við hringtorg við skógræktina í Hamrahlíð. Til að hjóla á Vesturlandsvegi þurfa menn að ná tökum á að hjóla í gegnum hringtorg sem eru fjögur á þessari leið. Hringtorg eru mjög örugg gatnamót en því miður fara margir bílstjórar of hratt í gegnum hringtorgin. Ef menn eru óöruggir í hringtorgum bendi ég mönnum á að æfa sig með einhverjum sem kann að hjóla í gegnum þau, t.d. þjálfuðum hjólafærnikennara.

 Taka þarf sér ríkjandi stöðu á akrein þegar farið er í gegnum hringtorg. Mér finnst best á Vesturlandsveginum að vera á ytri akrein því mest öll umferðin er að fara beint áfram í gegnum hringtorgið, fáir koma á móti og fara út í þriðja útafakstri, sem mundi skera leið hjólreiðamanns í gegnum hringtorgið. Ég gæti þá að bilum fyrir aftan (gott að hafa spegill) og þegar hentugt bil er á milli bíla tek ég mér ríkjandi stöðu á ytri akrein, gæti að umferð í hringtorginu og held beint í gegnum hringtorgið stystu leið innan ytri akreinar. Þegar ég beygi útaf held ég ríkjandi stöðu nægilega lengi til að vera ekki klemmdur af bíl við hlíðina og færi mig svo út kant og þá komast bílarnir fram úr.

 5. mynd er tekin við afrein að Korputorgi. Afreinar eru miserfiðar eftir magni umferðar, lengd afreinar og fjölda akreina á afrein. Gott getur verið að fylgja vegbrún inn á afrein ef umferð er mikil eða afrein löng. Síðan er sveigt yfir afreinina út á akbrautina þegar komið er að enda afreinar. Eins og alltaf er nauðsynlegt að líta vel aftur fyrir sig áður en beygt er yfir akrein.

2 6V Grafarholt

 6. mynd er við aðrein frá Grafarholti. Það er eins með aðreinar og afreinar, nauðsynlegt getur verið að sveigja yfir aðrein og halda sig við vegbrún hennar og sveigja síðan aftur yfir þegar henni lýkur. Ég fylgi eiginlega öllum af- og aðreinum á Vesturlandsvegi því umferðin er hröð og þessar reinar eru langar. Takið eftir því að vegöxlin hverfur hér þegar kemur að aðreininni. Þetta er hönnunargalli því betra væri að halda vegöxlinni áfram.

2 7V Suðurlandsveg

 

 7. mynd er við brúna þar sem Suðurlandsvegur tengist Vesturlandsvegi. Við af- og aðreinarnar þar halda vegaxlirnar sér og er það miklu betra.

 

2 8V Hofdabakki

 8. mynd er tekin við afrein upp á Höfðabakkabrú. Hún er tvær akreinar með frekar þéttri umferð og það vantar algjörlega bundið slitlag á vegöxl. Þarna þarf að fara varlega yfir akreinarnar. Stoppa ef bílar eru og meta fjarlægð og hvort bílar ætli upp afreinarnar eða áfram vestur úr. 2 9V Hofdabakkabru

 9. mynd er undir Höfðabakkabrú. Á kaflanum frá Viðarhöfða og að aðreinum frá Höfðabakka hinum megin við brúna eru vegaxlir mjög lélegar og vantar bundið slitlag. Varast þarf háa akbrautarbrún og drullu, krap og frosin hjólför eftir aðstæðum. Ég reyni sem mest að vera uppi á veginum þarna.

Handan við brúna koma tvær aðreinar niður á veginn. Þar er hægt að komast auðvedlega yfir með því að hinkra eftir umferðarljósunum uppi á brúnni. 

2 12V Bildshofdi afrein

 10. mynd er tekin af gatnamótum afreinar við Bildshöfða. Þarna tek ég leiðina útaf Vesturlandsvegi. Stundum fer ég útaf áður en ég kem að Suðurlandsvegi, inn á Stórhöfða og fylgi honum allt að Breiðhöfða og þaðan inn á Bildshöfða. (Hef ekki en fundið Svarthöfða!)

2 13Bildshofdi

 11. mynd á fleygiferð  niður Bildshöfða. Varast þarf útkeyrslur. Best að vera í ríkjandi stöðu niður brekkuna. 

 

 2 14Ellidaarstokkur

 12. mynd. Stokkurinn yfir Elliðaárnar. Á þessum slóðum fer maður að sjá lifandi fólk sem er kærkomin tilbreyting.

 

2 16Fossvogsstigur

 

 13. mynd. Fossvogsstígur. Svo það gleymist ekki. Nauðsynlegt er að hafa góð ljós á hjólinu í skammdeginu bæði að framan og aftan til að bílstjórarnir sjái mann. Til að hjóla af öryggi í myrki um myrkvaða stíga þurfa ljósin að vera það góð að maður sjái vel fram á stíginn. Ef ljósin eru ekki nógu góð þarf að fara hægar yfir og sýna fyllstu varkárni. Einn af kostunum við Vesturlandsveginn er að hann er vel upplýstur.

 2 18Furugrund Nybylavegur

14. mynd. Gatnamót Furugrundar og Nýbýlavegar. Ég beygi af stígnum við Fossvogsskóla inn í Kópavog og kem upp hjá Furugrund. Þaðan liggur leiðin eftir Nýbýlavegi í vestur. Nýbýlavegur er nægjanlega breiður til að hjóla hann í víkjandi stöðu. Þegar komið er að gatnamótum tekur maður upp ríkjandi stöðu.

 15. mynd. Komið að hringtorginu á gatnamótum Auðbrekku og Nýbýlavegar hjá Lundi. Hér tek ég upp ríkjandi stöðu á innri akrein því mest af umferðinni vill vera á hægri akrein og beygja til hægri til Reykjavíkur í þar næsta hringtorgi.

 Stóran hluta ársins er maður með sólina í augunum á morgnanna og kvöldin. Því er mjög gott að hafa skyggni á hjálminum eða derhúfu. Ef menn mega missa kúlið er betra að sleppa sólgleraugum því það er auðveldara að ná augnsambandi við bílstjóra án þeirra. 2 21Karsnesbraut Saebolsbraut

16. mynd. Gatnamót Sæbólsbrautar og Kársnesbrautar. Hér held ég mér í ríkjandi stöðu í röðinni á ljósunum frekar en að reyna að taka  framúr.  Margir bílar taka hægri beygjuna hérna og væri það bara til trafala að reyna að komast áfram. Afgangi leiðarinnar heim er lýst í: Kársnes-Grensás-Strætó.

Að hjóla þessa leið tekur venjulega um 40-45 min. Hraðast hef ég farið á um 35 min í meðvindi en hægast að vetrarlagi í þungri færð á um 60-70 min.

Þessi ferð:
Klukkan: 17:30
Vegalengd: 15,67 km
Meðalhraði: 18,57 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 50:41 mínútur
Hámarkshraði: 35,1 km/klst


Hjólað í vinnuna, Kársnes-Grensás-Strætó

Karsnes Grensas Leiðin liggur frá Kársnesi að Grensás þar sem strætó er tekin upp í Mosfellsbæ.

Vallargerði er einstefnugata og mjög þægilegt að hjóla hana á móti umferð, sem er því miður ólöglegt.
Í mörgum nágrannalöndum er leyfilegt að hjóla á móti einstefnu. Umferð á móti sést vel. Varast þarf bíla sem koma út úr innkeyrslum en það er ekki vandamál þar sem hjólreiðamaður sér vel yfir og heyrir í bílum sem eru að fara af stað.

Urðarbraut er sambland af tengibraut og húsagötu og er með 30 km hámarkshraða. Nauðsynlegt er að taka sér ríkjandi stöðu á akrein þegar komið er að gatnamótum.

Ríkjandi staða er um miðja akrein eða rétt til hægri við miðju. Hjólreiðamaður tekur sér ríkjandi stöðu til að hindra fram úr akstur þar sem slíkt mundi skapa hættu fyrir hjólreiðamanninn.

 Víkjandi staða er um 50-100 cm frá akbrautarbrún, eftir aðstæðum á viðkomandi götu. Gjarnan í eða rétt utan við hægra hjólfar, innan við sand, glerbrot og niðurföll við brún akbrautar. Í víkjandi stöðu geta bílar tekið framúr hjólreiðamanni.

 Hér er hraðahindrun á Urðarbraut með gangbraut. Taka þarf sér ríkjandi stöðu á akrein þegar farið er í gegnum þrengingar. Ekki er gott að hafa bíl við hliðina á sér í þrengingu!

 

Kársnesbraut er 50 km safn/tengibraut með mikið af útkeyrslum frá húsum. Gatan er vel breið og fáir bílar leggja við vegbrúnina. Umferð er líka enn þá frekar hófleg. Það er mjög auðvelt og þægilegt að hjóla hana og að mínu áliti öruggara en að reyna að fikra sig eftir gangstéttinni þar sem útsýni er mun takmarkaðra og maður er ekki í sjónsviði bílstjóra. Bílstjórar sem koma út úr útkeyrslum veita vegfarendum á gangstéttum líka litla eftirtekt en þeir gæta betur að umferð á götunni.

 Sæbólsbraut Sæbólsbraut er þröng safngata. Taka þarf ríkjandi stöðu í þrengingunni og í megninu af götunni til að vera í sjónsviði bílstjóra og hafa gott útsýni því gatan er þröng og lélegt útsýni úr hliðargötum.

 

 

   1 8Fossvogurblind Á stígnum framhjá Essó í Fossvogi. Hér er óþörf blindbeygja á stígnum sem skapar hættu ef menn hægja ekki á sér. Þetta er aðalstígur  höfuðborgarsvæðisins nr. 4. Hann er ruddur af Reykjavíkurborg að Fossvogslæk en mætir afgangi samkvæmt áætlun um þjónustuflokkun í snjóhreinsun og hálkueyðingu hjá Framkvæmdasviði: http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-1615. Hann er því oft óruddur og illa sandborinn á veturna. Mikið er af glerbrotum á vorin og haustin þarna í kring.

 Leiðin liggur síðan yfir göngubrúna yfir Kringlumýrarbraut/Hafnarfjarðarveg og áfram upp Fossvogsveg frá Skógræktinni, yfir Bústaðaveg og eftir Háaleitisbraut í norður.

HáaleitisbrautHér er mynd tekin á Háaleitisbraut við Austurver. Á ljósum er best að vera í ríkjandi stöðu, sérstaklega ef möguleiki er á hægri beygju á gatnamótunum. Venjulega þarf ekki að hafa áhyggjur af bílstjórum fyrir framan en ökumenn fyrir aftan þurfa að sjá mann greinilega. Ef hjólreiðamaður er út í kanti er eins víst að þeir taki ekki eftir honum og hætt við að bílstjórar sem eru að taka hægri beygju svíni fyrir hann. Bílstjórar sem tala í farsíma á ljósum eru sérstaklega varasamir.

 Leiðin liggur áfram eftir Háaleitisbraut yfir Miklubraut á ljósunum. 1 11Haaleitisbraut MiklubrautOftast er best að vera í ríkjandi stöðu yfir gatnamótin en ef hraði bíla er orðinn mikill er gott að færa sig betur út í kant og fara yfir samsíða bíl á vinstri hönd. Síðan er farið á beygjurein fyrir Fellsmúla þegar yfir er komið og beygjan tekin inn í Fellsmúlann.

 

 

 

 

 

  Í Fellsmúla er best að reyna að halda ríkjandi stöðu niður brekkuna. Hraðinn er mikil og fáir bílar sem ná fram úr manni. Útkeyrslur og gatnamótin við Síðumúla geta verið varasöm ef maður er ekki í sjónsviði bílstjóra sem ætla út í Fellsmúlann. 1 13Fellsmuli Grensasvegur

 

 

 Strætó nr. 15 fer upp í Mosó og tengir einnig við Akranes- og Borgarnesvagninn í Háholti í Mosfellsbæ. Vegna tengingarinnar uppá Skaga er þjónustan nokkuð öflug. Á 15 mín. fresti á morgnanna og síðdegis. Fjöldi farþega jókst talsvert þegar byrjað var að aka upp á Skaga. Leið 15 vestur í bæ liggur um Hlemm, framhjá Landspítalanum og HÍ og endar hjá KR. Hann er fljótur í förum og þægilegur í alla staði. Á minni leið get ég tekið hjólið með en vandkvæði geta verið á því í öðrum vögnum á annatíma þegar vagnarnir eru fullir. Utan annatíma er það sjaldnast vandamál. Ég er með lás sem gerir kleift að reyra hjólið fast í vagninn. Það er mjög þægilegt því þá er hægt að lesa á leiðinni og þarf ekki að hafa áhyggjur af að hjólið kastist til í hringtorgunum.

Klukkan: 8:30
Vegalengd: 4,82 km
Meðalhraði: 18,07 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 16:03 mínútur
Hámarkshraði: 37 km/klst


Hjólað í vinnuna

Ég hef hjólað mikið á höfuðborgarsvæðinu frá því ég var 22 ára. Þá átti ég lengst af heima innarlega á Kársnesi en var í skóla og vinnu á Grensás, Keldnaholti, HÍ, Miðbænum og Garðatorgi. Eftir að ég lauk námi hef ég alltaf unnið í útjaðri höfuðborgarsvæðisins af einhverri undarlegri ástæðu. Nú á ég á heima utarlega á Kársnesi en vinn upp í Mosfellsbæ. Þar áður var ég í Hafnarfirði. Þegar ég byrjaði á þessum vinnustöðum hætti ég að hjóla í vinnu í nokkra mánuði eða jafnvel ár. Ég varð að yfirvinna einhvern þröskuld í hvert skipti auk þess sem ætlast var til að maður væri á einkabíl í vinnunni. Þegar ég síðan steig yfir þröskuldinn og hjólaði í vinnuna uppgötvaði ég að þetta var ekki óyfirstíganlegt frekar en fyrri daginn og nú hjóla ég um 1-2 viku í í vinnu árið um kring. Ég skipulegg vinnuna þannig að ég þarf ekki að fara langt þá daga sem ég er á hjóli. Ég hef líka uppgötvað að strætó er ákjósanlegur ferðamáti saman með reiðhjólinu. Yfir veturinn, sérstaklega í slæmum veðrum, tek ég hjólið með í strætó frá Grensás upp í Mosó og kem því þokkalega ferskur og ósveittur í vinnu. Hef a.m.k. ekki ennþá verið rekin af kaffistofunni fyrir stæka svitalykt þótt ekki sé aðgangur að sturtu. Ég get skipt um föt og strýk svitann af með klút ef hann er einhver. Með strætó uppeftir svitnar maður varla neitt þrátt fyrir stuttan hjólatúr frá Kársnesi á Grensás.

Ég ætla að skrifa nokkrar leiðalýsingar undir titlinum „Hjólað í vinnuna“ á næstunni eftir því sem ég hef tíma til. Tilgangur skrifanna er tvíþættur. Vonandi hvetur þetta einhvern til að taka fram hjólið og prófa. Sá hin sami á eftir að uppgötva að hindranirnar eru fyrst og fremst í huga hans sjálfs en ekki í umhverfinu. Leiðalýsingarnar hjálpa líka vonandi öðrum að finna góðar leiðir, sem henta þeim til að hjóla milli áfangastaða.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Sept. 2025

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband