Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Sturtan stífluð

Um daginn var rennslið niður í baðkarið aftur farið að stíflast. Andskotinn, hugsaði ég.

Baðkarið er mest notað sem sturta og því kemur óhjákvæmilega hár og sest í niðurfallið og stíflar það á endanum þótt það sé með sigti til að taka hárið. Á heimilinu eru núna 6 stelpur og eins og lög gera ráð fyrir eru þær með sítt hár.

Til að losa stífluna hef ég venjulega skrúfað sundur vatnslásinn, sem er frekar óþrifalegt verk og  vegna leti vill það dragast.

En neyðin kennir naktri konu að spinna og lötum eiginmanni að vinna.

Mér datt í hug hvort konan ætti ekki háreyðingarkrem sem ég mætti nota. Jú jú sagði hún og leit á mig eins og ég væri orðinn gaga. Það var til gamalt háreyðingakrem í úðabrúsa. Það má ekki vera lengur en 6 mínútur á húð, inniheldur bæði kalíumhýdroxíð og háreyðingarefnið kalíum thioglycolate. Ég stakk sogröri í stútinn á úðabrúsanum, rak rörið á bólakaf í tappann í vatnslásnum og úðaði þar til ekki tók meira við en þá var kremið búið. Síðan var beðið í um klukkutíma og skolað niður með kröftugri bunu eftir að sturtuhausinn var tekin af.

Huxflux, stíflan farin, einum brúsa færra í baðskápnum, ánægðar stelpur daginn eftir og enn ánægðari eiginmaður. Nú getur hann einbeitt sér að einhverju skemmtilegu eins og að setja aurhlíf á framhjólið á Gary Fisher hjólinu.

Hvernig virkar þetta svo. Í hárinu er keratin fjölliða. Thioglycolat háreyðingarefnið brýtur niður tvítengi mili brennsteinsatoma í keratíninu og veikir þannig byggingu þess en tvítengin gera keratínsameindina mjög stöðuga. Vítissódin, kalíumhýdroxíð, hjálpar til með því að éta upp fituna í tappanum og breyta henni í sápu og með því að æta upp önnur lífræn efni.

Það er samt hæpið að það borgi sig að kaupa háreyðingarefni sérstaklega til þess að losa stíflur.Það er rándýrt. En ef maður á gamlan ónotaðan brúsa er þetta góð leið til að farga honum.

Tími til kominn að fasteignaverð lækki

Það hefur orðið hrun á Íslandi og tími til kominn að fasteignaverð lækki á landinu í samræmi við það. Í öðrum löndum lækkar fasteignaverð um leið og bólan springur og eftirspurnin eftir fasteignum minnkar. Hér á landi lækkar nafnverð fasteigna lítið sem ekkert en raunverð fasteigna rýrnar með verðbólgunni.

Afleiðingin er að við sitjum uppi með frosinn fasteignamarkað til margra ára meðan beðið er eftir að fasteignaverðið nái markaðsverði í samræmi við eftirspurn. Með þessu áframhaldi fer markaðurinn ekki að taka við sér fyrr en eftir tvö þegar verðið verður búið að rýrna um önnur 20% vegna verðbólgunnar. 

Hversvegna gilda ekki markaðslögmál á þessu landi líkt og í öðrum löndum í kringum okkur? Það væri gaman að fá innlegg frá einhverjum spekingi um það. Mig grunar að hátt hlutfall verðtryggðra lána komi þar við sögu. Einnig hlýtur óvissan sem ríkir í efnahagsmálum að eiga ríkan þátt í frosnum fasteignamarkaði.

Hagsmunaaðilar í fasteignabransanum hafa eins og venjulega reynt að berjast gegn markaðslögmálunum með því að kjafta upp verð á fasteignum.

Vonandi fer nú að koma að eðlilegri nafnverðslækkun fasteigna. Það verður sársaukafullt fyrir alla að horfast í augu staðreyndir en nauðsynlegt eigi að síður.


mbl.is Verðbólgan mælist 6,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Núllsýn á villigötum?

Fundur um umferðaröryggismál í Haukahúsinu í Hafnarfirði 11. janúar ályktaði á fundi að skora á stjórnvöld að ljúka framkvæmdum á næstu 12 mánuðum við vegrið á milli akbrauta á þeim 47,2 kílómetrum 2+2 vega á landinu sem en eru án slíks vegriðs. Þetta er birt á vef Umferðarráðs undir fyrirsögninni: Núllsýn FÍB og Umferðarráðs.

Þessi viðbrögð virðast vera vegna banaslyssins á Hafnarfjarðarvegi þar sem þrír létust fyrir áramót.

Ég get ekki að því gert að mér finnast þetta ekki rétt viðbrögð við þessu slysi. Hafnarfjarðarvegur er ekki alls staðar gerður fyrir þann umferðarhraða sem er leyfður á honum og það væri mun nærtækara að lækka umferðarhraðann úr 80 km/klst niður í 60 km/klst á þeim stað sem slysið varð á enda leyfir hönnun vegarins ekki meiri hraða. Það er einfaldlega ábyrgðarlaust af veghaldara og lögreglu að leyfa of háan ökuhraða. Takið eftir því fundurinn í Hafnarfirði óskaði ekki eftir lægri ökuhraða á Hafnarfjarðarveginum. Hvernig skyldi standa á því?

Í umferðaröryggis umræðunni virðast menn forðast að nefna orsakir fyrir slysum sem oftast liggur hjá bílstjórum. Bílstjórar bera mikla ábyrgð og þeim ber að haga akstri sínum eftir aðstæðum. Bílstjórar sem eru veikir, blindir, háaldraðir, ölvaðir, dópaðir eða syfjaðir eiga ekki að vera úti að keyra.

Undanfarin ár hefur verið rekin mikill áróður fyrir svo kölluðum 2+2 vegum. Nú kemur i ljós að þessir vegir eru bara alls ekki nógu öruggir. Það þarf að hafa vegrið á miðeyjunni milli gagnstæðra akreina alla leið því þessir vegir eru svo hættulegir! Kannski eru þeir hættulegir vegna þess að umferðarhraðinn er of mikill miðað við núllsýnina.

Ef menn ætla að leyfa háan ökuhraða fylgja því óhjákvæmilega banaslys. Banaslys og alvarlega slasað fólk er það gjald sem þarf að greiða fyrir háan ökuhraða í umferðinni. Núllsýn FÍB og Umferðarráðs er til komin vegna þess að þessir aðilar vilja ekki horfast í augu við hvað veldur flestum banaslysum og alvarlegum meiðslum í umferðinni, hár umferðarhraði.

Fyrst breið miðeyja skilar svona litlu er augljóst að best er að sleppa henni í hönnun nýrra vega. Þá er nóg að hafa bara vegrið milli gagnstæðra akreina. Við það sparast það land sem fer undir miðeyjuna og vegagerðin verður ekki eins dýr.

Núllsýn út í öfgar?

Það er svo annað mál að Núllsýnin getur ef hún er keyrð út í öfgar gert það að verkum að menn missi heildarsýn á viðfangsefnið.

Ef menn leyfa um 225.000 stálflykkjum á bilinu 1-2 tonn að geysast á miklum hraða um landið og bæina er hætt við því að einhver verði einhvern tíma fyrir stálflykki og slasist eða deyi. Núllsýnin getur ef illa tekst til orðið til þess að allt annað í samfélaginu verði aflokað og afgirt til að vernda það fyrir stálflykkjunum 225.000. Umferð stálflykkjanna yrði ekki takmörkuð heldur yrði ferðafrelsi þeirra sem ganga, hjóla eða taka strætó takmarkað.

Með öðrum orðum, fílunum verður hleypt lausum í postulínsbúðinni en aumingja postulínið verður allt innilokað og læst til að það verði ekki brotið af fílunum. 

Sumir myndu segja að við værum þegar komin hættulega langt á þessari braut. :(

 

 

 


Vænlegra að lækka ökuhraða?

Það væri einfaldara og ódýrara að lækka ökuhraða til að fækka slysum.

Þar sem banaslysið varð á Hafnarfjarðarvegi er vegurinn ekki gerður fyrir leyfðan ökuhraða. Til að draga úr slysahættu væri einfaldlega hægt að lækka ökuhraða þar niður í 60 km á klukkustund.

Ég legg til að umferðarhraði verði lækkaður frá því sem nú er til að fækka alvarlegum slysum. Til dæmis úr 90 í 80 eða 70 eftir aðstæðum og úr 80 niður í 70 eða 60 eftir aðstæðum.

Umræðan um 2+2 vegi hefur verið á þann veg að þeir séu miklu öruggari. Það er nokkuð til í því en núna virðist vera að koma í ljós að 2+2 dugar ekki til þrátt fyrir breiða miðeyju milli akreina í gagnstæða stefnu. Það þarf að reisa vegrið eftir endilöngum veginum þrátt fyrir miðeyjuna!

Ef á að byggja 2+2 vegi legg ég til að miðeyjunni verði sleppt víðast hvar ef vegrið er milli akreina enda er hún meira og minna óþörf með vegriðinu. Þannig væri vegagerðin ódýrari og vegurinn tæki minna pláss.

Einnig þarf að lagfæra núverandi vegi þannig að þeir séu í samræmi við núverandi veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Lagfæra þarf vegaxlir og öryggisvæði og hafa þær í fullri breidd með sléttu yfirborði. Það eru tiltölulega ódýrar og mannaflsfrekar framkvæmdir sem bæta öryggi veganna mikið og kæmu sér vel í kreppunni.


mbl.is Sameiginlegt markmið allra að fækka slysum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full Circle Magazine - Ubuntu tímarit

Nýtt hefti veftímaritsins Full Circle Magazine er komið út hérna, nr. 32.

Það er ókeypis tölvutímarit með áherslu á Ubuntu linux styrikerfið en hentar í sjálfu sér öllum Linux notendum.


Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Des. 2024

S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband