Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Linux notendur hlæja að þessu

Við sem notum GNU/Linux hlæjum bara að þessu. Stýrikerfið okkar er:

  1. Að stórum hluta á íslensku.
  2. Fær aldrei veirur.
  3. Hefur aðgang að ótrúlegu magni frjáls hugbúnaðar.
  4. Er stöðugri en andskotinn.
  5. Kostar ekkert.
Sjálfur hef ég notað Ubuntu-linux í ca. 4 ár en þar áður var ég með SUSE. Það er líka til tímarit um Ubuntu.
mbl.is Ókeypis öryggishugbúnaður frá Microsoft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólað í vinnuna, Eiðistorg-Laugavegur

Hjólað "í vinnuna" frá Eiðistorgi á Seltjarnarnesi á Laugaveg. Leiðin er sýnd á kortinu. Það er hægt að klikka á kortið tvisvar og fá þá stærri mynd.

eidistorg

Ferðin er sýnd á eftirfarandi myndbandi. Myndavélin tók mynd á 30 sekúnda fresti og voru myndirnar 28 talsins síðan tengdar saman í myndband þar sem ein mynd er sýnd á sekúndu. Það tekur því 28 sek. Ef myndbandið er skrýtið þarf kannski að klikka tvisvar á það.

Þessi ferð:
Vegalengd: 4,02 km
Meðalhraði: 19.36 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 12.29 mínútur
Hámarkshraði: 34.8 km/klst 


Blindur hjólar Birkebeinerittet

Tore Henriksen fimmtugur blindur norðmaður hjólaði í Birkebeinerittet í sumar. Blindir hjóla oft en þá á tvímenningshjólum (tandem) þar sem stýrimaðurinn hefur fulla sjón. Það gerir t.d. Arnþór Helgason og kona hans Elín.

Norðmaðurinn Tore hjólaði á venjulegu hjóli og elti hann tónlist úr hátalara hjá aðstoðarmanni sem hjólaði á undan honum. Hérna er 30 mínútna mynd um afrek Tore.

 

 


Nýr hjólabloggari

Nýlega sá ég að komið var nýtt blogg um hjólreiðar - "Hjólaðu maður!­". Hér til hægri er tengill á það undir liðnum "Blogg um hjólreiðar". Höfundurinn kynnir bloggsíðu sína með orðunum:

Ég hjóla í vinnuna allt árið um kring og það er bara ekkert mál. Þú getur það líka!
Lang flestir sem hafa ekki prófað að hjóla reglulega í vinnuna eða skólann mikla það fyrir sér, halda að það sé miklu meira mál en það er í raun.
Ert þú einn af þeim? Lestu þér til hér á Hjólaðu maður, hér er allt sem þú þarft að vita: hjálp við að byrja, góð ráð frá reyndum mönnum, svör við spurningum frá fólki eins og þér, og þess háttar.

Flott bloggsíða með skýru Wordpress útliti. Síðasta færslan er um nagladekk í hjólabúðunum, verð og birgðastöðu.


Gáfulegt?

Ég held að þetta hljóti að teljast heimskulegasta og gagnslausasta tæki allra tíma, í fljótu bragði að minnsta kosti.

Hvað er að því að ganga?

Eða nota hlaupahjól innandyra á stórum vinnustöðum eins og hefur verið gert í hátt í hundrað ár. Þau komast miklu hraðar yfir og þarf aldrei að hlaða þau neitt.


mbl.is Samgöngumáti framtíðarinnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyrping í dag - Critical Mass

Það verður farið í Þyrpingu - Critical Mass -  Keðjuverkun, eða hvað þið viljið kalla það í dag.

Þetta birtist á Facebook síðu þyrpingar á Íslandi:

Kæru þorparar!
Tími er kominn á nýja þyrpingu á föstudaginn 25. og það klukkan 17.00 á nýjum stað, Lækjartorgi í hjarta miðborgarinnar.
Vinsamlegast látið áhugasama vita um þennan merkisatburð...

Þá er bara að skella sér.

 


Árið 2030

Ég á tímavél í bílskúrnum og skelli mér stundum í hana til að kanna hvernig boðaðar tæknibyltingar í Mogganum munu móta framtíðina.

Þegar ég sá þessa frétt stóðst ég ekki mátið og brá mér til ársins 2030 í apríl. Ég tók einmitt mynd í apríl árið 2008 til samanburðar.

1. mynd. Tekin í apríl árið 2008.

umferd

 

 

 

 

 

 

 

 

 

2. mynd. Tekin í apríl árið 2030.

umferd

 

 

 

Það er ekki um að villast. Það hefur allt færst til betri vegar í framtíðinni með bílum sem menga minna. Blush


mbl.is Eyðir 1,38 lítrum á hundraðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar er hjáleiðin?

Núna í september var byrjað á framkvæmdum við nokkur gatnamót í borginnni þar sem greinilega á að fjölga akreinum og fleira.  Þessar framkvæmdir hafa vægast sagt fengið litla kynningu. Þó virðast hafa verið sett upp skilti á einhverjum stöðum með litlu letri og litlum myndum á t.d. Sæbraut. Engar merkingar eru fyrir gangandi og hjólandi sem segja hvað er verið að gera.

Verra er að hjáleiðir fyrir gangandi og hjólandi hafa ekki verið merktar víðast hvar og enn síður búnar til þar sem þær vantar. Maður hélt að komin væri 21. öldin og árið 2009 en við virðumst en stödd einhverstaðar á 20. öldinni hvað varðar frágang við framkvæmdir fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Ég tók myndband af gatnamótunum við Borgartún-Sundlaugarveg-Kringlumýrarbraut sem sýna aðstæður þarna fyrir gangandi og hjólandi. Hjólreiðamenn geta svo sem flestir nýtt sér hjáleið fyrir bíla en sumir hjólreiðamenn veigra sér við því og gangandi gera það a.m.k. ekki.

Hér er líka myndband á gatnamótum Laugavegar-Suðurlandsbrautar-Kringlumýrarbrautar þar sem ástandið er litlu skárra.

Hvernig stendur á því að framkvæmdaaðilar geta ekki merkt hlutina almennilega og búið til almennilegar og öruggar hjáleiðir. Við höfum þurft að horfa upp á aðstöðuna við Tónlistarhúsið en þar vantar alveg hjáleið norðan megin við götuna og almennilegar merkingar. Maður hélt um stund að þetta væri að þokast í rétta átt. Þetta er þeim mun furðulegra þar sem borgaryfirvöld segjast vilja hafa þetta í lagi en það er eins og einhverstaðar slitni þráðurinn milli óska borgaryfirvalda og þeirra sem sjá um framkvæmdir.


Er akstur bíla sjálfbær?

Ráðstefnan "Driving Sustainability" virðist kostuð af bílaframleiðendum enda virðist mestu púðri eytt í bíla á ráðstefnunni. Það má hinsvegar efast um að akstur bíla sé sjálfbær jafnvel þótt þeir séu knúnir "umhverfisvænum" orkugjöfum eins og metani eða rafmagni. Vetni á bíla virðist nú bara bragð bílaframleiðenda til að hindra þróun nýrra orkugjafa á bíla.

Af fyrirsögnum erinda ráðstefnunnar er ekki að sjá að rætt verði um umhverfisvænsta farartæki sem maðurinn hefur afnot af. Það var fundið upp árið 1816, var þróað út 19. öldina og var búið að ná fullu notagildi fyrir lok þeirrar aldar. Það eyðir um 352 grömmum af fitu notandans á 100 km miðað við 75 kg mann. Það styrkir hjarta, lungu og vöðva. Minnkar fjarvistir vegna sjúkdóma. Mengar ekki andrúmsloftið. Veldur ekki hávaða. Drepur ekki eða stórslasar aðra vegfarendur. Hefur meðalhraða um 15-25 km/klst í borgum (bílar hafa meðalhraðan 20-45 km/klst í borgum). Tekur lítið pláss í notkun og geymslu. Krefst ekki gífurlegra umferðarmannvirkja og bílastæða.

Hvaða farartæki er ég að tala um? Nú auðvitað Reiðhjólið! Orkunýtnasta farartæki í hinum þekkta alheimi.

Samgönguvika hefst nú á miðvikudaginn. Nú er tækifæri að prófa aðra samgöngumáta en einkabílinn. Labba, taka strætó eða nota hjólið. Látið ekki bílaframleiðendur og innflytjendur gabba ykkur.

 

p.s.

Auðvitað er betra ef bílar eru knúnir rafmagni, metani eða repjuolíu frekar en bensín eða dísel. Það verður hinsvegar aldrei sjálfbært að keyra um á 1.300 kg af stáli, plasti og gúmmíi og smá áli í heddinu.

 


mbl.is Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðhjólamönnum fjölgaði um 30% í Stokkhólmi í fyrra.

Fram kemur í frétt Dagens Nyheter í Svíþjóð að hjólreiðamönnum hafi fjölgað um 30% í Stokkhólmi á síðasta ári. Fréttin er að öðru leyti um stefnuskrá flokkanna þar varðandi hjólreiðar fyrir næstu kosningar. Undanfarin ár hefur verið stöðug aukning í fjölda hjólreiðamanna þar í borg en slysum á hjólreiðamönnum hefur ekki fjölgað að sama skapi skv. línuriti blaðsins. Það er í samræmi við aðrar borgir þar sem hjólreiðamönnum fjölgar að slysatíðni eykst ekki í sama hlutfalli eða stendur í stað.

Engin virðist safna upplýsingum um fjölda hjólreiðamanna á Íslandi. Mér sýnist að hjólreiðafólki hafi fjölgað mikið undanfarin ár á höfuðborgarsvæðinu. Maður verður sérstaklega var við það þegar maður hjólar á móti straumi hjólreiðafólks úr og í vinnu á morgnana og seinnipartinn.

Það er tími til komin að samgönguyfirvöld reyni að ná yfirsýn yfir fjölda þeirra sem nýta sér hjólin til samgangna með talningum á völdum stöðum.


Næsta síða »

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband