Hjólað í vinnuna - með og mótvindur

Ég hjólaði í vinnuna í morgun í mótvindi og var um 55 mín. á leiðinni, meðalhraði var 18.1 km/klst og hámarkshraði 36.8 km.  Áttin hélst allan daginn þannig að á leiðinni heim var meðvindur. Heimferðin tók um 34 mín., meðalhraði var 28.9 km/klst og hámarkshraði 58.9 km. Þetta er nærri því að vera met hjá mér á heimleiðinni. Hjóluð var sama leið fram og tilbaka hér um bil. Leiðin heim var Mosfellsbær-Vesturlandsvegur-Höfðabakki-Smiðjuvegur-Nýbýlavegur-Kársnes en á leiðinni í vinnuna hjólaði ég Álfhólsveginn í staðinn fyrir Nýbýlaveginn.

Að meðaltali er maður jafn oft með meðvind og mótvind þannig að  það jafnar sig út. Þetta verður hinsvegar frekar strembið í miklum mótvindi þegar komið er út í auðnirnar í úthverfunum.

Við gætum verið búin að skapa skjólsælt umhverfi fyrir mörgum áratugum, ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hefðu haft nægilega framsýni, og ræktað tré á auðum svæðum í þéttbýlinu. Þess í stað var ræktaður skógur uppi á heiðum þar sem enginn býr eða ferðast til og frá vinnu. Það er auðvitað ekki of seint að rækta tré til að skapa skjól í þéttbýlinu en því miður virðist ekki vera unnið skipulega að því hjá sveitarfélögunum. Nema kannski hjá Mosfellsbæ þar sem mikið hefur verið gróðursett af trjám á auðum svæðum í bænum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú segir: "Að meðaltali er maður jafn oft með meðvind og mótvind þannig að það jafnar sig út."

Það er ágætt að trúa þessu. En í rauninni er það þannig að loftmótstaða vex með vindhraða í öðru veldi. Því "tapar" maður alltaf á því að hjóla í vindi miðað við að hjóla í logni, þó að maður fari fram og til baka í sömu vindátt.

T.d. er meðalhraði þinn í gær c.a. 22,2 km/klst og meðalferðatími 44,5 mín. Ég myndi giska á að það þætti ekkert spes á góðum degi, eða hvað?

Varðandi trjágróðurinn er ég algjörlega sammála þér. Það er mikill skortur af trjágróðri (og runnum), sérstaklega í nýjum hverfum (skiljanlega segja sumir).  Mér hefur líka fundist að tré og runnar veiti mikið meira skjól en sléttmúraðir kassar (lesist: hús) sem þjappa bara vindinum saman í vindstrengi.  

Jens Gíslason (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 15:12

2 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Það þarf ekki hávaxinn gróður til að skapa skjól, runnar henta vel, t.d. eru margar víðitegundir mjög fljótar að vaxa og komnar í 2-3 metra hæð á 2 árum.  Ætti ekki að kosta nein ósköp, er til prýði, sérstaklega ef litríkum runnum, svo sem rósum eða muru er plantað með.  Gleður augað og skapar skjól fyrir hjólandi og gangandi umferð.

Þó að það sé auðveldara að hjóla í logni, þá fær maður svo mikið kikk við að hjóla á góðum hraða í stífum meðvind, það vegur upp á móti puðinu á móti vindi. 

Hjóla-Hrönn, 26.11.2009 kl. 18:25

3 Smámynd: Árni Davíðsson

Sæll Jens, reyndar er ég oft með svipaðan tíma og meðalhraða á þessari leið og þú reiknaðir. En þetta er breytilegt auðvitað og ég fer ekki alltaf nákvæmlega sömu leið og það eru brekkur á leiðinni og sjaldnast er alveg logn. Á sumrin er stundum mótvindur báðar leiðir því þótt austan átt sé ríkjandi tekur hafgolan oft völdin síðdegis á góðviðrisdögum. Þegar er vont veður tek ég líka oftast strætó uppeftir á morgnanna og kem þar með ferskur og sprækur enda engin sturta í vinnunni.

Ég hef aldri skilið af hverju er ekki löngu búið að trjávæða þessi auðu og óbyggðu svæði og þá sérstaklega auðnirnar í kringum stofnbrautirnar. Hvað er þetta með íslendinga og risastórar umferðareyjar. Eru umferðarmannvirki eitthvað fyrir augað? Og þó ég skilji að menn vilji hafa eitthvað útsýni finnst mér óþarfi að útsýnið sé allstaðar til allra átta.

Það er rétt að trjágróðurinn getur verið fjölbreyttur. Vegna þess að þetta er á berangri borgar sig að byrja með fljótsprottnar tegundir sem mynda skjól og láta seinvaxnari og viðkvæmari tegundir vaxa upp í skjólinu. Síðan má einfaldlega höggva þau tré sem verða of fyrirferðarmikil með tímanum.

Árni Davíðsson, 27.11.2009 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Árni Davíðsson
Árni Davíðsson
Höfundur er líffræðingur og kennari í hjólafærni. Allar skoðanir höfundar eru hans eigin og skal ekki yfirfæra á aðra einstaklinga eða samtök. Tölvupóstur: arnid65@gmail.com

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • HI deiliskipulag
  • Akureyri 10 min kort
  • cars
  • Hagatorg
  • Ellidaarborg

Nýjustu myndböndin

Frá Birkimel á Eiðistorg

Frá Nesveg í Kópavog

Frá Suðurlandsbraut á Birkimel

Frá Eiðistorgi á Laugaveg

Kársnes Höfðabakkabrú Mosfellsbær

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband