Mál Glaðheima í Kópavogi hefur nú aftur komist í hámæli í kjölfarið á sölu Kópavogs á landinu til tveggja fyrirtækja, Smáratorgs og Kaupangs. Þau kaupa samtals 9,6 ha. og greiða fyrir um 6,5 milljarða. Þetta land var í eigu Kópavogs en bærinn leysti til sín lóðarleigusamninga við hestamenn í Glaðheimum fyrir kosningar síðasta vor og greiddi þá tæplega 3,2 milljarða kr. sem mun vera fyrir hesthúsin á svæðinu. Að auki kostar bærinn flutning hesthúsasvæðisins og uppbyggingu nýrrar reiðaðstöðu og byggir nýtt áhaldahús bæjarins. Samtals á það að kosta tæplega 2 milljarða. Við þetta losna um 11,5 ha. af landi bæjarins en hluti fer undir vegi. Svæðið sem fyrirtækin kaupa er aukið með landi áhaldahúss bæjarins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kópavogur á við leigutaka á sínu landi og er fróðlegt að bera saman viðskipti bæjarins við þá undanfarið. Við Vatnsendahvarf átti bærinn við marga íbúa í einbýlishúsum sem höfðu lóðarleigusamninga við bæinn. Þar leysti bærinn til sín lóðarleigusamninga en samkomulag náðist ekki um eignarnámsbætur. Málið fór því fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Hún úrskurðaði að leigulandið á þessu svæði skyldi metið á um 4.000 kr./ m2 . Í landi Lundar í Fossvogsdal átti bærinn við afkomendur bóndans, sem hafði erfðafestusamning á landi Lundar en jörðin var í eigu bæjarins. Erfðafestan nær til reksturs landbúnaðarstarfsemi á jörðinni en landbúnaði var hætt og þarna reknar leiguíbúðir og húsakosturinn í niðurníðslu. Að frumkvæði fyrirtækisins Lundar ehf., sem mun tengjast afkomendum bóndans, gerði bærinn samning við fyrirtækið um uppbyggingu íbúðahverfis í Lundi. Lundur ehf. sér um gatnagerð og greiðir ¼ af gatnagerðargjöldum í bæjarsjóð og selur síðan íbúðirnar í almennri sölu á markaði.
Bera má saman fermetraverð í þessum viðskiptum bæjarins við leigutaka landsins. Fyrir lóðarleigusamninga í Vatnsendahvarfi mun bærinn borga um 4000 kr./m2. Fyrir heimild til að byggja íbúðir á landi bæjarins í Lundi mun bærinn fá um 4800 kr./m2 ef miðað er við að gatnagerðargjöld af meðalíbúð á svæðinu sé um 4 milljónir. Ef þau eru um 8 milljónir fær bærinn um 9.600 kr./m2. Fyrir land Glaðheima fær bærinn um 68.000 kr./m2!
Munurinn á þessu fermetraverði er sláandi og vekur mann til umhugsunar um hver græðir á þessum samningum. Í Vatnsendahvarfi er óhætt að segja að leigutakar ríði ekki feitum hesti frá viðskiptum sínum við bæinn. Í Lundi fá leigutakarnir afhenta eign bæjarins á silfurfati. Það sem þeir græða á hverri íbúð er munurinn á því sem þeir greiða á fermeter og markaðsverði á fermeter, sem samkvæmt samningum um Glaðheima gæti verið allt að 60.000 kr./m2. Uppreiknað gæti verðmæti eignar Kópavogs sem þeim var afhent numið 6 milljörðum króna. Að öllum líkindum er það þó ekki svo hátt og ræðst endanlega að markaðsaðstæðum þegar íbúðirnar eru seldar. Varlega áætlað hlýtur þetta þó að vera um 1-2,5 milljarðar kr. miðað við forsendur um 2-5 milljónir að meðaltali á íbúð. Hér hefði Kópavogur átt að leysa til sín leigusamninginn og vísa til Matsnefndar eignarnámsbóta. Byggingarlandið hefði síðan átt að úthluta hæstbjóðanda og hefðu þá þessir peningar runnið til bæjarins.
Við sölu Glaðheimalandsins fær bærinn 6,5 milljarða en þarf sjálfur að greiða um 5,2 milljarða. Mismunurinn 1,3 milljarðar er hagnaður bæjarins. Bærinn mun samt verða af umtalsverðum peningum því hann greiðir fyrir hesthúsin langt umfram matsverð húsakostsins og hvað það kostar að byggja sambærileg hesthús á nýjum stað. Þetta umframverð er hagnaður sem lendir í vösum eigenda hesthúsanna en ekki eiganda landsins. Þessir peningar gætu verið um eða yfir 1 milljarður króna. Meðal eiganda hesthúsanna eru lóðabraskararnir sem hleyptu málinu af stað í upphafi með uppkaupum á hesthúsum í hverfinu.
Hagsmuni hverra gætir meirihluti bæjarstjórnar? Eigandi landsins, Kópavogsbær og íbúar hans hafa borið skarðan hlut frá borði í viðskiptum með Lund og Glaðheima en bærinn hefur gætt hagsmuna sinna til hins ýtrasta við Vatnsendahvarf. Er meirihlutinn að gæta hagsmuni einhverra annarra en eigandans að landinu við Lund og Glaðheima? Eignarétturinn er heilagur og flokkarnir í meirihlutanum eru talsmenn eignaréttarins en samt meta þeir hann lítils þegar bærinn sjálfur á í hlut. Mér finnst sem meirihluti bæjarstjórnar hafi ekki gætt hagsmuna bæjarins og íbúa hans sem skyldi.
Það er óþolandi fyrir íbúa bæjarins þegar geðþótti ræður afgreiðslu mála og meðferð eigna bæjarins. Ef bærinn afhendir aðilum eignir sem eru mikils virði og geta orðið að miklum verðmætum er það lágmark að þeim sé úthlutað þannig að jafnræðis sé gætt eða að það sé gert að undangengu útboði þar sem hagstæðasta tilboði er tekið. Önnur vinnubrögð vekja grun um spillingu. Umboðssvik eru refsiverð. Mér finnst það geta verið athugandi hvort umboðssvik hafi verið framin þegar bærinn fær ekki sannvirði fyrir eignir sínar í landi eða greiðir óeðlilega hátt verð fyrir hesthús. Kópavogsbær er með þessu að gefa aðilum út í bæ um 2-4 milljarða af eigum sínum endurgjaldslaust.
Grein í Mogganum 10. febrúar 2007
Birtar blaðagreinar | 8.1.2009 | 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þann 13. febrúar síðast liðinn birtist grein í Fréttablaðinu um innflutning blaðbera frá Póllandi til að vinna við blaðaútburð fyrir Pósthúsið sem sér um dreifingu Fréttablaðsins. Í henni kom fram í viðtali við Einar Þorsteinsson framkvæmdastjóra að erfiðlega hafi gengið að fá Íslendinga til að sinna dreifingu og því hafi þeir auglýst eftir fólki á meginlandi Evrópu. Einar getur þess ekki að Fréttablaðið hefur ekki viljað gera kjarasamning við VR sem fulltrúa blaðbera. Því síður getur hann þess að kjör blaðbera Fréttablaðsins eru lakari en hjá, Morgunblaðinu. Kjarasamningurinn við blaðburðarbörn er settur einhliða af Fréttablaðinu.
Fréttablaðið getur ekki mannað stöður í öllum hverfum vegna lélegra launa blaðbera og á erfitt með að koma blaðinu í öll hús. Blaðburðarbörnin hafa reynt hvað þau geta að skipta um vinnuveitanda og hafa sótt um allar stöður hjá Morgunblaðinu. Á meðan eru tugir hverfa Fréttablaðsins án blaðbera. Staðan er að íslenskur vinnuveitandi vill ekki gera sanngjarnan kjarasamning og fær af þeim sökum ekki innlent starfsfólk. Starfsfólkið greiðir atkvæði um kjörin með fótunum og flýr þennan vinnuveitanda. Í staðinn ætlar þessi ósvífni vinnuveitandi að flytja inn erlent starfsfólk. Hver eru kjör þess fólks?
Þrátt fyrir komu pólverjana gengur dreifing Fréttablaðsins ekki sem skyldi og má telja langlundargeð auglýsenda furðulegt. Skýringanna er kannski að leita í því að megnið af auglýsingunum koma frá öðrum fyrirtækjum í eigu auðhringsins sem á Fréttablaðið. Ég er faðir blaðburðarbarns og geri þá sanngjörnu kröfu til Fréttablaðsins að það geri alvöru kjarasamning við fulltrúa blaðbera. Ef hann er á sömu nótum og kjarasamingur Moggans við VR mun Fréttablaðið ekki eiga í neinum vandræðum með að ráða innlent starfsfólk sem blaðbera í öll hverfi.
Grein í Fréttablaðinu 2006
Birtar blaðagreinar | 8.1.2009 | 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bílastæðavandi?
Nýlega var rætt við yfirmann á Landspítalanum um erfiðleika við að fá bílastæði við spítalann. Þetta þekkja allir sem komið hafa á spítalann á bíl og er augljóst óhagræði fyrir sjúklinga sem eiga erfitt um gang. Í máli yfirmannsins kom fram að þetta stæði nú allt til bóta eftir færslu Hringbrautar því þá væri hægt að byggja enn þá fleiri bílastæði en nú eru! En er það eina lausnin sem kemur til greina?
Undanfarin ár hafa tveir stærstu vinnustaðir landsins, Háskóli Íslands og Landspítalinn, verið í aðhaldi hjá eiganda sínum, ríkinu. Vegna þess geta þeir ekki haldið í við aukna eftirspurn eftir þjónustu frá sjúklingum og nemendum. Stjórnendur þeirra hafa reynt að grípa í taumana með aðhaldsaðgerðum og hefur aukin gjaldataka á sjúklinga og skólagjöld á nemendur komið til álita. Ég ætla ekki að fjalla um þessi fjárhagsvændræði sem slík. Mig langar hinsvegar til að varpa fram þeirri spurningu hvort það sé eðlilegt að svona stofnanir reki ókeypis bílastæði fyrir starfsfólk og þá sem njóta þjónustu þeirra? Er það ekki hlutverk þeirra fyrst og fremst að veita þá þjónustu sem þeim er falið, menntun og heilbrigðisþjónustu? Eru frí bílastæði hluti af þeirri þjónustu?
Kostnaður við bílastæði.
Gerð bílastæða, rekstur þeirra og landið sem fer undir stæðin kosta peninga. Í miðborginni þar sem þessar stofnanir eru er land sérstaklega dýrt. Samtökin sem lögðust gegn færslu Hringbrautar hafa metið verðmæti landsins sem fara undir brautina á um 6 milljarða. Ég hef engar tölur um verðgildi landsins undir bílastæðunum en víst er að það er ekki ókeypis. Bílastæði við þessar stofnanir eru í eðli sínu takmörkuð gæði. Ef eftirspurninni er ekki stýrt er hætt við að framboðið dugi aldrei til nema með því að leggja meginhluta byggingarlandsins undir bílastæði eða að byggja dýr bílastæðahús. Jafnvel eftir slíkt átak er en óleystur sá vandi að starfsfólk sem mætir fyrst á morgnana leggur í stæðin næst húsunum en sjúklingar og fatlaðir verða að gera sér að góðu stæði langt í burtu. Er þá skynsamlegt fyrir stofnanirnar að auka framboðið og leggja en meiri kostnað í bílastæði af takmörkuðu fjármagni sínu? Er ekki skynsamlegra að taka upp stýringu á þessum takmörkuðu gæðum og láta þá sem nota stæðin greiða fyrir þau og ná þannig jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar?
Gjaldtaka og aðrar aðgerðir.
Ef vel ætti að vera ætti gjaldtaka fyrir bílastæði að standa undir gerð, rekstri, viðhaldi og kostnaði við landið undir stæðunum. Þá bæru stofnanirnar engan kostnað af rekstri bílastæðana af takmörkuðu fjármagni sem ríkið skammtar þeim. Einnig ætti að grípa til annarra ráðstafana til að draga úr eftirspurn s.s. með skipulagningu almenningssamgangna og göngu- og hjólastíga. Einnig ætti að vera fjárhagslegur hvati fyrir starfsmenn eins og hlunnindi greidd sem afsláttar kjör á reiðhjólum og afsláttur á fargjöldum með strætó. Slíkar hlunnindagreiðslur mundu nýtast öllu starfsfólki en ekki mest þeim sem best hafa kjörin eins og hlunnindagreiðslur með einkabílum starfsmanna í dag.
Fyrirkomulag gjaldtöku.
Fyrirkomulag gjaldtöku getur verið ýmiskonar. Starfsmenn og nemendur gætu greitt mánaðargjald inn á ákveðinn stæði. Upphæð gjaldsins gæti verið á bilinu 2-5000 kr. Gestir og sjúklingar gætu greitt tímagjald eins og tíðkast í bílastæðahúsum. Einnig mætti hafa kerfi með gjaldfrí stæði með tímamörkum á stöðu svipað og menn þekkja frá Danmörku þar sem notaðar eru tímaskífur. Húsverðir þyrftu að hafa vald til að skrifa út sektir á bíla sem brytu gegn stöðureglum. Bílar, sem ekki hafa mánaðarkort eða tímaskífur, eru komnir fram yfir í tíma, standa á gangstéttum eða utan bílastæða yrðu sektaðir umsvifalaust. Í gjaldfríum stæðum mundu skussarnir greiða fyrir rekstur stæðana með sektum.
Gjaldtaka er sanngjörn.
Það að sífellt þurfi að leggja meira land undir bílastæði í samfélaginu er ekki náttúrulögmál. Það eru til aðrar betri lausnir sem allir græða á. Með því að hafa sanngjarna gjaldtöku á bílastæðum er tryggt að:
- Framboð á stæðum er nægjanlegt þar sem þörf er á og fyrir þá sem á þurfa að halda.
- Komið í veg fyrir að stærstur hluti landnotkunar verði fyrir bílastæði.
- Skapaður möguleiki á aðlaðandi umhverfi með bættum útivistarmöguleikum og styttri vegalengdum milli staða.
- Þeir borgi sem kostnaðinum valda.
Grein í Mogganum 5. apríl 2005
Birtar blaðagreinar | 8.1.2009 | 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í DAG, sunnudaginn 22. september, verður haldinn bíllaus dagur í Evrópu í 4. sinn. Í ár munu um 1.323 sveitarfélög í álfunni taka þátt. Vikuna þar á undan, 16. til 22. september, er efnt til sérstakrar samgönguviku. Fjögur sveitarfélög á landinu standa fyrir dagskrá á bíllausa deginum eða í samgönguvikunni. Þessi sveitarfélög eru Mýrdalur, Hafnarfjörður, Akranes og Hveragerði og eiga þau hrós skilið fyrir framtakið. Mörg sveitarfélög hafa nú samþykkt staðardagskrá 21 og ættu þau að mínum dómi að standa fyrir bíllausum degi. Bíllausa deginum er ekki sérstaklega beint gegn einkabílnum sem slíkum. Honum er ætlað að vekja menn til vitundar um að einkabíllinn er ekki eini valkostur fólks í ferðum milli staða og að ef til vill skipar hann of ríkan sess í samfélaginu.
Þótt sveitarfélög landsins standi sig ekki sem skyldi getur almenningur samt gert 22. september að bíllausum degi. Hver og einn getur litið i eigin barm. Menn geta spurt sig spurningar eins og: ,,Hef ég ferðast allra minna ferða í bíl síðastliðið ár? ,,Hef ég gert það frá 17 ára aldri? Hefur meðfylgjandi hreyfingarleysi áhrif á heilsu og líðan? Hreyfing úr og í vinnu og skóla eða annað er einfaldasta leiðin til að fá nauðsynlega daglega hreyfingu.
Bíllausi dagurinn er fyrst og fremst tækifæri til að prófa aðra valkosti. Þessi viðburður er til að ýta við fólki og losna úr viðjum vanans. Það er um að gera að vera jákvæður því of oft sökkvum við Íslendingar í það fen að finna afsakanir fyrir atferli okkar. Útkoman verður oftar en ekki undarleg hringrök. Það er ekki hægt að hjóla vegna þess að það vantar hjólreiðastíga. - Það er ekki hægt að leggja stíga vegna þess að enginn hjólar! Það er ekki hægt að taka strætó því leiðakerfið er svo lélegt. - Leiðakerfið er svo lélegt vegna þess að enginn tekur strætó! Það er ekki hægt að ganga vegna þess að veðrið er svo vont. - Veðrið er svo vont vegna þess að enginn gengur!
Þetta snýst fyrst og fremst um hugarfar og vana. Gera þarf ráð fyrir tíma og auðvitað þarf að klæða af sér veður með fötum en ekki bílum og hugsa fyrir leiðum og tímatöflum ef farið er í strætó. Það þarf að yfirstíga smá hjalla áður en breyttur ferðamáti kemst upp í vana. Eftir það er þetta ekki erfiðara en að skafa rúðuna á morgnana og aka af stað. Í mörgum tilvikum held ég að það komi á óvart hvað aðrir ferðamátar er auðveldir og fljótlegir. Sem dæmi má nefna, að það tekur ekki nema 20 mín. að hjóla úr Kópavogi og niður í miðbæ um 5 km leið en tekur um 10-15 mín. Í bíl á annatíma. Þá er ekki reiknað með tímanum sem tekur að leggja bílnum. Að taka strætó milli Kópavogs og Mosfellsbæjar tekur ekki nema 40-45 mín. um 15 km leið en tekur um 20-25 mín. í bíl á morgnana. Þegar vegalengdir eru styttri munar minna á bíl og öðrum valkostum.
Ég hvet alla til að nota þetta tækifæri til að velja aðra ferðakosti heldur en einkabílinn. Nú í ár ber bíllausa daginn upp á sunnudegi en það ætti ekki að hindra einstaklinga og fjölskyldur frá því að njóta dagsins. Fyrst ekki er verið að spana neitt eins og virka daga má einfaldlega bregða sér í gönguferð eða fara strætóandi eða hjólandi í bæinn eða í næstu kringlu.
Grein í Mogganum 22. september 2002
Birtar blaðagreinar | 8.1.2009 | 22:13 (breytt kl. 22:21) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dómsmálaráðherra páfagarðs notaði orðið Concentration camp" sem nær væri að þýða sem fangabúðir eða einangrunarbúðir. Gasa svæðinu er réttilega lýst sem risastórum fangabúðum fyrir Palestínumenn.
Hugtakið Concentration camp" var fyrst notað af Bretum í búastríðinu yfir fangabúðir sem þeir settu upp til að einangra íbúa Búahéraðanna frá skæruliðum Búa til að þeir nytu ekki stuðnings íbúana. Bretar brenndu og eyðilögðu bæi og ræktarland og ráku íbúana saman í þessar fangabúðir þar sem þeir bjuggu við illan kost og dóu umvörpum úr hungri, sjúkdómum og vosbúð. Fleiri herir hafa þó rekið slíkar fangabúðir til að geyma óbreytta borgara bæði fyrr og síðar þó hugtakið hafi fyrst verið notað þarna. Útrýmingarbúðir eru frekar það sem á ensku heitir Extermination camp" og hefur einungis verið rekið af nasistum í Þýskalandi. Það er þó skilgreiningaratriði hvenær staður eða búðir þar sem fjöldamorð og útrýming hópa fer fram eru kallaðar útrýmingarbúðir.
Hernað Ísraelsstjórnar á Gasa má best skilja sem kosningabragð fyrir komandi þingkosningar til að bæta stöðu núverandi stjórnarflokka í augum sumra ísraelskra kjósenda. Ísraelsstjórn veit vel að þeir geta ekki brotið Hamas á bak aftur né stöðvað eldflaugaskothríð Hamas eða annarra samtaka nema skamma stund. Stjórnmálamönnunum er sama Þótt um 1000 manns láti lífið og mörg þúsund særist í þessum aðgerðum þeirra og þótt stór hluti þeirra sé óbreyttir borgarar og börn.
Okkar stjórnmálamenn eru sumir eins. Gleymum því ekki að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddson ætluðu að láta íraskan almenning greiða með blóði sínu fyrir áframhaldandi veru bandaríska hersins á Íslandi þegar þeir gerðust þátttakendur í hinni ólöglegu innrás í Írak.
![]() |
Allsherjar útrýmingarbúðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg um fréttir | 8.1.2009 | 19:40 (breytt 10.1.2009 kl. 00:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Birtar blaðagreinar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Blogg um fréttir
- Dægurmál
- Ferðalög
- Fjármál
- Heilbrigðismál
- Hjólreiðar
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Óbirtar blaðagreinar
- Samgöngur
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- September 2024
- Maí 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2020
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Nóvember 2017
- Maí 2017
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Júlí 2015
- Október 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Apríl 2014
- Janúar 2014
- Nóvember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Mars 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- September 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
Tenglar
Hjólreiðar
- Landsamtök hjólreiðamanna
- Íslenski fjallahjólaklúbburinn Samtök hjólreiðamanna með ferðalög og samgöngur
- Bikeability UK Hjólafærni verkefnið á Bretlandi
- Cyclecraft Heimasíða John Franklin höfund bókarinnar Cyclecraft
- Lifecycle UK Lifecycle, bresk samtök sem kenna hjólafærni
- Tímaritið Momentum Samgöngu hjólreiðar og hjólamenning í Bandaríkjunum og Kanada
- Tímaritið Velovison Eitt skemmtilegasta hjólatímaritið, mikið með liggjandi hjól
- Laid back bikes í Edinborg Fyrirtæki sem býður ferðir á liggjandi hjólum í Edinborg í Skotlandi
Blogg um hjólreiðar
- Dashjol - Davíð A. Stefánsson Framvinda landfræðilegrar rannsóknar á hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu
- Bjarney Halldórsdóttir Hjólað í Reykjavík
- Hjólaðu maður! Blogg um hjólreiðar að norðan
- Hjóladagbók Bjössa 2009/2010 Hjólaleiðir, myndir, ferðatími og veður
- Íslendingur í Kanada Halldór Gunnarsson "a bike nut from Iceland"
- Copenhagenize Blogg um hjólreiðar í Köben og allan heim
- Copenhagen Cycle Chic Tíska og hjól í Köben
- Chic Cyclist blog "Gellu" hjólreiðar
- Sænsk hjólablogg Yfirlit yfir sænsk hjólablogg
- Malmö - Lund på cykel Marcus doktorsnemi á Skáni bloggar um hjólreiðar
- Karringcykelbloggen Blogg um hjólreiðar í suður Svíþjóð - karring = kelling
- Cycleville Stockholm Bloggað frá Stokkhólmi um hjólreiðar
- Skoti í New York
Viðgerðir á hjólum
- Bicycletutor Myndbönd sem sýna viðgerðir á hjólum
- Park verkfæri Park verkfæri, með sýnikennslu í viðgerðum
- Sheldon Brown Útskýringar á nánast öllu varðandi viðgerðir á hjólum
Ferðir á hjólum
- Crazyguyonabike: Bicycle Touring Safn af ferðafrásögnum, hér má skrá eigin ferðasögu