Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
1. mynd. Leiðin liggur úr Þverholti í Mosfellsbæ eftir Vesturlandsvegi niður á Bíldshöfða. Þaðan er farið inn á Fossvogsstíginn upp á Nýbýlaveg og út á Kársnes.
Á hjóla og göngustígakorti Reykjavíkur / Höfuðborgarsvæðisins er sýndur malarstígur austan við Vesturlandsveg. Að mínu áliti er ekki hægt að mæla með honum til almennra hjólreiða. Þetta er fjallahjólastígur sem er venjulega laus í sér og skorin af utanvega mótorhjólum. Það þarf að fara hann varlega og maður fer hægt yfir.
Leiðin sem ég lýsi hér er því á Vesturlandsveginum og á vegöxlum hans.
2. mynd. Frá Kjarna að Þverholti 2 í Mosfellsbæ er hjólað eftir stíg upp frá nýja torginu þar sem gamli hitaveitustokkurinn lá áður ofanjarðar. Þessi leið sýnir hvernig þægilegur útivistarstígur gæti litið út ef hann mundi ná alla leið til Reykjavíkur. Hann er frekar skýldur af húsum og gróðri og ánægjuleg byrjun á ferðinni.
Af honum er beygt út í Langatanga framhjá OLIS stöðinni og farið í fyrsta hringtorgið á leiðinni til Reykjavíkur við fjallið Lágafell.
Ég hjóla gjarnan rétt innan við hvítu linuna í brún vegarins. Ef vegöxlin er með góðu yfirborði, nægilega breið og ekki þakin sandi eða öðru hjóla ég á henni. Vegöxlin er misbreið á leiðinni í bæinn og yfirborðið er misgróft. Víðast hvar er hún ekki mjög þægileg til hjólreiða vegna þess að yfirborðið er gróft og sprungið. Auðvelt ætti að vera að hafa vegöxl með staðlaðri breidd og með góðu yfirborði því plássið er nægjanlegt til hliðanna. Því miður hefur Vegagerðin ekki hugað nægilega vel að þessu.
3. mynd er tekin í átt að Úlfarsfelli við Hulduhóla og sýnir góða vegöxl sem er að vísu ekki alveg nægjanlega breið. Í grennd við fellin í Mosfellsbæ getur verið sviptivindasamt og er gott að hafa það í huga þegar hjólað er á þessum slóðum. Sviptivindarnir eru hlémegin við fellin, þ.e. mest í austlægum áttum. Sog frá bílum getur líka verið varasamt í miklum vindi en sogið kemur hlé megin við bílana. Ef það er austlæg átt og vindhraðinn komin upp í tveggja stafa tölu t.d. á Korpu er líklegt að vindhviður séu orðnar óþægilegar á þessum slóðum.
4. myndin er tekin við hringtorg við skógræktina í Hamrahlíð. Til að hjóla á Vesturlandsvegi þurfa menn að ná tökum á að hjóla í gegnum hringtorg sem eru fjögur á þessari leið. Hringtorg eru mjög örugg gatnamót en því miður fara margir bílstjórar of hratt í gegnum hringtorgin. Ef menn eru óöruggir í hringtorgum bendi ég mönnum á að æfa sig með einhverjum sem kann að hjóla í gegnum þau, t.d. þjálfuðum hjólafærnikennara.
Taka þarf sér ríkjandi stöðu á akrein þegar farið er í gegnum hringtorg. Mér finnst best á Vesturlandsveginum að vera á ytri akrein því mest öll umferðin er að fara beint áfram í gegnum hringtorgið, fáir koma á móti og fara út í þriðja útafakstri, sem mundi skera leið hjólreiðamanns í gegnum hringtorgið. Ég gæti þá að bilum fyrir aftan (gott að hafa spegill) og þegar hentugt bil er á milli bíla tek ég mér ríkjandi stöðu á ytri akrein, gæti að umferð í hringtorginu og held beint í gegnum hringtorgið stystu leið innan ytri akreinar. Þegar ég beygi útaf held ég ríkjandi stöðu nægilega lengi til að vera ekki klemmdur af bíl við hlíðina og færi mig svo út kant og þá komast bílarnir fram úr.
5. mynd er tekin við afrein að Korputorgi. Afreinar eru miserfiðar eftir magni umferðar, lengd afreinar og fjölda akreina á afrein. Gott getur verið að fylgja vegbrún inn á afrein ef umferð er mikil eða afrein löng. Síðan er sveigt yfir afreinina út á akbrautina þegar komið er að enda afreinar. Eins og alltaf er nauðsynlegt að líta vel aftur fyrir sig áður en beygt er yfir akrein.
6. mynd er við aðrein frá Grafarholti. Það er eins með aðreinar og afreinar, nauðsynlegt getur verið að sveigja yfir aðrein og halda sig við vegbrún hennar og sveigja síðan aftur yfir þegar henni lýkur. Ég fylgi eiginlega öllum af- og aðreinum á Vesturlandsvegi því umferðin er hröð og þessar reinar eru langar. Takið eftir því að vegöxlin hverfur hér þegar kemur að aðreininni. Þetta er hönnunargalli því betra væri að halda vegöxlinni áfram.
7. mynd er við brúna þar sem Suðurlandsvegur tengist Vesturlandsvegi. Við af- og aðreinarnar þar halda vegaxlirnar sér og er það miklu betra.
8. mynd er tekin við afrein upp á Höfðabakkabrú. Hún er tvær akreinar með frekar þéttri umferð og það vantar algjörlega bundið slitlag á vegöxl. Þarna þarf að fara varlega yfir akreinarnar. Stoppa ef bílar eru og meta fjarlægð og hvort bílar ætli upp afreinarnar eða áfram vestur úr.
9. mynd er undir Höfðabakkabrú. Á kaflanum frá Viðarhöfða og að aðreinum frá Höfðabakka hinum megin við brúna eru vegaxlir mjög lélegar og vantar bundið slitlag. Varast þarf háa akbrautarbrún og drullu, krap og frosin hjólför eftir aðstæðum. Ég reyni sem mest að vera uppi á veginum þarna.
Handan við brúna koma tvær aðreinar niður á veginn. Þar er hægt að komast auðvedlega yfir með því að hinkra eftir umferðarljósunum uppi á brúnni.
10. mynd er tekin af gatnamótum afreinar við Bildshöfða. Þarna tek ég leiðina útaf Vesturlandsvegi. Stundum fer ég útaf áður en ég kem að Suðurlandsvegi, inn á Stórhöfða og fylgi honum allt að Breiðhöfða og þaðan inn á Bildshöfða. (Hef ekki en fundið Svarthöfða!)
11. mynd á fleygiferð niður Bildshöfða. Varast þarf útkeyrslur. Best að vera í ríkjandi stöðu niður brekkuna.
12. mynd. Stokkurinn yfir Elliðaárnar. Á þessum slóðum fer maður að sjá lifandi fólk sem er kærkomin tilbreyting.
13. mynd. Fossvogsstígur. Svo það gleymist ekki. Nauðsynlegt er að hafa góð ljós á hjólinu í skammdeginu bæði að framan og aftan til að bílstjórarnir sjái mann. Til að hjóla af öryggi í myrki um myrkvaða stíga þurfa ljósin að vera það góð að maður sjái vel fram á stíginn. Ef ljósin eru ekki nógu góð þarf að fara hægar yfir og sýna fyllstu varkárni. Einn af kostunum við Vesturlandsveginn er að hann er vel upplýstur.
14. mynd. Gatnamót Furugrundar og Nýbýlavegar. Ég beygi af stígnum við Fossvogsskóla inn í Kópavog og kem upp hjá Furugrund. Þaðan liggur leiðin eftir Nýbýlavegi í vestur. Nýbýlavegur er nægjanlega breiður til að hjóla hann í víkjandi stöðu. Þegar komið er að gatnamótum tekur maður upp ríkjandi stöðu.
15. mynd. Komið að hringtorginu á gatnamótum Auðbrekku og Nýbýlavegar hjá Lundi. Hér tek ég upp ríkjandi stöðu á innri akrein því mest af umferðinni vill vera á hægri akrein og beygja til hægri til Reykjavíkur í þar næsta hringtorgi.
Stóran hluta ársins er maður með sólina í augunum á morgnanna og kvöldin. Því er mjög gott að hafa skyggni á hjálminum eða derhúfu. Ef menn mega missa kúlið er betra að sleppa sólgleraugum því það er auðveldara að ná augnsambandi við bílstjóra án þeirra.
16. mynd. Gatnamót Sæbólsbrautar og Kársnesbrautar. Hér held ég mér í ríkjandi stöðu í röðinni á ljósunum frekar en að reyna að taka framúr. Margir bílar taka hægri beygjuna hérna og væri það bara til trafala að reyna að komast áfram. Afgangi leiðarinnar heim er lýst í: Kársnes-Grensás-Strætó.
Að hjóla þessa leið tekur venjulega um 40-45 min. Hraðast hef ég farið á um 35 min í meðvindi en hægast að vetrarlagi í þungri færð á um 60-70 min.
Þessi ferð:
Klukkan: 17:30
Vegalengd: 15,67 km
Meðalhraði: 18,57 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 50:41 mínútur
Hámarkshraði: 35,1 km/klst
Hjólreiðar | 24.4.2009 | 22:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leiðin liggur frá Kársnesi að Grensás þar sem strætó er tekin upp í Mosfellsbæ.
Vallargerði er einstefnugata og mjög þægilegt að hjóla hana á móti umferð, sem er því miður ólöglegt.
Í mörgum nágrannalöndum er leyfilegt að hjóla á móti einstefnu. Umferð á móti sést vel. Varast þarf bíla sem koma út úr innkeyrslum en það er ekki vandamál þar sem hjólreiðamaður sér vel yfir og heyrir í bílum sem eru að fara af stað.
Urðarbraut er sambland af tengibraut og húsagötu og er með 30 km hámarkshraða. Nauðsynlegt er að taka sér ríkjandi stöðu á akrein þegar komið er að gatnamótum.
Ríkjandi staða er um miðja akrein eða rétt til hægri við miðju. Hjólreiðamaður tekur sér ríkjandi stöðu til að hindra fram úr akstur þar sem slíkt mundi skapa hættu fyrir hjólreiðamanninn.
Víkjandi staða er um 50-100 cm frá akbrautarbrún, eftir aðstæðum á viðkomandi götu. Gjarnan í eða rétt utan við hægra hjólfar, innan við sand, glerbrot og niðurföll við brún akbrautar. Í víkjandi stöðu geta bílar tekið framúr hjólreiðamanni.
Hér er hraðahindrun á Urðarbraut með gangbraut. Taka þarf sér ríkjandi stöðu á akrein þegar farið er í gegnum þrengingar. Ekki er gott að hafa bíl við hliðina á sér í þrengingu!
Kársnesbraut er 50 km safn/tengibraut með mikið af útkeyrslum frá húsum. Gatan er vel breið og fáir bílar leggja við vegbrúnina. Umferð er líka enn þá frekar hófleg. Það er mjög auðvelt og þægilegt að hjóla hana og að mínu áliti öruggara en að reyna að fikra sig eftir gangstéttinni þar sem útsýni er mun takmarkaðra og maður er ekki í sjónsviði bílstjóra. Bílstjórar sem koma út úr útkeyrslum veita vegfarendum á gangstéttum líka litla eftirtekt en þeir gæta betur að umferð á götunni.
Sæbólsbraut er þröng safngata. Taka þarf ríkjandi stöðu í þrengingunni og í megninu af götunni til að vera í sjónsviði bílstjóra og hafa gott útsýni því gatan er þröng og lélegt útsýni úr hliðargötum.
Á stígnum framhjá Essó í Fossvogi. Hér er óþörf blindbeygja á stígnum sem skapar hættu ef menn hægja ekki á sér. Þetta er aðalstígur höfuðborgarsvæðisins nr. 4. Hann er ruddur af Reykjavíkurborg að Fossvogslæk en mætir afgangi samkvæmt áætlun um þjónustuflokkun í snjóhreinsun og hálkueyðingu hjá Framkvæmdasviði: http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-1615. Hann er því oft óruddur og illa sandborinn á veturna. Mikið er af glerbrotum á vorin og haustin þarna í kring.
Leiðin liggur síðan yfir göngubrúna yfir Kringlumýrarbraut/Hafnarfjarðarveg og áfram upp Fossvogsveg frá Skógræktinni, yfir Bústaðaveg og eftir Háaleitisbraut í norður.
Hér er mynd tekin á Háaleitisbraut við Austurver. Á ljósum er best að vera í ríkjandi stöðu, sérstaklega ef möguleiki er á hægri beygju á gatnamótunum. Venjulega þarf ekki að hafa áhyggjur af bílstjórum fyrir framan en ökumenn fyrir aftan þurfa að sjá mann greinilega. Ef hjólreiðamaður er út í kanti er eins víst að þeir taki ekki eftir honum og hætt við að bílstjórar sem eru að taka hægri beygju svíni fyrir hann. Bílstjórar sem tala í farsíma á ljósum eru sérstaklega varasamir.
Leiðin liggur áfram eftir Háaleitisbraut yfir Miklubraut á ljósunum. Oftast er best að vera í ríkjandi stöðu yfir gatnamótin en ef hraði bíla er orðinn mikill er gott að færa sig betur út í kant og fara yfir samsíða bíl á vinstri hönd. Síðan er farið á beygjurein fyrir Fellsmúla þegar yfir er komið og beygjan tekin inn í Fellsmúlann.
Í Fellsmúla er best að reyna að halda ríkjandi stöðu niður brekkuna. Hraðinn er mikil og fáir bílar sem ná fram úr manni. Útkeyrslur og gatnamótin við Síðumúla geta verið varasöm ef maður er ekki í sjónsviði bílstjóra sem ætla út í Fellsmúlann.
Strætó nr. 15 fer upp í Mosó og tengir einnig við Akranes- og Borgarnesvagninn í Háholti í Mosfellsbæ. Vegna tengingarinnar uppá Skaga er þjónustan nokkuð öflug. Á 15 mín. fresti á morgnanna og síðdegis. Fjöldi farþega jókst talsvert þegar byrjað var að aka upp á Skaga. Leið 15 vestur í bæ liggur um Hlemm, framhjá Landspítalanum og HÍ og endar hjá KR. Hann er fljótur í förum og þægilegur í alla staði. Á minni leið get ég tekið hjólið með en vandkvæði geta verið á því í öðrum vögnum á annatíma þegar vagnarnir eru fullir. Utan annatíma er það sjaldnast vandamál. Ég er með lás sem gerir kleift að reyra hjólið fast í vagninn. Það er mjög þægilegt því þá er hægt að lesa á leiðinni og þarf ekki að hafa áhyggjur af að hjólið kastist til í hringtorgunum.
Klukkan: 8:30
Vegalengd: 4,82 km
Meðalhraði: 18,07 km/klst
Ferðatími (hjól snúast): 16:03 mínútur
Hámarkshraði: 37 km/klst
Hjólreiðar | 22.4.2009 | 23:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég ætla að skrifa nokkrar leiðalýsingar undir titlinum Hjólað í vinnuna á næstunni eftir því sem ég hef tíma til. Tilgangur skrifanna er tvíþættur. Vonandi hvetur þetta einhvern til að taka fram hjólið og prófa. Sá hin sami á eftir að uppgötva að hindranirnar eru fyrst og fremst í huga hans sjálfs en ekki í umhverfinu. Leiðalýsingarnar hjálpa líka vonandi öðrum að finna góðar leiðir, sem henta þeim til að hjóla milli áfangastaða.
Hjólreiðar | 15.4.2009 | 00:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
En hver er hugmyndin með viðskiptavild? Hún gæti verið sú að fyrirtækið sé ekki rétt verðlagt á hlutabréfamarkaði og að snjall viðskiptajöfur sjái að eftir tiltölulega skamman tíma hækki verðið í samræmi við eiginlegt verðmæti fyrirtækisins. Ellegar gæti hún verið sú að maður sjái tækifæri í rekstri fyrirtækisins eða með því að sameina það öðru fyrirtæki þannig að verð hlutabréfa þess hækki í verði. Til að þessi hækkun á hlutabréfunum komi fram þarf væntanlega að reka fyrirtækið í nokkur ár, tvö eða fleiri til að hagnaður af rekstrinum komi í ljós.
En, það er til önnur jafn góð skýring á því að maður kaupi fyrirtæki á yfirverði. Hann gæti einfaldlega verið lélegur bissnesmaður, illa að sér, fljótfær og með litla þekkingu á markaðnum. Þar koma útrásarvíkingarnir til sögunnar. Þeir voru einatt snöggir upp á lagið að kaupa fyrirtæki. Það voru heldur engar vöflur á seljendum fyrirtækjanna. Reyndir erlendir viðskiptajöfrar hafa bent á að þegar seljandinn er fljótur að selja er hann ánægður með verðið og því fljótur til sölunnar. Það er mjög sennilegt að þegar seljandinn er fljótur að selja er kaupandinn að tapa með því að borga yfirverð fyrir fyrirtækið. Hætt er við að rekstur hins keypta fyrirtækis standi ekki undir fjárfestingunni í venjulegu árferði með meðalvöxtum enda er öll kaupupphæðin tekin að láni. Það fyndna í þessu er að það verður til viðskiptavild í bókhaldi fyrirtækisins. Bókhalds- og endurskoðunarreglur hvetja menn með þessum hætti til heimskulegra og lélegra fjárfestinga. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum í rekstrar- og skattaumhverfi fyrirtækja sem ýta undir ábyrgðarlausa hegðun og lélegan rekstur.
Hvað gerir útrásarvíkingur þá? Hann klippir fyrirtækið sundur, sameinar það öðrum fyrirtækjum, selur áfram til annarra útrásarvíkinga. Hann gerir svo að segja allt til að komast hjá því að reka fyrirtækið áfram óbreytt í einhver ár því þá mundi koma reynsla á fjárfestinguna og koma í ljós að hún var arfavitlaus. Íslensku útrásarvíkingarnir bættu um betur og skiptust á fyrirtækjum eins og strákar á fótboltaspilum með síhækkandi verðmiða á spilunum. Og að sjálfsögðu með hærri viðskiptavild í hvert sinn.
Birtar blaðagreinar | 6.4.2009 | 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í Hrunadansi síðustu mánaða hefur mörgum orðið tíðrætt um krónuna. Eigum við að halda í hana eða kasta henni og taka upp evru? Veigamikil rök með upptöku evru eru þau, að ódýrara sé að hafa evru en að reka eigin gjaldmiðil og með því muni vaxtastig færast nær því sem er í Evrópu fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Helstu rök með krónunni eru, að hún gerir íslendingum kleift að breyta verðlagningu íslenskra afurða og þjónustu gagnvart útlöndum með því einu að breyta genginu. Fylgismenn krónunnar halda mjög fram seinna atriðinu en aðeins á annan veginn. Þeir tala um að gengi krónunnar geti fallið þegar harðnar á dalnum og þannig aukist samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og full atvinna er tryggð. Þeir tala nær aldrei um hina hlið krónunnar, þeirri sem við fengum að kynnast undanfarinn þensluár þegar hækkun á gengi krónunnar var notuð til að halda aftur af verðbólgunni innanlands.
Uppspretta ójafnvægis
Með byggingu Kárahnjúkavirkjunar var boginn spenntur að þanmörkum hagkerfisins til að fjölga kjósendum framsóknarflokksins í Austfjarðakjördæmi. Þar sem það tryggði ekki framgang flokksins á landsvísu flutti formaðurinn sig á mölina í næstu kosningum og Árni Magnússon félagsmálaráðherra efndi loforð flokksins um að hækka lánshlutfall íbúðalánasjóðs upp í 90% af íbúðarverði og jók hámarks lánsupphæðina. Með því var bönkunum að mestu ýtt út af íbúðalánamarkaði. Þeir svöruðu með lækkun vaxta og óheftum útlánum og fóru hreinlega í stríð við stjórnvöld. Vandi hagstjórnarinnar var sá að ruðningsáhrif framkvæmdanna fyrir austan voru svo mikil að hafa þurfti taumhald á öðrum framkvæmdum og einkaneyslu. Þegar framkvæmdunum lauk var strax farið að tala um aðrar álíka framkvæmdir en það er ekki endalaust hægt að draga það að byggja vegi, skóla og aðra innviði meðan verið er að virkja og byggja álver. Hvað þá að hægt sé að auka einkaneyslu með skattalækkunum og auka lánaframboð á sama tíma.Verðbólga hamin með gengishækkun og þenslu
Seðlabankinn reyndi að halda aftur af verðbólgu með því að hækka stýrivexti. Það hélt nokkuð aftur af verðbólgunni en ekki með því að minnka þensluna heldur með því að hækka gengi krónunnar. Stýrivaxtahækkun jók þvert á móti þensluna því hún leiddi til aukins innstreymis fjármagns -> hærra gengis krónunnar -> aukinnar kaupgetu íslendinga erlendis -> meiri viðskiptahalla og skuldasöfnunar. Vaxtavopnið hefði mögulega hjálpað ef húsnæðislán væru með breytilegum vöxtum, þ.e. ef verðtryggingin hefði verið afnumin. Eins og kunnugt er lækkaði Seðlabankinn bindiskyldu bankanna og gerði þeim þar með kleift að auka útlán en meira. Ekki vildu stjórnvöld heldur leggja gjald á útlendar lántökur. Ríkissjóður var rekinn með afgangi með því að skattleggja viðskiptahallann. Í stað þess að reyna að ná tökum á ástandinu réri ríkistjórn sjálfstæðisflokks og framsóknar að því öllum árum að auka ójafnvægið og þensluna í þjóðfélaginu. Ráðist var í meiri opinberar framkvæmdir heldur en nokkurn tímann fyrr, vegir, jarðgöng, tónlistarhús, virkjanir og álver. Sveitarfélögin létu síðan ekki sitt eftir liggja í byggingaræði. Einkaneysla hefur samt verið aðal driffjöðurinn, bæði fasteignir og lausafé. Ríkið lagði sitt á vogarskálar einkaneyslunnar með því að lækka skatta, einkum á hæstu tekjurnar, og með því að auðvelda einstaklingum að svindla undan skatti með því að koma einkaneyslu sinni undir hatt einkahlutafélaga.
Hefði okkur vegnað betur með evru?
Ef evra hefði verið gjaldmiðill á Íslandi hefði þenslan sennilega orðið svipuð við sömu efnahagsstefnu og við sömu aðstæður aðrar. Seðlabankanum hefði þó ekki tekist að halda aftur af verðbólgunni með hækkun gengisins og hefði afleiðingin af því orðið há verðbólga. Líklegt er að það hefði neytt stjórnvöld til að horfast í augu við vandann frekar en að stinga höfðinu í sandinn eins og auðvelt var að gera með hækkun gengisins. Líklegt er að stjórnvöld hefðu sýnt meiri aga í peningamálum og skynsamlegri hagstjórn ef Ísland hefði verið með evru.
Ég held samt að krónan sé blóraböggull. Þegar menn kenna krónunni um eru menn að firra aga- og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn ábyrgð. Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson bera mesta ábyrgð á því hvernig fór, sem formenn stjórnarflokkanna í síðustu ríkisstjórnum. Líkja má krónunni við eldhúshníf. Það er hægt að nota hann til að skera lauk og kjöt í pottrétt fram í eldhúsi eða það er hægt að reka mann á hol með honum inn i stofu. Það er ekki hnífnum að kenna hvað hann er notaður til. Segja má að ríkisstjórn sjálfstæðis- og framsóknarflokks hafi rekið þjóðina á hol með krónunni. Ef við tökum upp evru fjarlægjum við hnífinn úr húsinu - freistinguna fyrir stjórnmálamenn að viðhalda fölsku gengi. Kannski er það besta lausnin. Grundvallar spurningin er hvort við treystum stjórnmálamönnum til að halda á hnífnum. Geta þeir valdið því tæki sem krónan er?
Birtar blaðagreinar | 5.4.2009 | 20:48 (breytt kl. 20:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er skemmtilegt þegar dregin eru upp gömul lík úr djúpinu. Þau geta stundum sagt okkur eitthvað um samtíðina og varpað ljósi á sögu þeirra manna sem komu við sögu þá, og nú. Það var auðvitað Vaka sem vildi ekki ganga til liðs við baráttuna gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.
Hverjir skyldu hafa setið í Stúdentaráði Háskóla Íslands fyrir Vöku félag lýðræðissinnaðra stúdenta árið 1988? Ætli nöfn þessarra manna séu eitthvað kunnugleg í dag?
Birtar blaðagreinar | 2.4.2009 | 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Færsluflokkar
- Birtar blaðagreinar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Blogg um fréttir
- Dægurmál
- Ferðalög
- Fjármál
- Heilbrigðismál
- Hjólreiðar
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Óbirtar blaðagreinar
- Samgöngur
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- September 2024
- Maí 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2020
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Nóvember 2017
- Maí 2017
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Júlí 2015
- Október 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Apríl 2014
- Janúar 2014
- Nóvember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Mars 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- September 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
Tenglar
Hjólreiðar
- Landsamtök hjólreiðamanna
- Íslenski fjallahjólaklúbburinn Samtök hjólreiðamanna með ferðalög og samgöngur
- Bikeability UK Hjólafærni verkefnið á Bretlandi
- Cyclecraft Heimasíða John Franklin höfund bókarinnar Cyclecraft
- Lifecycle UK Lifecycle, bresk samtök sem kenna hjólafærni
- Tímaritið Momentum Samgöngu hjólreiðar og hjólamenning í Bandaríkjunum og Kanada
- Tímaritið Velovison Eitt skemmtilegasta hjólatímaritið, mikið með liggjandi hjól
- Laid back bikes í Edinborg Fyrirtæki sem býður ferðir á liggjandi hjólum í Edinborg í Skotlandi
Blogg um hjólreiðar
- Dashjol - Davíð A. Stefánsson Framvinda landfræðilegrar rannsóknar á hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu
- Bjarney Halldórsdóttir Hjólað í Reykjavík
- Hjólaðu maður! Blogg um hjólreiðar að norðan
- Hjóladagbók Bjössa 2009/2010 Hjólaleiðir, myndir, ferðatími og veður
- Íslendingur í Kanada Halldór Gunnarsson "a bike nut from Iceland"
- Copenhagenize Blogg um hjólreiðar í Köben og allan heim
- Copenhagen Cycle Chic Tíska og hjól í Köben
- Chic Cyclist blog "Gellu" hjólreiðar
- Sænsk hjólablogg Yfirlit yfir sænsk hjólablogg
- Malmö - Lund på cykel Marcus doktorsnemi á Skáni bloggar um hjólreiðar
- Karringcykelbloggen Blogg um hjólreiðar í suður Svíþjóð - karring = kelling
- Cycleville Stockholm Bloggað frá Stokkhólmi um hjólreiðar
- Skoti í New York
Viðgerðir á hjólum
- Bicycletutor Myndbönd sem sýna viðgerðir á hjólum
- Park verkfæri Park verkfæri, með sýnikennslu í viðgerðum
- Sheldon Brown Útskýringar á nánast öllu varðandi viðgerðir á hjólum
Ferðir á hjólum
- Crazyguyonabike: Bicycle Touring Safn af ferðafrásögnum, hér má skrá eigin ferðasögu