Við hin nýja Nauthólsveg, sem áður hét Hlíðarfótur, er eitthvað skrítið á seyði sem ekki hefur sést á Íslandi áður. Þar eru merktar á veginn til og frá Valssvæðinu stöðvunarlínur fyrir reiðhjól sem ná fram fyrir stöðvunarlínur fyrir bíla.
Á 1. myndinni er upphaf merkingarinnar þegar maður nálgast gatnamótin. Merkingin stefnir beint yfir götuna.
Þegar komið er að gatnamótunum sést að stöðvunarlína fyrir hjól liggur framar en stöðvunarlína fyrir bíla. Samanber 2. mynd.
Það er eins og gert sé ráð fyrir að þetta sé hjólaleið sem liggi í gegnum Valssvæðið og að gert sér ráð fyrir að hjólað sé á götunni. Spurning er hvort málaðir verði hjólavísar á götuna eins og á Suðurgötu og Einarsnesi.
Hvernig á að leiða hjólreiðamenn í gegnum Valssvæðið er samt nokkuð óljóst. Útaf svæðinu hinum megin þarf að fara upp á gangstétt við Valshúsið og framhjá því og í gegnum grindverk. Það þýðir að það má ekki vera hlið á grindverkinu (3. mynd) og ekki virðist gert ráð fyrir hjólaumferð þar í gegn í hönnun gangstéttanna.
Sérkennilegt er að hafa biðskyldu handan við gangbraut í stað þess að hafa biðskyldumerki og línu framan við gangbrautina (4. mynd). Bílar eiga því að stöðva ofan á gangbrautinni í stað þess að vera fyrir framan hana. Getur einhver útskýrt hversvegna þetta er haft svona?

Hjólreiðamenn sem hjóla á götunni ættu samt að athuga vel sinn gang ef þeir ætla að beygja til vinstri frá HR í átt að Hringbraut.
Þar ættu þeir ekki að taka sér stöðu í í hjólreiðamerkingunni heldur vera á akrein vinstra megin við hjólamerkingu. Sú akrein er bæði beygjurein til vinstri og rein til að halda beint áfram að Valssvæðinu. Eins og sjá má á 5. mynd eru gatnamótin nokkuð flókin. HR og Loftleiðir er til hægri, Valur til vinstri, vegurinn að Hringbraut niður og að Bústaðavegi upp. Þarna sjást stuttu reinarnar fyrir hjól koma frá vinstri og frá hægri.
Nauthólsvegur hentar í sjálfu sér sæmilega til hjólreiða.
Akreinar á svæðinu eru 3,5 m á breidd að jafnaði en 4,5 m breiðar þar sem eru miðeyjar. Bílar eiga að komast framhjá reiðhjólamanni á 4,5 m, enda geta þeir ekki farið yfir miðlínu þar. Þar sem eru 3,5 m akreinar geta bílar farið yfir miðlínu/akreinalínu þegar þeir fara framúr. Ég ímynda mér að það ætti ekki að vera mikið vandamál vegna þess að umferðarstraumurinn á annatíma liggur mest í eina átt og því verði ekki margir bíla sem koma á móti. Að hjóla á götunni ætti því að geta gengið ágætlega.
Í drög að "Flokkun gatna til hjólreiða" sem ég hef verið að vinna að flokkast gatan samt í D. flokk sem er 4. flokkur að þægindastigi fyrir hjólreiðar af 6 flokkum:
D. flokkur. Minna þægileg til hjólreiða (einkum á annatíma). Ökuhraði um 50 km. Breidd götu leyfir ekki framúrakstur bíla án þess að þeir fari yfir miðlínu og umferð er nokkuð þétt. Akrein 3,5 m breið.
Þetta er sett fram með fyrirvara um að þetta er ekki endanlegt flokkunarkerfi og að gatan er í raun ekki fullkláruð. Það er til dæmis ekki ljóst hver ökuhraði verður. Við 30 km hraða mundi vegurinn t.d. færast upp í B. flokk.
Ef einhver veit hvað planið er hjá borginni þarna væri gaman að fá innlegg.
p.s. Athugið, hægt er að smella á myndirnar tvisvar sinnum og stækka þær við hvern smell.
Hjólreiðar | 20.2.2010 | 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Á veturna er tjörudrullan á höfuðborgarsvæðinu hvimleið fyrir reiðhjólamenn eins og fleiri vegfarendur. Til að minnka drulluausturinn og bleytuna er nauðsynlegt að hafa góðar aurhlífar eða bretti á hjólunum.
Fjallahjólið mitt er ekki með festingar að framan fyrir aurhlífar enda með dempara að framan. Ég var lengi vel með aurhlíf sem festist upp í stýrispípuna og gaf alls ekki nógu góða vörn eins og sjá má á myndinni.
Núna um daginn lét ég loksins verða af því að festa almennilega aurhlíf og bætti drullusokk við að neðan.
Það er ekkert skrúfugat til að festa aurhlífina. Þó að sennilega væri í lagi að bora gat fyrir skrúfu í "gaffalbrúnna" vildi ég ekki hætta á það og brá því á það ráð að festa aurhlífina með bendlaböndum. Aurhlífin er úr harðplasti og auðvelt að bora í gegnum hana fyrir bendlaböndunum. Bendlabönd eru ódýr, sterk og endingargóð og ótrúlega nytsöm.
Eitt sem þarf að passa sérstaklega með V-bremsur er að aurhlífin hindri ekki hreyfingu bremsunnar. Hér liggur hún undir bremsunni.
Hér til hliðar sést festingin að aftan. Uppi er gamla festingin fyrir gömlu aurhlífina.
Öðru megin á gafflinum er hægt að festa í skrúfugat fyrir diskabremsu. Gott er að eiga úrval af skífum og ryðfríum skrúfum í mismunandi lengdum sem fást í byggingarvöru- eða vélaverslunum.
Hinum megin á gafflinum er ekkert skrúfugat og þar er hlífin fest í hosuklemmu af passlegri stærð sem festist utanum gaffalinn.
Drullusokkurinn er síðan punkturinn yfir i-ið. Hann er klipptur til úr gömlu afgangsdekki og festur við aurhlífina með bendlabandi.
Sennilega má drullusokkurinn samt vera breiðari og jafnvel aðeins síðari.
Þetta hefur reynst ágætlega og gefur miklu betri vörn fyrir bleytu og drullu.
Maður hefði auðvitað átt að vera búin að gera þetta fyrir löngu síðan.
Hjólreiðar | 15.2.2010 | 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hjólreiðamenn eiga vel heima í umferðinni á Íslandi. Almennt séð ættu hjólreiðamenn að halda sig á götunum í íbúðarhverfum. Það er fyrst og fremst á stærri tengi, safn- eða stofnbrautum með þungri umferð á annatíma, sem ástæða getur verið til að flytja sig upp á gangstétt eða stíg. Þessar götur henta samt flestar vel til hjólreiða utan annatíma. Á götunum fara hjólreiðamenn hraðar yfir og eru öruggari en á gangstéttum og á mörgum blönduðum útivistarstígum.
Mikilvægt er að hjólreiðamaður staðsetji sig rétt á götunni. Í víkjandi stöðu um 1 m hægra megin við umferðarstraum en ekki nær hægri brún en hálfum m þegar óhætt er að hleypa umferð framúr. Í ríkjandi stöðu á miðri akrein (eða rétt hægra megin við miðju til að pirra ekki bílstjóra :) þegar ekki er óhætt að hleypa umferð framúr, t.d. við gatnamót og í þrengingum. Sýnt á mynd hér.
Bílstjórar eru mjög tillitsamir þegar hjólreiðamenn hegða sér eins og önnur ökutæki í umferðinni og það er sárasjaldan sem maður verður fyrir einhverju ónotum. Það er bara einn og einn sem ekki skilur þetta. Þá er bara að veifa honum og brosa. Sumir kalla líka á mann í einhverju gríni, það eru svo margir spaugarar til.
Íslenskar akreinar eru ekki nema 3,5 m á breidd og því er ekki pláss fyrir bílstjóra til að taka framúr reiðhjóli innan akreinar og það getur vissulega verið óþægilegt. Bílstjóri á að taka framúr með minnst 1 m bili frá ysta hluta reiðhjólsins, stýrinu, en þægilegra er ef þetta bil er meira. Bílstjóri þarf því að fara yfir miðlínu eða akreinalínu til að fara framúr. Sumir bílstjórar virðast eiga bágt með þetta og vilja halda sig alveg á miðri akrein. Mér hefur reynst vel að færa mig utar í götuna til að sannfæra bílstjóra um að fara yfir miðlínuna í framúr akstri. Óæskilegt er að vera of nálægt ytri brún akbrautar því það hvetur bílstjóra til að vera innan akreinarinnar í framúrakstri og þá fara þeir óþægilega nálægt hjólreiðamanni. Það er líka slæmt vegna þess að bílstjórar taka síður eftir hjólreiðamanni alveg við brúnina heldur en ef hann er um 1 m inni á götunni. Það á til dæmis við um bílstjóra á biðskyldu í hliðargötu og líka bílstjórum sem er nýbúnir að fara fram úr hjólreiðamanni og gleyma honum um leið ef hann er of utarlega. Góð viðmiðun í víkjandi stöðu er að vera hægra megin í hægra hjólfari bílanna eins og sýnt er á myndinni hér til hliðar sem tekin er í Safamýri.
Í skammdegi og myrkri er mikilvægt að vera í sýnilegum fötum, með endurskin á hjólinu og góð ljós. Ef bílstjórar eiga að taka tillit til manns verða þeir að sjá mann!
Umhverfismál | 10.2.2010 | 13:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Rekstur Slysavarnarskólans kostar 61,2 milljónir kr. á ári segir í tilkynningu samgönguráðuneytis.
Eins og margir íslendingar fylgdist maður með slysafregnum á sjó með sorg í hjarta þegar íslenskir sjómenn drukknuðu eða slösuðust í vinnuslysum oft á ári hér áður fyrr. Þótt ég hafi engar tölur haldbærar hefur maður það á tilfinningunni að vinnu- og sjóslys séu miklu fátíðari en áður var.
Hvað skyldi þessi skóli hafa skilað miklu til baka í færri slysum á sjó? Hvað skyldi það gera í krónum og aurum og ekki síður í færri munaðarlausum börnum og ekkjum?
Þó ekki sé hægt að þakka Slysavarnarskólanum einum fyrir þennan árangur finnst mér hann vera gott dæmi um það þegar peningunum er vel varið af hálfu hins opinbera og þeir skila sér margfalt til baka.
![]() |
Samið um Slysavarnaskóla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg um fréttir | 3.2.2010 | 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það má til dæmis benda á að hjá þeim vantar tillögu um aukningu hjólreiða og göngu í samgöngum borgarbúa og íbúum höfuðborgarsvæðisins.
Það er líka hæpið að halda að notkun íblöndunarefna í bensíni hafi nokkuð að segja fyrir losun gróðurhúsalofttegunda eða mengun í borginni. Íblöndunarefni eins og alkóhól í bensín hafa ekkert að segja og er sennilega öngstræti í leit að endurnýjanlegum orkugjöfum.
Það þarf að efla almenningssamgöngur en það verður ekki gert með því að gera þær ódýrari þar sem dagleg notkun strætó er í dag sennilega ein ódýrasta þjónusta almenningssamgangna sem finna má á Norðurlöndum. Miklu frekar þarf að hækka fargjöld. Eins og ungir framsóknarmenn segja þarf að bæta þjónustunetið og einnig að auka tíðni ferða.
Innleiðing léttlesta á fjölförnum leiðum er því miður bara draumórar eins og er.
Í ályktunina vantar síðan það sem skiptir mestu máli varðandi samgöngur og að auka hlutdeild visthæfra samgangna. Það er að snúa við blaðinu hvað varða öfuga hagræna hvata til notkunar einkabíla í borginni og landinu öllu.
Með öðrum orðum þarf að minnka og helst að hætta alveg að niðurgreiða notkun einkabíla á landinu. Bara niðurgreiðslur vegna bílastæða á höfuðborgarsvæðinu er 2-3 sinnum sú upphæð sem sveitarfélögin hér eyða í niðurgreiðslur á rekstri strætó. Aðrar niðurgreiðslur með bílum eru vanskattlagning bifreiðastyrkja og bifreiðahlunninda og kostnaður við uppbyggingu og rekstur umferðarmannvirkja sem umfram er skattlagningu með vöru- og eldsneytisgjöldum á bíla og eldsneyti.
![]() |
Endurnýjanleg orkuborg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Blogg um fréttir | 3.2.2010 | 15:59 (breytt kl. 16:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um daginn var rennslið niður í baðkarið aftur farið að stíflast. Andskotinn, hugsaði ég.
Baðkarið er mest notað sem sturta og því kemur óhjákvæmilega hár og sest í niðurfallið og stíflar það á endanum þótt það sé með sigti til að taka hárið. Á heimilinu eru núna 6 stelpur og eins og lög gera ráð fyrir eru þær með sítt hár.
Til að losa stífluna hef ég venjulega skrúfað sundur vatnslásinn, sem er frekar óþrifalegt verk og vegna leti vill það dragast.
En neyðin kennir naktri konu að spinna og lötum eiginmanni að vinna.
Mér datt í hug hvort konan ætti ekki háreyðingarkrem sem ég mætti nota. Jú jú sagði hún og leit á mig eins og ég væri orðinn gaga. Það var til gamalt háreyðingakrem í úðabrúsa. Það má ekki vera lengur en 6 mínútur á húð, inniheldur bæði kalíumhýdroxíð og háreyðingarefnið kalíum thioglycolate. Ég stakk sogröri í stútinn á úðabrúsanum, rak rörið á bólakaf í tappann í vatnslásnum og úðaði þar til ekki tók meira við en þá var kremið búið. Síðan var beðið í um klukkutíma og skolað niður með kröftugri bunu eftir að sturtuhausinn var tekin af.Huxflux, stíflan farin, einum brúsa færra í baðskápnum, ánægðar stelpur daginn eftir og enn ánægðari eiginmaður. Nú getur hann einbeitt sér að einhverju skemmtilegu eins og að setja aurhlíf á framhjólið á Gary Fisher hjólinu.
Hvernig virkar þetta svo. Í hárinu er keratin fjölliða. Thioglycolat háreyðingarefnið brýtur niður tvítengi mili brennsteinsatoma í keratíninu og veikir þannig byggingu þess en tvítengin gera keratínsameindina mjög stöðuga. Vítissódin, kalíumhýdroxíð, hjálpar til með því að éta upp fituna í tappanum og breyta henni í sápu og með því að æta upp önnur lífræn efni.
Það er samt hæpið að það borgi sig að kaupa háreyðingarefni sérstaklega til þess að losa stíflur.Það er rándýrt. En ef maður á gamlan ónotaðan brúsa er þetta góð leið til að farga honum.Bloggar | 28.1.2010 | 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það hefur orðið hrun á Íslandi og tími til kominn að fasteignaverð lækki á landinu í samræmi við það. Í öðrum löndum lækkar fasteignaverð um leið og bólan springur og eftirspurnin eftir fasteignum minnkar. Hér á landi lækkar nafnverð fasteigna lítið sem ekkert en raunverð fasteigna rýrnar með verðbólgunni.
Afleiðingin er að við sitjum uppi með frosinn fasteignamarkað til margra ára meðan beðið er eftir að fasteignaverðið nái markaðsverði í samræmi við eftirspurn. Með þessu áframhaldi fer markaðurinn ekki að taka við sér fyrr en eftir tvö þegar verðið verður búið að rýrna um önnur 20% vegna verðbólgunnar.
Hversvegna gilda ekki markaðslögmál á þessu landi líkt og í öðrum löndum í kringum okkur? Það væri gaman að fá innlegg frá einhverjum spekingi um það. Mig grunar að hátt hlutfall verðtryggðra lána komi þar við sögu. Einnig hlýtur óvissan sem ríkir í efnahagsmálum að eiga ríkan þátt í frosnum fasteignamarkaði.
Hagsmunaaðilar í fasteignabransanum hafa eins og venjulega reynt að berjast gegn markaðslögmálunum með því að kjafta upp verð á fasteignum.
Vonandi fer nú að koma að eðlilegri nafnverðslækkun fasteigna. Það verður sársaukafullt fyrir alla að horfast í augu staðreyndir en nauðsynlegt eigi að síður.
![]() |
Verðbólgan mælist 6,6% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | 26.1.2010 | 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fundur um umferðaröryggismál í Haukahúsinu í Hafnarfirði 11. janúar ályktaði á fundi að skora á stjórnvöld að ljúka framkvæmdum á næstu 12 mánuðum við vegrið á milli akbrauta á þeim 47,2 kílómetrum 2+2 vega á landinu sem en eru án slíks vegriðs. Þetta er birt á vef Umferðarráðs undir fyrirsögninni: Núllsýn FÍB og Umferðarráðs.
Þessi viðbrögð virðast vera vegna banaslyssins á Hafnarfjarðarvegi þar sem þrír létust fyrir áramót.
Ég get ekki að því gert að mér finnast þetta ekki rétt viðbrögð við þessu slysi. Hafnarfjarðarvegur er ekki alls staðar gerður fyrir þann umferðarhraða sem er leyfður á honum og það væri mun nærtækara að lækka umferðarhraðann úr 80 km/klst niður í 60 km/klst á þeim stað sem slysið varð á enda leyfir hönnun vegarins ekki meiri hraða. Það er einfaldlega ábyrgðarlaust af veghaldara og lögreglu að leyfa of háan ökuhraða. Takið eftir því fundurinn í Hafnarfirði óskaði ekki eftir lægri ökuhraða á Hafnarfjarðarveginum. Hvernig skyldi standa á því?
Í umferðaröryggis umræðunni virðast menn forðast að nefna orsakir fyrir slysum sem oftast liggur hjá bílstjórum. Bílstjórar bera mikla ábyrgð og þeim ber að haga akstri sínum eftir aðstæðum. Bílstjórar sem eru veikir, blindir, háaldraðir, ölvaðir, dópaðir eða syfjaðir eiga ekki að vera úti að keyra.
Undanfarin ár hefur verið rekin mikill áróður fyrir svo kölluðum 2+2 vegum. Nú kemur i ljós að þessir vegir eru bara alls ekki nógu öruggir. Það þarf að hafa vegrið á miðeyjunni milli gagnstæðra akreina alla leið því þessir vegir eru svo hættulegir! Kannski eru þeir hættulegir vegna þess að umferðarhraðinn er of mikill miðað við núllsýnina.
Ef menn ætla að leyfa háan ökuhraða fylgja því óhjákvæmilega banaslys. Banaslys og alvarlega slasað fólk er það gjald sem þarf að greiða fyrir háan ökuhraða í umferðinni. Núllsýn FÍB og Umferðarráðs er til komin vegna þess að þessir aðilar vilja ekki horfast í augu við hvað veldur flestum banaslysum og alvarlegum meiðslum í umferðinni, hár umferðarhraði.
Fyrst breið miðeyja skilar svona litlu er augljóst að best er að sleppa henni í hönnun nýrra vega. Þá er nóg að hafa bara vegrið milli gagnstæðra akreina. Við það sparast það land sem fer undir miðeyjuna og vegagerðin verður ekki eins dýr.
Núllsýn út í öfgar?
Það er svo annað mál að Núllsýnin getur ef hún er keyrð út í öfgar gert það að verkum að menn missi heildarsýn á viðfangsefnið.
Ef menn leyfa um 225.000 stálflykkjum á bilinu 1-2 tonn að geysast á miklum hraða um landið og bæina er hætt við því að einhver verði einhvern tíma fyrir stálflykki og slasist eða deyi. Núllsýnin getur ef illa tekst til orðið til þess að allt annað í samfélaginu verði aflokað og afgirt til að vernda það fyrir stálflykkjunum 225.000. Umferð stálflykkjanna yrði ekki takmörkuð heldur yrði ferðafrelsi þeirra sem ganga, hjóla eða taka strætó takmarkað.
Með öðrum orðum, fílunum verður hleypt lausum í postulínsbúðinni en aumingja postulínið verður allt innilokað og læst til að það verði ekki brotið af fílunum.
Sumir myndu segja að við værum þegar komin hættulega langt á þessari braut. :(
Bílar og akstur | 20.1.2010 | 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það væri einfaldara og ódýrara að lækka ökuhraða til að fækka slysum.
Þar sem banaslysið varð á Hafnarfjarðarvegi er vegurinn ekki gerður fyrir leyfðan ökuhraða. Til að draga úr slysahættu væri einfaldlega hægt að lækka ökuhraða þar niður í 60 km á klukkustund.
Ég legg til að umferðarhraði verði lækkaður frá því sem nú er til að fækka alvarlegum slysum. Til dæmis úr 90 í 80 eða 70 eftir aðstæðum og úr 80 niður í 70 eða 60 eftir aðstæðum.
Umræðan um 2+2 vegi hefur verið á þann veg að þeir séu miklu öruggari. Það er nokkuð til í því en núna virðist vera að koma í ljós að 2+2 dugar ekki til þrátt fyrir breiða miðeyju milli akreina í gagnstæða stefnu. Það þarf að reisa vegrið eftir endilöngum veginum þrátt fyrir miðeyjuna!
Ef á að byggja 2+2 vegi legg ég til að miðeyjunni verði sleppt víðast hvar ef vegrið er milli akreina enda er hún meira og minna óþörf með vegriðinu. Þannig væri vegagerðin ódýrari og vegurinn tæki minna pláss.
Einnig þarf að lagfæra núverandi vegi þannig að þeir séu í samræmi við núverandi veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Lagfæra þarf vegaxlir og öryggisvæði og hafa þær í fullri breidd með sléttu yfirborði. Það eru tiltölulega ódýrar og mannaflsfrekar framkvæmdir sem bæta öryggi veganna mikið og kæmu sér vel í kreppunni.
![]() |
Sameiginlegt markmið allra að fækka slysum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bílar og akstur | 13.1.2010 | 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýtt hefti veftímaritsins Full Circle Magazine er komið út hérna, nr. 32.
Það er ókeypis tölvutímarit með áherslu á Ubuntu linux styrikerfið en hentar í sjálfu sér öllum Linux notendum.
Tölvur og tækni | 4.1.2010 | 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Færsluflokkar
- Birtar blaðagreinar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Blogg um fréttir
- Dægurmál
- Ferðalög
- Fjármál
- Heilbrigðismál
- Hjólreiðar
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Óbirtar blaðagreinar
- Samgöngur
- Spaugilegt
- Stjórnmál og samfélag
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vísindi og fræði
Eldri færslur
- Janúar 2025
- September 2024
- Maí 2024
- Mars 2023
- Ágúst 2020
- Mars 2019
- Janúar 2019
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Nóvember 2017
- Maí 2017
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Nóvember 2015
- Júlí 2015
- Október 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Apríl 2014
- Janúar 2014
- Nóvember 2013
- Október 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Mars 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Júlí 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Janúar 2012
- September 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Janúar 2009
Tenglar
Hjólreiðar
- Landsamtök hjólreiðamanna
- Íslenski fjallahjólaklúbburinn Samtök hjólreiðamanna með ferðalög og samgöngur
- Bikeability UK Hjólafærni verkefnið á Bretlandi
- Cyclecraft Heimasíða John Franklin höfund bókarinnar Cyclecraft
- Lifecycle UK Lifecycle, bresk samtök sem kenna hjólafærni
- Tímaritið Momentum Samgöngu hjólreiðar og hjólamenning í Bandaríkjunum og Kanada
- Tímaritið Velovison Eitt skemmtilegasta hjólatímaritið, mikið með liggjandi hjól
- Laid back bikes í Edinborg Fyrirtæki sem býður ferðir á liggjandi hjólum í Edinborg í Skotlandi
Blogg um hjólreiðar
- Dashjol - Davíð A. Stefánsson Framvinda landfræðilegrar rannsóknar á hjólreiðum á höfuðborgarsvæðinu
- Bjarney Halldórsdóttir Hjólað í Reykjavík
- Hjólaðu maður! Blogg um hjólreiðar að norðan
- Hjóladagbók Bjössa 2009/2010 Hjólaleiðir, myndir, ferðatími og veður
- Íslendingur í Kanada Halldór Gunnarsson "a bike nut from Iceland"
- Copenhagenize Blogg um hjólreiðar í Köben og allan heim
- Copenhagen Cycle Chic Tíska og hjól í Köben
- Chic Cyclist blog "Gellu" hjólreiðar
- Sænsk hjólablogg Yfirlit yfir sænsk hjólablogg
- Malmö - Lund på cykel Marcus doktorsnemi á Skáni bloggar um hjólreiðar
- Karringcykelbloggen Blogg um hjólreiðar í suður Svíþjóð - karring = kelling
- Cycleville Stockholm Bloggað frá Stokkhólmi um hjólreiðar
- Skoti í New York
Viðgerðir á hjólum
- Bicycletutor Myndbönd sem sýna viðgerðir á hjólum
- Park verkfæri Park verkfæri, með sýnikennslu í viðgerðum
- Sheldon Brown Útskýringar á nánast öllu varðandi viðgerðir á hjólum
Ferðir á hjólum
- Crazyguyonabike: Bicycle Touring Safn af ferðafrásögnum, hér má skrá eigin ferðasögu