Í 1. þætti var fjallað um hjólin sem ég nota en í 2. þætti verður fjallað um tölfræði hjólanna þriggja árið 2010.
Eftir hverja ferð skrái ég upplýsingar af hraðamæli. Það er vegalengd í ferð, tími sem hjól snúast í ferð, meðalhraði í ferð, hámarkshraði í ferð og heildarvegalengd á mæli. Einnig skrái ég upplýsingar um vind (hlutlaus, með- og mótvindur), úrkomu (þurrt, rigning, snjókoma) og færð (autt, hálka, þæfingur). Það skiptir máli hvernig ferðir eru skilgreindar. Ferðir er oftast skráðar hjá mér eftir hvern legg ef staldrað er við í lengri tíma. Þannig eru ferðir í vinnuna skráðar sem tvær ferðir. Ein ferð í og önnur ferð úr vinnunni. Ef um styttri stopp eru að ræða eða ferð byrjar og endar á sama stað er ferðin oftast skráð sem ein.
Niðurstöður eru birtar í súluritum hér að neðan ásamt umfjöllun. Athugið hægt er að klikka á myndir til að stækka þær til að sjá þær skýrt.
Í súluriti 1 eru birtar upplýsingar um meðaltöl fyrir hvert hjól árið 2010. Það er meðallengd ferðar, meðaltími í ferð, meðalhraða í ferð og meðalhámarkshraða í ferð. Takið eftir að samsvarandi einingar eru á Y-ás, vegalengd (km), tími (min) og hraði (km/klst).
Það sést að meðallengd ferðar er svipuð fyrir Gary Fisher GF og Mongoose Sycamore MS en lengri fyrir Trek. Trek hjólið hefur meira verið notað í lengri skemmtiferðir en hin hjólin. Þrátt fyrir það er meðaltími í ferð skemmri hjá Trek en GF og þegar meðalhraði er skoðaður sést skýringin. Meðalhraðinn er hæstur á Trek hjólinu, næstlægstur á MS og lægstur á GF. Það er eins og búast má við enda er Trek hjólið léttast og setstaðan er rennilegust. MS er svo þar mitt á milli. Setstaðan á því hjóli er sömuleiðis mitt á milli hinna. Þó er þetta ekki eina skýringin. GF hjólið er með nagladekkjum yfir allan veturinn og er gjarnan mest hlaðið og veturinn er líka með verstu veðrin þannig að það skýrir að hluta þessa niðurstöðu.
Það er um 6 km/klst munur á meðalhraða á GF og Trek en e.t.v. er ekki nema um 3 km/klst munur eftir að tekið hefur verið tillit til allra aðstæðna. Nagladekkja, meiri hleðslu, verri færðar, verra veðurs og styttri ferða. Mörgum þykir það kannski ekki mikill munur en það er þó nokkuð í hjólabransanum. Þá má líka geta þess að þetta eru ekki kapphjólreiðar heldur samgönguhjólreiðar og boginn ekki spenntur til hins ýtrasta til að vera sem fljótastur.
Meðalhámarkshraði í ferð er svo hæstur á Trek, lægri á MS og lægstur á GF.
Í súluriti 2 er sýnd tíðnidreifing meðalhraða fyrir hjólin þrjú. Meðalhraðinn er á X-ás og fjöldi ferða á viðkomandi meðalhraða á Y-ás. Þar sést að kúrfurnar eru allar nær normaldreifðar og að þær spanna breitt bil á öllum hjólunum. Það er ekki skrýtið enda eru sumar ferðir hægar og aðrar hraðar. Lengri ferðir á opnum vegum eru gjarnan hraðari en styttri ferðir í þéttbýli. Í hröðustu ferðunum sjást áhrif meðvinds en mótvindur segir til sín í þeim hægari.

Meðalhraði í flestum ferðum á Trek hjólinu er á bilinu 20-26 km/klst, á MS eru flestar ferðir á bilinu 17-24 km/klst og á GF eru flestar ferðir á bilinu 14-21 km/klst.
Þegar tíðnidreifing vegalengda á GF er skoðuð sést að flestar ferðirnar eru 15-18 km en það er vegalengdin sem ég hjóla í vinnuna aðra leið. Þar eru líka einhverjar ferðir niður í bæ, fram og til baka. Næstmesta tíðni hafa ferðir sem eru 3-6 km á lengd en það er m.a. vegalengdin á Grensásveg þar sem ég tek oft strætó á morgnanna með hjólið. Í tíðnidreifinguna vantar Bláalónsþrautina sem var 55 km.
Tiðnidrefing vegalengda á Trek sýnir að ferðir úr og í vinnu eru þar í stærstu hlutverki. Fjöldi ferða í flokknum 15-18 km er nánast hin sami á GF og Trek, rúmlega 45 ferðir. Aðrar vegalengdir eru mun sjaldgæfari. Þær eru flestar skemmtiferðir. Lengsta ferðin er 61 km en það er hluti af 103 km ferð frá Flateyri á Þingeyri til Ísafjarðar og aftur til Flateyrar.
Tiðnidreifing ferða á MS eru mun jafnari. Ferðir úr og í vinnu eru ekki eins áberandi í safni ferða þar og á hinum hjólunum þó vissulega hafi það verið notað þannig.
Laugardagsferðirnar eru gjarnan 22-32 km. Þær ferðir hafa verið farnar á GF og MS.
En er hægt að bera saman meðalhraða mismunandi samgöngumáta? Ég er hér með áraeiðanlegar tölur fyrir sjálfan mig á reiðhjólum. Ég hef einnig allgóðar upplýsingar um ferðahraða í mínum ferðum með strætó og einnig eru upplýsingar um það úr leiðartöflum strætó. Samgöngusvið Reykjavíkurborgar hefur svo birt upplýsingar um ferðatíma á morgnanna og síðdegis úr og í vinnu með einkabílum.
Meðalhraðinn á reiðhjóli hjá mér spannar bilið frá 12-30 km/klst. og flestar ferðirnar eru á bilinu 16-26 km/klst. Það fer eftir reiðhjóli og aðstæðum hversu hratt maður fer yfir en það væri ekki órökrétt að miða við að meðalhraðinn geti verið um 20 km/klst.
Með strætó er ég um 35-45 min úr og í vinnu sem gerir um 21-27 km/klst.
Umhverfis- og samgöngusvið borgarinnar hefur athugað ferðatíma einkabíla úr og í vinnu í október undanfarin ár. Þar eru mældar ferðir frá 6 úthverfum Reykjavíkur inn til miðborgarinnar á morgnanna og tilbaka síðdegis eftir stofnbrautum og tengivegum. Í október 2010 (óbirt) var meðalhraði bílanna sex 31.65 km/klst á morgnanna en 34.77 km/klst síðdegis.
Munurinn á þessum ferðamátum er í raun ótrúlega lítill og eflaust mun minni en margir ímynda sér. Þó er Reykjavík þekkt fyrir að vera með óvenju hátt þjónustustig fyrir bílaumferð og mun greiðari umferð en aðrar borgir sem hún er borin saman við erlendis (Samgönguskipulag i Reykjavík stór pdf skjöl: 1. hluti og 2. hluti). Í flestum öðrum borgum er umferðin mun seinvirkari en í Reykjavík. Dæmi um það er Stokkhólmur.
Það væri gaman ef Umhverfis- og samgöngusvið mundi kanna meðalhraða umferðar utan stofnbrautanna. Sennilega er meðalhraði bíla þar ekki ósvipaður meðalhraða reiðhjóla. Í minum huga er alveg ljóst að reiðhjól er vel samkeppnishæft við einkabíla í ferðatíma einkum á styttri vegalengdum.
Hjólreiðar | 1.4.2011 | 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á árinu 2010 hjólaði ég um 4.100 km á þremur hjólum. Gary Fisher Wahoo árgerð 2004, Trek 2200 árgerð 2004 og Mongoose Sycamore árgerð 1996. Það eru rúmir 11 km á dag að jafnaði árið um kring.
Gary Fisher Wahoo 2004 er hardtail ál fjallahjól með dempara að framan (bilaðan). Það er útbúið með bögglabera og tösku og aurhlífum. Ég set líka stundum kerru aftan í það. Það hef ég notað árið um kring en þó einkum á veturna síðustu ár. Þá er það útbúið með nagladekkjum. Ég er sennilega búinn að hjóla á því um 10.000 km en núverandi mælir stendur í um 7.900 km. Það er búið að skipta um afturgjörð á því og ég er búin að skipta um krans og keðju tvisvar, sveifarlegu einu sinni og víra og barka einu sinni. Ég er líka búinn að skipta um hnakk og stamma til að lyfta stýrinu. Þetta hjól er hálfgerður hlunkur en mjög sterkt. Ég hef farið í eina langa ferð á því um 800 km og það sló ekki feilpúst þar þrátt fyrir farangur í hnakktöskum að framan og aftan og ofan á bögglaberanum. Í þannig múnderingu var það stöðugt og gott ferðahjól en þungt í vöfum með farangurinn.
Hér er það á leiðinni upp í Mosó í leið 15.
Trek 2200 2004 er spretthjól (racer) úr áli með carbon gaffli í stýri og carbon sætisgaffli. Það er hvorki með skrúfgötum fyrir aurhlífum né bögglabera. Ég útbjó það með aurhlífum sem eru festar með gúmmí festingum utanum gafflana og bögglabera sem hangir neðan úr hnakknum sem styður við hnakktösku frá Carradice. Það ber um 10 kg. Þannig útbúið er hjólið eins og létt ferðahjól og ég nota það á sumrin mest til að hjóla í vinnuna en einnig í skemmtihjólarí á kvöldin. Því hef ég núna hjólað um 2700 km.
Hér er líka mynd af því á Gemlufallsheiði.
Mongoose Sycamore 1996 er hardtail fjallahjól úr stáli ódempað. Ég fékk það gefins fyrir um 2 árum. Það var í fínu ástandi, greinilega búið að vera inni að mestu leyti. Það þurfti bara að skipta um bremsupúða og endurnýja víra og barka og þar með var það orðið eins og nýtt. Ég skipti líka út aurhlífum, setti götudekk og annan hnakk en hélt bögglaberanum. Síðan er það búið að þjóna vel. Ég nota það mest á haustin og vorin og á veturna þegar ekki er hálka og set það ekki á nagladekk. Oftast er það með létta tösku á bögglaberanum. Það er ótrúlega gott hjól, sterkt, létt, lipurt og spretthart. Ef einhver er með svona hjól í skúrnum hjá sér er það frábært til að ganga í endurnýjun lífdaga í upprunalegri mynd eða þá að láta gjörbreyta því. Til dæmis hjá Kríu eða hjá Hjólameistaranum. Ég er sennilega búinn að hjóla eitthvað um 2.000 km á því en mælirinn stendur í 612 km.
Í næsta þætti ber ég saman tölfræðina yfir þessi hjól árið 2010.
Hjólreiðar | 21.2.2011 | 23:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er lestarfikill en ég veit að það eitt að láta tóma neðanjarðarlest ferðast milli stöðva mun ekki breyta miklu í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekki hægt að rekar neðanjarðarlest hér nema að gera miklar breytingar ofan jarðar sem ég held að almenningur og stjórnmálamenn séu ekki tilbúnir til að gera. Þær breytingar má eins gera fyrir strætó eða þá ofanjarðarlest ef út í það er farið.
Strætó er besta lausnin. Til að bæta samkeppnisstöðu strætó má fara ýmsar leiðir. Strætóhópur samtaka um bíllausan lífsstíl hafa lagt til þessa framtíðarsýn um strætó í almannaþjónustu.
Það verður ekki gengið lengra í að niðurgreiða fargjöld í strætó. Fargjöld með strætó eru hér mun lægri en í nágrannalöndunum og þjónustan á annatíma er sambærileg í flestum hverfum og í sambærilegum hverfum í nágrannalöndum okkar.
Samgöngusamningar á vinnustöðum þar sem mönnum eru greiddir samgöngustyrkir fyrir að koma ekki á bíl í vinnuna og spara þar með bílastæði fyrir launagreiðandann er góð leið til að minnka notkun einkabíla og auka notkun strætó, hjólreiða og göngu.
Önnur leið er að draga úr niðurgreiðslum með notkun einkabíla t.d. að:
- minnka hvata í skattkerfinu til notkunar einkabíla,
- taka raungjald fyrir notkun bílastæða
- taka raungjald fyrir notkun vega
- verðleggja land miðað við markaðsverð, land undir vegum og bílastæðum sé ekki undanþegið sanngjarnri lóðarleigu.
Upphaflegur titill á færslu: "Því miður ekki heil brú í þessu"
![]() |
Kanna hagkvæmni jarðlestakerfis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | 14.2.2011 | 10:12 (breytt 16.2.2011 kl. 18:10) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Málið er að það er ódyrara fyrir bæði launagreiðanda og launþega að launin séu greidd í gjaldmiðlinum Toyota heldur en íslenskum krónum. Af krónunum þarf að greiða tekjuskatt og útsvar en af Toyota þarf bara að reikna hlunnindi í íslenskum krónum, sem eru um 50% af þeim tekjum sem viðkomandi þarf að hafa til að sjálfur kaupa, eiga og reka viðkomandi bíl.
Skattkerfið ýtir undir að laun séu greidd í Toyotum, Lexusum o.s.frv. frekar en íslenskum krónum vegna þess að það er skattalega hagstætt. Þessvegna vilja margir sem eru í þeirri aðstöðu frekar fá greitt í þeim gjaldmiðli heldur en íslenskum lögeyri.
Þetta er auðvitað siðleysi hjá Guðrúnu og dæmigert fyrir lögfræðinga og endurskoðendur að komast að svona niðurstöðu. Guðrún ætti bara að skila druslunni og hjóla, taka strætó eða fá far sinna erinda.
Dóttir hennar hefur heldur ekki gott af þessu dekri. Þetta er einfaldlega ekki gott uppeldi.
![]() |
Bæjarstjóri gagnrýndur fyrir bílanotkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg um fréttir | 10.2.2011 | 12:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Víða virðist snjóruðningur hafa gengið hægt fyrir sig á stígum frá því á föstudaginn þegar snjónum kyngdi niður. Á laugardaginn var t.d. ekki búið að ryðja hjólastíginn í Fossvogi þótt göngustígurinn hafi verið ruddur.
Í morgunn var ekki búið að ryðja beygjuna frá stígnum við Kringlumýrarbraut uppá Fossvogsstíginn undir göngubrúnni á Miklubraut. Þetta hefur þó smá saman verið að koma en hætt er við að bílstjórar yrðu ekki ánægðir með svona þjónustu.
Heyrst hefur að snjóruðningur hafi verið einna lakastur í Hafnarfirði og Garðabæ en betri í Kópavogi og Reykjavík. Mér hefur þótt það misjafnt í Reykjavík og Kópavogi en hef ekki séð það sjálfur í Hafnarfirði og Garðabæ. Það var hinsvegar vel rutt upp í Mosfellsbæ hvað ég sá í kringum miðbæinn þar. Mér fannst áberandi hvað stígarnir voru vel hreinsaðir þar uppfrá en sumstaðar hefur mér þótt að snjónum sé meira þjappað ofan á stíginn frekar en að honum sé ýtt af stígnum. Það er eins og tækin ráði ekki alltaf við snjóinn sem fyrir er. Þetta er bagalegt því færðin verður ójöfn þegar gengið er í þjöppuðum snjó.
Mosfellsbær á hrós skilið fyrir vel rudda stíga.
Fróðlegt væri að heyra frá fleirum um hvernig hafi verið rutt á þeirra leið.
En þegar tíðin er slæm með stormi og illa ruddum stígum má alltaf stytta sér leið og taka strætó aðra leið eða báðar.
Strætó bs. veitir frábæra þjónustu sem óvíða er að finna í nágrannalöndum okkar og leyfir reiðhjól í strætó. Þennan möguleika er mjög auðvelt að nota sér og maður er nokkuð viss um að komast með hjólið á flestum leiðum. Það er helst á hraðleiðunum, 1, 3, og 6 sem erfitt getur verið að taka hjólið með á annatíma.
Strætó á hrós skilið líka. Áfram Strætó!
Hjólreiðar | 8.2.2011 | 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nýlega byrjaði nýr hjólabloggari að blogga um hjólreiðar í höfuðborginni. Stefnuskráin hans er birt hér.
Hann er með ferska pistla og víðar tengingar en kjölfestan er hjóladagbók um daglegar hjólreiðar í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu.
Hann býr í Hafnarfirði en þar hafa ekki verið bloggarar sem hafa miðlað af reynslu sinni af hjólreiðum í nokkurn tíma svo ég viti um. Þar hefur verið eyða í umfjöllun um hjólreiðar sem Davíð mun vonandi fylla.
Hjólreiðar | 1.2.2011 | 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýlega lögðu 6 þingmenn fram frumvarp um að leyfa hægri beygja á móti rauðu ljósi. Þetta eru þingmennirnir Árni Johnsen, Björgvin G. Sigurðsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson.
Samskonar frumvarp hefur marg oft verið lagt fram og alltaf hafnað. Hægt er að skoða umsagnir við frumvörpin með því að velja "Þingskjal", "Ferill málsins" og síðan "Innsend erindi". Flestir umsagnaraðilar sem mark er á takandi hafa lagst gegn þessum frumvörpum vegna þess að líklegt er að þessi breyting myndi fjölga umferðarslysum, eignatjónum á bílum og meiðslum gangandi og hjólenda vegaferenda. Það hafa niðurstöður bent til þar sem þessi breyting hefur verið skoðuð.
Athygli bílstjóra sem beygir til hægri er jafnan á umferð sem kemur frá vinstri og honum hættir því til að taka ekki eftir gangandi og hjólandi á gangbraut sem er hægra megin við hann. Ef þar er gangbrautarljós eru vegfarendur þar á grænu ljósi og búast ekki við umferð úr þessari átt þegar þeir fara yfir.
Þetta er því sannkallað frumvarp um fjölgun umferðarslysa fyrir lítin ávinning því oftast nær myndi þetta aðeins hleypa einum bíl fram í hægri beygju en síðan kæmi annar sem ætlar beint áfram og hindrar þá aðra fyrir aftan að taka samskonar beygju. Tímasparnaður yrði hverfandi og hann yrði keyptur með fjölgun umferðarslysa.
Það læðist að manni sá grunur að ofantaldir þingmenn hafi litla von um brautargengi frumvarpsins en eru fyrst og fremst að slá sig til riddara í augum sumra kjósenda. Væri tíma Alþingis betur varið eftir hrun í eitthvað annað en að flytja aftur og aftur sama frumvarpið sem hefur hlotið neikvæðar umsagnir í þeirri von að einhvern tímann sofni menn á verðinum og gleymi að andmæla vitl.. úr þingsölum?
Bílar og akstur | 11.1.2011 | 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Ríkisháskólarnir hafa farið fram á 20.000 kr. hækkun innritunargjalda úr 45.000 í 65.000 en ekki fengið heimild til þess frá menntamálaráðherra og í kjölfarið boða þeir niðurskurð á skólastarfi. Innritunargjöld eru samkvæmt orðanna hljóðan gjöld til innritunar og eiga því að standa undir kostnaði við ýmiskonar utanumhald í tengslum við skráningu og umsýslu við hvern nemenda. Ef kostnaðurinn við það er hærri en 45.000 kr er ekki nema sjálfsagt að skólarnir fái leyfi til að hækka innritunargjöldin. Vandséð er þó að það ætti að hafa áhrif á kennslu eða skólastarf. Það er eitthvað annað sem útaf stendur þar. Skólana vantar e.t.v. hærri framlög á fjárlögum, leyfi til að taka upp skólagjöld eða þeir þurfa að sníða sér stakk eftir vexti og takmarka aðgang að skólunum. Það kemur semsagt ekki allt fram í fréttinni.
Ýmislegt bendir þó til að skólana vanti ekki peninga. Þeir veita til dæmis allir nemendum og kennurum ókeypis bílastæði. Þó getur engin haldið því fram að þessi stæði séu ókeypis né landið sem fer undir þau. Þau hafa öll verið borguð af skólunum eða af fasteignapeningum þeirra og leggja þar með fjárhagslegar byrðar á rekstur skólanna. Undantekningin er kannski HR en þar kostaði Reykjavíkurborg gerð bílastæðanna á lóð HR. Þar liggja bestu upplýsingarnar fyrir um kostnaðinn sem af bílastæðum hlýst. Þau munu hafa kostað um 300 milljónir króna skv. áætlun. Til viðbótar var reistur heill vegur fyrir um 500 milljónir króna til að koma umferð í skólann. Lífsstíll þeirra sem mæta á bíl í HR var niðurgreiddur um 300 milljónir fyrir stæðin og er það skattlaus og gjaldfrí niðurgreiðsla á einum ákveðnum samgöngumáta umfram aðra samgöngumáta. Þá mætti telja Nauthólsveg með í dæminu og nemur þá niðurgreiðslan allt að 800 milljónum króna.
Sjaldan launar þó kálfurinn ofeldið. Nemendur (og kennarar?) þökkuðu fyrir sig með því að leggja á gróðureyjum milli bílastæðanna þannig að menn neyddust til að reisa moldargarða til að hindra að bílum yrði lagt þar.
Niðurgreiðslur á lífsstíl þeirra sem mæta á bíl í ríkisháskólana er samskonar en tölurnar liggja ekki uppi á borðinu þar.
Við erum flest sammála um að borga að langmestu leyti fyrir skóla og sjúkrahús með skattgreiðslum okkar og það er talið það sjálfsagt að það hefur meira segja verið sett í lög. Þó borgum við komu- og innritunargjöld og talað er um kostnaðarhlutdeild notenda þar. Hafið þið heyrt talað um kostnaðarhlutdeild þeirra sem nota bílastæði?(1) Það sem virðist skipta skólana meira máli en jafnræði til náms er jafnræði til bílastæða. Þó kveða engin lög á um skyldu til að útvega mönnum ókeypis bílastæði, hvorki fyrir nemendur eða kennara.
Hvernig væri að hætta að niðurgreiða þennan lífsstíl, að mæta á bíl í skólann? Það er einfaldlega hægt að taka 15.000 kr. gjald á hverri önn fyrir bílastæði og þar með gætu skólarnir fengið sömu upphæð og þeir fengju með hækkun innritunargjalda. Sennilega er sanngjarnt gjald fyrir einfalt bílastæði til að standa undir landverði, gerð og rekstri í langtímaleigu í kringum 30.000 kr. á ári. Í miðborginni er dæmi um að starfsmenn fái 68.000 kr. á ári í skattlaus hlunnindi til að þeir geti greitt fyrir bílastæði.
Þurfa skólar sem ákveða að niðurgreiða lífsstíl nemenda og kennara um 30.000 kr. á ári að hækka innritunargjöld um 20.000 kr. á ári? Ég held ekki. Úr því skólarnir geta sólundað þessum peningum í bílastæði sem þeir afhenda endurgjaldslaust þurfa þeir varla að hækka innritunargjöld.
Stæðin í HR kosta 300 milljónir króna.
En hvað kosta stæðin í Háskóla Íslands?
Svona launar kálfurinn ofeldið.
Og svona líka
Það er langt að ganga fyrir lúin bein.
Þannig að það er best að leggja alveg við skólann.
Til að koma í veg fyrir að bílum sé lagt á graseyjum þarf að reisa garða næst skólanum.
Hvað skyldi hvert stæði kosta fyrir reiðhjól?
1. Á höfuðborgarsvæðinu eru talin vera nokkur hundruð þúsund bílastæði sem ekki eru við heimili. Um 1% þessara stæða eru með gjaldskyldu. Þau eru í miðborginni og skammtímastæði við Landspítalann og í boganum við Háskóla Íslands. Hvers vegna er sjálfsagt að niðurgreiða bílastæði á Íslandi? Áætla má að niðurgreiðslur með bílastæðum nemi nokkrum milljörðum króna á ári.
![]() |
Skráningargjöld mun lægri en skólagjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bílar og akstur | 7.1.2011 | 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Það þarf að bera saman verð á eldsneyti í nágrannalöndum og hversu hátt hlutfall ríkið tekur af kökunni.
Ef menn bera þetta hlutfall saman við önnur lönd hugsa ég að ríkið taki ekki stærri sneið af kökunni hér heldur en annarsstaðar.
Þar sem málið hefur verið skoðað ofan í kjölinn er langur vegur frá því að bílaeigendur borgi þann kostnað sem af akstrinum hlýst. Dágóður hluti er greiddur af öðrum sköttum og af samfélaginu í heild.
Mynd bætt við 2. janúar útaf athugasemdum.
Tekjur hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga sem hlutfalll af landsframleiðslu.
![]() |
Ríkið tekur 110 kr. af lítra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bílar og akstur | 31.12.2010 | 12:31 (breytt 2.1.2011 kl. 17:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Í sumar gekk ég yfir Klofningsheiði milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. Þetta er leið sem mig hefur lengi langað til að fara enda heyrt margar sögur um ferðalög yfir þessa heiði.
Um heiðina lá þjóðleið í gamla daga og fram á 20. öld. Hún er auðrötuð í björtu og vel vörðuð uppi á sléttlendinu á heiðinni sjálfri sem er í um 620 m hæð.
Ég gekk upp vegarslóða í hlíðinni upp frá gömlu sandgryfjunum ofan við Flateyri. Þaðan inn í Klofningsdal fram hjá því sem ég held að sé vatnsveita Flateyringa inn í hvilftina og eftir vegarslóða í skorningum upp skriðurnar í botninum. Þar er komið upp á brúnina vestan megin og frá þeim stað liggja vörður í NA yfir heiðina um 1,2 km og er þá komið fram á brúnina í botni Sunddals í Súgandafirði. Leiðin þar niður er frekar villugjörn og auðvelt að týna slóðinni enda mjög stórgrýtt og skriðurunnið. Þegar kemur niður úr skriðunum er slóðin greinileg. Á herforingjaráðskortunum er leiðin sýnd norðan megin við Þverá og út allan dalinn en farið yfir ánna neðar og gengið að Stað.
Þá má spyrja sig hvort að hægt sé að fara yfir heiðina á reiðhjóli. Það ætti að vera hægt að hjóla á vegarslóðanum inn í Klofningsdal en allir venjulegir hjólreiðamenn þurfa að leiða hjólið megnið af leiðinni eftir það. Það er sérstaklega mikið klungur niður í botni Sunddals. Vanir slóða hjólreiðamenn á hjóli með góðri dempun ættu þó að komast mikinn hluta leiðarinnar hjólandi. Það er þó engin hjólaslóð og kindagötur eru ekki áberandi.
Benda má á kortasjá Landmælinga Íslands þar sem auðvelt er að skoða nútíma kort, herforingjaráðskortin, loftmyndir og innrauðar loftmyndir af landinu öllu.
Það er hægt að smella í tvígang á myndirnar hér að neðan og eru þá birtar stærri myndir.
Hérna sést inn að Flateyri frá vegarslóðanum upp hlíðina. Fjallið Þorfinnur í baksýn.
Horft út Klofningsdal. Valþjófsdalur handan við fjörðinn.
Leiðin upp skriðurnar í botni Klofningsdals.
Mynd tekinn af Seljanefi vestan Klofningsdals inn Önundarfjörð. Þar stendur þessi varða.
Horft NV af Klofningsheiði. Það voru kindur uppi á heiðinni í 600 m hæð. Heiðin er mikið til rennislétt.
Á loftmynd sést einhverskonar vegarslóði sem liggur eftir heiðinni í NV fram á brún Sunddals þar sem hann opnast að Vatnadal.
Horft eftir vörðunum á leiðinni yfir heiðina í NA átt. Uppi sést engann veginn að maður er upp á mjórri heiði. Maður gæti eins ímyndað sér að leiðin yfir heiðina væri 100 km en ekki bara 1,2 km.
Komið fram á brúnina á Sunddal, horft í NV
Ferðalög | 30.12.2010 | 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Birtar blaðagreinar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Blogg um fréttir
- Dægurmál
- Ferðalög
- Fjármál
- Heilbrigðismál
- Hjólreiðar
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Óbirtar blaðagreinar
- Samgöngur
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- September 2024
- Maí 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2020
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Nóvember 2017
- Maí 2017
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Júlí 2015
- Október 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Apríl 2014
- Janúar 2014
- Nóvember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Mars 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- September 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
Tenglar
Hjólreiðar
- Landsamtök hjólreiðamanna
- Íslenski fjallahjólaklúbburinn Samtök hjólreiðamanna með ferðalög og samgöngur
- Bikeability UK Hjólafærni verkefnið á Bretlandi
- Cyclecraft Heimasíða John Franklin höfund bókarinnar Cyclecraft
- Lifecycle UK Lifecycle, bresk samtök sem kenna hjólafærni
- Tímaritið Momentum Samgöngu hjólreiðar og hjólamenning í Bandaríkjunum og Kanada
- Tímaritið Velovison Eitt skemmtilegasta hjólatímaritið, mikið með liggjandi hjól
- Laid back bikes í Edinborg Fyrirtæki sem býður ferðir á liggjandi hjólum í Edinborg í Skotlandi
Blogg um hjólreiðar
- Dashjol - Davíð A. Stefánsson Framvinda landfræðilegrar rannsóknar á hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu
- Bjarney Halldórsdóttir Hjólað í Reykjavík
- Hjólaðu maður! Blogg um hjólreiðar að norðan
- Hjóladagbók Bjössa 2009/2010 Hjólaleiðir, myndir, ferðatími og veður
- Íslendingur í Kanada Halldór Gunnarsson "a bike nut from Iceland"
- Copenhagenize Blogg um hjólreiðar í Köben og allan heim
- Copenhagen Cycle Chic Tíska og hjól í Köben
- Chic Cyclist blog "Gellu" hjólreiðar
- Sænsk hjólablogg Yfirlit yfir sænsk hjólablogg
- Malmö - Lund på cykel Marcus doktorsnemi á Skáni bloggar um hjólreiðar
- Karringcykelbloggen Blogg um hjólreiðar í suður Svíþjóð - karring = kelling
- Cycleville Stockholm Bloggað frá Stokkhólmi um hjólreiðar
- Skoti í New York
Viðgerðir á hjólum
- Bicycletutor Myndbönd sem sýna viðgerðir á hjólum
- Park verkfæri Park verkfæri, með sýnikennslu í viðgerðum
- Sheldon Brown Útskýringar á nánast öllu varðandi viðgerðir á hjólum
Ferðir á hjólum
- Crazyguyonabike: Bicycle Touring Safn af ferðafrásögnum, hér má skrá eigin ferðasögu