Mæðgur á leið í vinnuna

Það er til fyrirmyndar þegar fjölmiðlar flytja okkur sögur af daglegu lífi fólks, sem allajafna fer ekki hátt í opinberri umræðu. Fjölmiðlar velja venjulega sama fólkið sí og æ til að tjá sig. Fólk sem er “viðurkennt” og hefur leyfi til að tjá sig um viðkomandi málefni í fjölmiðlum. Ég vil hvetja fjölmiðla til að gera meira af þessu og flytja okkur fréttir af aðstæðum fólks af öllum stéttum.

Morgunblaðið flytur slíka frétt á opnu sinni þann 27. mars, sem varpar ljósi á samgönguvandann á höfuðborgarsvæðinu. Þar er lýst dæmigerðri daglegri ferð mæðgna til og frá vinnu á bíl. Þær eiga heima í Áslandshverfinu í Hafnarfirði en vinna í Verslunarskólanum og á Suðurlandsbraut. Þær eyða talsverðum tíma í ferðir til og frá vinnu líkt og margir úthverfabúar í þessu L.A., sem hefur verið skapað á höfuðborgarsvæðinu. Þær leggja af stað kl. 7:20 og eru gjarnarn 35-45 min á leiðinni í vinnuna á sínum einkabíl. Á leiðinni eru umferðartafir á hringtorgum og gatnamótum og ef færð er slæm eða árekstrar á leiðinni tekur þetta allt lengri tíma. Greinilegt er að mæðgurnar fá þarna ágætis samveru og veitir svo sem ekki af þegar kynslóðirnar lifa meira og minna aðskildar. Gallin er, að þetta tekur tíma, er stressandi, kostar mikið í rekstri á bíl og rýrir umhverfi okkar allra. Þessu fylgir slysahætta, loftmengun, hávaði og hreyfingarleysi.

Í þessu sambandi langar mig að benda þeim mæðgum á að gerast vinir einkabílsins og taka strætó! Ef slegið er inn í Ráðgjafa, leitarvél Strætó b.s. á vefnum www.bus.is, kemur í ljós að ferðin úr Áslandshverfinu með strætó í Verslunarskólann tekur um 33 min. Þá er miðað við ferð kl. 7:37 frá Vörðutorgi í Áslandi með vagni nr. 22, skipt í vagn nr. 1 í Firði kl. 7:46 og farið úr honum á Kringlumýrabraut kl. 8:05 við Kringluna og gengið í Verslunarskólann. Ef farið er á Suðurlandsbraut er sama leið farin en skipt úr vagni nr. 1 í vagn nr. 2 í Hamraborg kl. 8:00 og komið á Suðurlandsbraut um kl. 8:10. Þess má geta að skiptingin í Hamraborg kemur ekki upp í Ráðgjafanum enda er hann ekki alveg 100% þótt hann gefi góðar vísbendingar.

Ferðalag þeirra mæðgna í strætó mundi að öllu jöfnu ekki taka lengri tíma á annatíma en ferðalag í bíl og yrði ódýrara fyrir þær yfir árið með “skólakorti” Strætó. Fyrir þær tvær kostar skólakortið: 2 * 27.900 kr = 55.800 kr á ári. Ferðalag í bíl árið um kring kostar miðað við eftirtaldar forsendur u.þ.b.: 13 km * 60 kr/km * 200 dagar = 156.000 kr. á ári. Þær gætu sem sagt sparað sér 100.000 kall yfir árið. Þær myndu líka sleppa við aftanákeyrslurnar og gætu gluggað í blöðin eða skólabækurnar á leiðinni heim en spjallað saman á leiðinni í bæinn.

Í opnunni er einnig lýst núverandi og fyrirhuguðum framkvæmdum við umferðarmannvirki á leið þeirra mæðgna sem eiga að leysa úr teppunni. Því miður mun það ekki stytta ferðatíma þeirra nema tímabundið því það er við því að búast að með meiri byggð í úthverfunum verði þetta ástand viðvarandi í fyrirsjáanlegri framtíð. Að bæta við umferðarmannvirkin endalaust er einfaldlega eins og að pissa í vettlingin þegar manni er kalt á höndunum. Það er skammgóður vermir. Ef flestir vilja búa í einbýlishúsi í úthverfi og aka langa leið í einkabíl á vinnustað og í matvörubúðina verður til samfélag sem fáum finnst áhugavert að búa í sbr. lýsingin á ferð mæðgnanna. Getum við en snúið við blaðinu hjá okkur?

Grein í Mogganum 5. apríl 2007


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband